Samanborið við aðra fræga menn þá var Newton ekki talinn hafa verið neitt sérstakt undrabarn, en hann þótti reyndar greindur. Hann var metnaðarfullur í skólanum og átján ára að aldri var hann innritaður í hin fræga og áhrifamikla háskóla Trinity College í Cambridge. Honum var ívilnað í skólagjöldum gegn því að vera kennara sínum innan handar um ýmis viðvik, hann var svokallaður „subsizar“. Prófessor að nafni Isaac Barrow hvatti hann til stærðfræðiiðkana og vakti einnig athygli hans á ljósfræði, því að honum þótti Newton afar efnilegur. En Newton lauk BA-prófi árið 1665, án þess þó að skara neitt sérstaklega fram úr. Plágan mikla sem svo var kölluð hafði byrjað vægt í London árið áður en færðist nú í aukana og um haustið var ákveðið að loka háskólanum í Cambridge. Newton fór þá heim til sín til Woolsthorpe þar sem hann dvaldist í samtals átján mánuði. Sú sveitadvöl hans hefur orðið afar fræg í vísindasögunni. Þar nýtti hann tímann vel að eigin sögn og velti meðal annars fyrir sér hreyfingu hluta. Ein frægasta atvikasaga hugmyndasögunnar segir að Newton hafi eitt sinn setið undir eplatré og hafi séð epli falla úr því. Hann á þá að hafa byrjað að velta því fyrir sér hvað ylli því að eplið félli lóðrétt til jarðar, og hvort sami kraftur væri orsök þess að tunglið hreyfist á braut um jörðu. Að loknum margra ára rannsóknum birti hann lögmál sín þrjú um hreyfingu og fjórða lögmálið, þyngdarlögmálið, sem skýrði í einu lagi fall eplisins og hreyfingu tunglsins. Menn deila um hvort þessi saga hafi gerst svona í raunveruleikanum, en Newton sjálfur sagði söguna nokkrum sinnum á efri árum. Athugasemdir hans um skyndilega og mikla hugljómun eiga sér hins vegar enga stoð í handritum hans; þau sýna þvert á móti samfellda þróun hugmynda þar til lokamarki er náð löngu síðar. Newton varð að sanna kenningar sínar með útreikningum en þá vantaði stærðfræði sem var ekki til þegar eplið datt. Þá tók Newton það til bragðs að þróa hana sjálfur. Hann kallaði þetta flæðisaðferðina, sem við köllum nú örsmæðareikning, annars vegar diffurreikning eða deildareikning og hins vegar andhverfu hans, tegurreikning eða heildareikning.
Snemma árs 1667 hélt Newton aftur til Cambridge þar sem hann var fljótlega gerður að aukastyrkþega og síðan að aðalstyrkþega við Háskólann. Árið 1669, 26 ára að aldri tók hann svo við prófessorsstól Lucas’ eftir Barrow. Á þeim tíma beindist áhugi hans mjög að ljósfræði, og áttu rannsóknir hans á því sviði mikinn þátt í að skapa honum frægð og viðurkenningu í fyrstu. Newton smíðaði fyrsta spegilsjónaukann með eigin höndum, og þannig gat hann náð meiri stækkun en Galíleó og Huygens höfðu getað með linsusjónaukum sínum. Spurnir bárust af sjónauka Newtons til Konunglega vísindafélagsins í London sem lét í ljós ósk um að sjá hann. Hann smíðaði nýjan sem hann gaf þeim og í framhaldi af því var hann kjörinn félagi í Vísindafélaginu. Á árunum 1672-84 samdi Newton ýmis handrit og bréf sem vörðuðu ljósfræði, örsmæðareikning og aðrar greinar stærðfræðinnar, hreyfingu reikistjarna og halastjörnur. Árið 1686 var Vísindafélaginu afhentur fyrsti hluti handrits að ritgerð sem hét Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar, en þar setur Newton fram stærðfræðilega sönnun á sólmiðjukenningu Kópernikusar eins og Kepler lagði hana fram. Annar og þriðji hlutinn komu fljótlega í kjölfarið og bókin kom út á prenti árið 1687, og fékk þá nafnið Principia. Hún fékk almennt góða dóma og alþjóðaheimur fræðimanna tók nokkurn veginn strax að tileinka sér hina nýju hugsun. Snemma ársins 1689 var Newton kjörinn á breska þingið fyrir Háskólann í Cambridge. Hann fluttist þá til London en fljótlega upp úr því fór hann að þjást af eirðarleysi. Árið 1693 sóttu þunglyndi og ranghugmyndir að honum og segja sumir að hann hafi fengið taugaáfall. Hann náði sér þó aftur á strik og árið 1696 varð hann varðstjóri við Myntsláttuna og síðar var hann gerður að yfirmanni hennar. Árið 1703 var hann kjörinn forseti Konunglega vísindafélagsins, en því starfi gegndi hann til æviloka. Árið eftir kom út eftir hann bókin Ljósfræði, eða ritgerð um endurkast, brot, beygjuskil og liti ljóss, sem sýndi að hann lagði enn stund á rannsóknir og ritstörf. Tveimur árum síðar var hann sleginn til riddara í Trinity College, en það var í fyrsta sinn sem þessi heiðurstitill Breta var veittur fyrir vísindastörf. Á seinni árum voru fleiri rit gefin út eftir Newton, bæði gömul og ný og einnig viðbætur við fyrri bækur. En hann fór að sinna öðrum áhugamálum sínum líka, til dæmis að ræða guðfræði, túlkun Biblíunnar, gullgerðarlist og ýmiss konar dulspeki. En þegar hann stóð á áttræðu fór heilsu hans að hraka og þremur árum síðar sýktist hann í lungum. Hann fluttist þá til Kensington þar sem hann lést 20. mars 1727. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver eru lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað segir fyrsta lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig hljóðar annað lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig á að útskýra þriðja lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er ítrun Newtons? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Þorsteinn Vilhjálmsson, 1987. Heimsmynd á hverfanda hveli, II. Reykjavík: Mál og menning.
- Wikipedia.com - Newton. Sótt 25.6.2010.
- Wikipedia.com - Principia. Sótt 25.6.2010.