Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í spurningunni sjálfri kemur fram margt af því sem eitrar umræður og gerir þannig rökræður ómögulegar. Hún er til dæmis leiðandi, með því að svara spurningunni beint er hætt við að svarandi viðurkenni að spyrjandi hafi eitthvað til síns máls. Í henni felst alhæfing sem engin gögn eru fyrir og svo er hún fordómafull. Allt eru þetta atriði sem koma í veg fyrir að rökræða geti komist á skrið um það sem spyrjanda liggur augljóslega á hjarta.
Það mætti hins vegar reyna að svara spurningunni óbeint á þann hátt að rökræður við konur séu einfaldlega álíka ómögulegar og rökræður við karlmenn. Við verðum að minnsta kosti sjaldan vitni að raunverulegum rökræðum og virðast bæði kynin vera á sama báti hvað það varðar. Skoðanaskipti fólks fara fram á þann hátt að mestu gildir að sannfæra viðmælendur fremur en að komast að því hvaða skoðun er réttmæt og sönn, en það mun vera markmið rökræðna.
Við verðum sjaldan vitni að raunverulegum rökræðum og skiptir þá litlu hvort kynið á í hlut.
Hér virðist litlu skipta hver á í hlut. Að afvegaleiða umræðu kemur jafnt upp hjá tvítugum sölufulltrúa og miðaldra háskólaprófessor. Og það þurfa ekki aðeins að vera þekktustu rökvillurnar sem orsaka moðreykinn. Fólk leiðir til dæmis umræður frá kjarna málsins með því að fegra eigin afstöðu og skrumskæla andstæða skoðun. Hlutir eru gefnir í skyn til að forðast að tala hreint út um málefnið og ef það bregst eru einfaldaðar myndir dregnar upp svo aðalatriðin gleymist. Margir nýta sér smjaður til að lauma inn eigin skoðunum á meðan aðrir láta alltaf eins og þeim sé misboðið í öllum málum. Smjaður, frekja eða reiði ruglar hvern sem er í ríminu. Einnig má ávallt finna blóraböggla til að kynda upp hræðsluáróður, en ef enginn óvinur er í sjónmáli má búa þá til með því að spila á afbrýðissemi fólks eða tromma upp þjóðrembu.
Mestu skiptir fyrir þá einstaklinga sem vilja forðast rökræður að koma fram fullir sjálfstrausts. Margir vísa í sönnun fyrir eigin skoðun þar sem engin er, til dæmis með ónákvæmum eða tilbúnum tilvitnunum í rannsóknir og fræðimenn. Mælskubrögð eins og kaldhæðni, háð og ýkjur eru heldur aldrei langt undan þegar fólk reynir að losna við frekari spurningar um viðhorf sín. Fleira getur komið til. Óviðeigandi samanburður og ábending um óskylda hluti eru vinsæl mælskubrögð til að slá ryki í augu viðmælenda. Sérstaklega getur það reynst vel þegar upphefja þarf sjálfan sig á kostnað annarra.
Nú kann einhver að spyrja hvort þetta sé ekki of dökk mynd sem dregin er upp af samskiptum fólks hér að framan. Því er til að svara að það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvers vegna gagnrýni, sjálfstæð hugsun og víðsýni eru ekki meira áberandi dygðir í mannlegum samskiptum. Í gegnum tíðina hafa aðrir, og jafnvel andstæðir, eiginleikar verið líklegri til árangurs. Trygglyndi hefur til dæmis þótt helsti kostur við margar hirðir. Annar skyldur eiginleiki er hjarðlyndið, en vænn skammtur af því hefur væntanlega reynst samfélögum ágætt vegarnesti þar sem samkeppni hefur verið hörð. Það sama má segja um fordóma og þröngsýni en andstæðir eiginleikar hafa líklega reynst fjötur um fót í gegnum þróunarsögu mannkyns.
Trygglyndi hefur þótt helsti kostur við margar hirðir. Hluti af myndinni Gonzagafjölskyldan eftir ítalska málarann Andrea Mantegna.
Allt þetta hlýtur að spila inn í hvers vegna það er svo erfitt að rökræða við fólk. Við megum þó ekki draga þá ályktun að rökræður sem slíkar geti aldrei átt sér stað. Eins og saga vísinda og fræða sýnir glögglega hefur alltaf verið til fólk sem leiðir ekki forsendur hjá sér, gerir sér grein fyrir áhrifaþáttum á eigin skoðanir og reynir að finna sem flestar hliðar hvers máls. Þannig hefur með rökræðum verið aukið við þekkingu mannkyns. Til þess að rökræður geti blómstrað, hjá báðum kynjum, þarf hins vegar að laga umræðumenninguna og fyrsta skrefið í því gæti verið að fólk geri sér grein fyrir ofangreindum annmörkum á skoðanaskiptum, jafnt í opinberri umræðu og í dagsins önn.
Heimildir:
Cavender, N. og Kahane, H., Logic and Contemporary Rhetoric. The Use of Reason in Everyday Life. Boston: Wadsworth, Cengage Learning, 2014.
Moore, B.N. og Parker, R., Critical Thinking. New York: McGraw-Hill, 2012.
Henry Alexander Henrysson. „Af hverju er ekki hægt að rökræða við konur?“ Vísindavefurinn, 23. október 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47766.
Henry Alexander Henrysson. (2015, 23. október). Af hverju er ekki hægt að rökræða við konur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47766
Henry Alexander Henrysson. „Af hverju er ekki hægt að rökræða við konur?“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47766>.