Sérhver hlutur heldur áfram að vera í kyrrstöðu, eða á jafnri hreyfingu eftir beinni línu, nema kraftar sem á hann verka þvingi hann til að breyta því ástandi.Lögmálið segir okkur að ef byssukúlan rekst ekki á neinn hlut, og verður ekki fyrir áhrifum neinna krafta, þá mun hún halda sama hraða að eilífu. Við ályktum því að ef leið kúlunnar liggur nægilega langt í burtu frá öllum nálægum himintunglum og þyngdarkrafti þeirra, þá helst hraði hennar óbreyttur um alla tíð, því að í geimnum er enginn núningur til að hægja á henni.
Glöggur lesandi hefur bent okkur á að þetta svar er ekki alveg rétt. Þó að efnisþéttleikinn í geimnum sé lítill þá er hann einhver, og því mun hraði byssukúlunnar minnka vegna núnings. Við ákváðum að hundsa þennan núning í svarinu okkar af því að í einum rúmmetra í geimnum eru einungis um þrjú vetnisatóm. Ef við gerum ráð fyrir að kúlunni okkar takist að rekast á öll þrjú vetnisatómin á sérhverjum metra á leið sinni, þá verður hún búinn að fara gegnum einn vatnsdropa af vetnisatómum eftir 50.000 milljón milljón ár. Til samanburðar er aldur alheimsins um 13.000 milljón ár. Áhugasamir geta kynnt sér lögmál Newtons í svörum Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunum:
- Hvað segir fyrsta lögmál Newtons?
- Hvernig hljóðar annað lögmál Newtons?
- Hvernig á að útskýra þriðja lögmál Newtons?
- Hversu hátt næði byssukúla sem skotið væri af jörðinni, og væri fólk í hættu þegar hún lenti? eftir Einar Örn Þorvaldsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað gerist ef bíll er á sama hraða og byssukúla ferðast, og maður skýtur úr byssu afturábak? Stoppar kúlan eða heldur hún áfram? eftir Þorstein Vilhjálmsson
Ef hægt væri að skjóta af byssu úti í geimnum, myndi þá byssukúlan halda sama hraða að eilífu ef ekkert yrði á vegi hennar? Ef hún hægir á sér, hvers vegna gerist það?