Um svipað leyti gerði Kepler aðra uppgötvun, því að dóttir efnaðs myllueiganda hafði „kveikt eld í hjarta hans“. Þau giftust og áttu fimm börn en aðeins tvö þeirra náðu fullorðinsaldri. Auður tengdaföðurins átti þó eftir að reynast haldlítill og torsóttur á tímum trúarbragðastyrjalda og farsótta á þessum slóðum í Evrópu. Kepler var uppalinn við lúterstrú og hélt tryggð við hana alla ævi, þó að hann hefði sjálfstæðar skoðanir á trúmálum eins og ýmsu öðru. Nú voru katólikkar að hefja gagnsókn gegn mótmælendum í Norður-Evrópu og skyldi meðal annars hreinsa óværuna af Steiermark þar sem Kepler bjó. Þótt Kepler hefði komið sér vel við katólska kollega sína varð honum að lokum ekki vært. Hann hafði þegar átt bréfaskipti við Týchó Brahe sem gegndi stöðu keisaralegs stærðfræðings í Prag og Týchó hafði boðið honum til sín í Prag. Hinn 1. janúar árið 1600 hélt Kepler til fundar við Týchó. Þar með hófst stormasamt samstarf sem stóð með hléum þar til Týchó lést rúmlega hálfu öðru ári síðar. Þegar Kepler kom til Benatek-kastalans við Prag þar sem Týchó hafði komið sér fyrir var honum falið að spreyta sig á stjörnu hernaðarguðsins Mars og átti sú ráðstöfun hins danska aðalsmanns svo sannarlega eftir að bera ávöxt í fyllingu tímans.
Strax eftir dauða Týchó Brahe í október 1601 kom persónulegur ráðgjafi Rúdolfs II keisara til Keplers til að útnefna hann eftirmann Týchó í embætti keisaralegs stærðfræðings. Árið 1601 gaf Kepler út ritið Um hinar öruggari undirstöður stjörnuspekinnar. Vegna fátæktar gat hann ekki fúlsað við þeim tekjum sem stjörnuspekin færði honum. Hins vegar er talið að hann hafi verið blendinn í trúnni á þessa speki eins og fleira sem viðtekið var. Bókin um viðureignina við Mars, Ný stjörnufræði (Astronomia Nova), kom út árið 1609 og er venjulega talin veigamesta ritverk Keplers. Í þessari frægu bók segir Kepler rækilega frá viðureigninni við Mars og hvernig hann að endingu komst að þeirri niðurstöðu að braut stjörnunnar sé hvorki hringur né samsett úr hringum eins og þá hafði verið talið um aldir, heldur sporbaugur (e. ellipse). Eftir að nýr keisari kom til valda í Prag varð Kepler „héraðsstærðfræðingur“ í Linz í Austurríki. Um svipað leyti missti hann bæði eitt barn og konu sína. Telja margir að þá hafi lokið besta og frjóasta skeiðinu í lífi Keplers. Hann bætti börnunum móðurleysið með því að kvænast aftur árið eftir, 1613. Má segja að hann hafi reiknað sér konu því að til er skjal þar sem hann lýsir konuvalinu. Hann bjó sér fyrst til lista með ellefu konum sem komu til álita. Síðan valdi hann úr með svipuðum aðferðum og hann hafði fundið braut Mars: Hann gerði reiknivillur en leiðrétti þær síðan eða þær vógu hver aðra upp. Og að lokum vísaði Guð honum aftur á þá fimmtu í röðinni. Er yfirleitt talið að þetta val hafi tekist vel. Árið 1619 gaf Kepler út bókina Samhljómar heimsins (Harmonice Mundi). Það nafn gefur til kynna undirtónana í ævistarfi hans sem heild. Þarna setur hann fram í endanlegum búningi öll lögmálin þrjú sem við hann eru kennd. Á þessum sömu árum (1617-21) var Kepler að gefa út rit sem hann nefndi Ágrip af stjörnufræði Kópernikusar (Epitome astronomiae Copernicanae). Það varð síðar áhrifaríkt til kynningar á sólmiðjukenningunni. Kepler átti eftir að koma á prent einni bók sem máli skipti og hafði hún verið lengi í smíðum. Töflur Rúdolfs (Tabulae Rudolphinae) komu út árið 1627 en þeir Kepler og Týchó höfðu byrjað á þeim í Prag forðum daga. Þetta voru mun fullkomnari töflur um gang himintungla en áður höfðu þekkst og mörkuðu tímamót í stjörnufræði og siglingafræði. Þær voru fyrstu töflurnar sem komu að verulegum notum í siglingum og eru undanfari sjóferðaalmanakanna sem notuð eru nú á dögum. Kepler var nú farinn að hugsa sér til hreyfings frá Linz og réð sig í þjónustu herforingjans og stjórnmálamannsins Albrechts Wallensteins sem frægur varð fyrir mikil tilþrif í þrjátíu ára stríðinu. Hann var illa haldinn af hjátrú og Kepler lét til leiðast að hjálpa stjörnuspekingum hans um nákvæma útreikninga til að byggja á í stjörnuspám. Hins vegar þverneitaði hann að gerast spámaður sjálfur eða að „láta nota sig sem skemmtikraft“. Árið 1628 settist Kepler að ásamt fjölskyldu sinni í borginni Sagan á vegum Wallensteins. Þar hófst hann handa um prentun bókar sem hann hafði lengi átt drög að í handraðanum. Hún heitir Draumurinn eða Stjörnufræði á tunglinu (Somnium). Hann skrifaði nú fjölmargar athugasemdir eða neðanmálsgreinar við upphaflega textann og bjó verkið þannig til prentunar. Bókin er sett fram sem viðtal við fjölfróðan anda sem útskýrir hvernig hægt sé að fara til tunglsins og Kepler lætur ferðina hefjast á Íslandi sem hann hefur trúlega fræðst um hjá Dananum Týchó Brahe. Prentun Draumsins dróst á langinn og lauk ekki fyrr en nokkrum árum eftir að höfundurinn dó eftir mæðusama ævi. Árið 1630 tók Kepler sér ferð á hendur til Regensburg til fundar við „keisarann“ og hirð hans. Ætlaði hann meðal annars að reyna enn einu sinni að innheimta skuldir sínar. Nokkrum dögum eftir að hann kom til borgarinnar veiktist hann og lést skömmu síðar, 58 ára að aldri. Hann var grafinn í kirkjugarði mótmælenda í Regensburg. Garðurinn var síðan eyðilagður með öllu í þrjátíu ára stríðinu svo að gröf hans er nú óþekkt. Myndir:
- Kepler: Wikipedia - Johannes Kepler. (Sótt 29.6.2018).
- Margflötungar: Connexions.
- Stytta af Brahe og Kepler: Brahe kepler.jpg á Wikipedia, the free encyclopedia.
- Mynd úr Töflum Rúdolfs: Wikimedia Commons - Libr0310. (sótt 29.6.2018).
Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um Kepler í bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli II eftir Þorstein Vilhjálmsson. Með því að smella hér má sjá í töflu yfirlit yfir helstu þætti í ævi Jóhannesar Kepler.