Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Jóhannes Kepler?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Þýski stjörnufræðingurinn Jóhannes Kepler fæddist í borginni Weil der Stadt skammt frá Stuttgart í Þýskalandi þann 27. desember árið 1571 klukkan 2:30 eftir hádegi eftir meðgöngu sem tók 224 daga, 9 klukkustundir og 53 mínútur samkvæmt útreikningum hans sjálfs.

Ævi hans var sorgarsaga í öllu sem kallast ytri aðstæður. Hann var ekki af efnafólki kominn og talið er að hjónaband foreldra hans hafi verið óhamingjusamt. Faðirinn var málaliði og segir sagan að hann hafi misst allar eigur sínar eftir að hafa veðsett þær fyrir vin sinn. Móðir hans ku hafa verið nöldursöm veitingamannsdóttir sem var síðar grunuð um galdra.

Jóhannes Kepler (1571-1630). Málverk frá um 1610.

Þrátt fyrir heilsuleysi sem fylgdi Jóhannesi frá barnæsku, vakti hann athygli í skóla sem frábær námsmaður. Hertogarnir í Württemberg höfðu komið á sérstökum námsstyrkjum til að gera efnilegum lágstéttarpiltum kleift að stunda skólanám og það varð Kepler til bjargar. Hann var sendur í klausturskóla og síðan í háskóla þar sem hann stundaði almennt nám á árunum 1588-91. Meðal kennara hans var Michael Mästlin (1550-1631) sem var einna fyrstur fræðimanna á meginlandi Evrópu til að taka upp sólmiðjukenningu Kópernikusar, sem hann hafði sett fram í frægri bók árið 1543. Kennsla Mästlins er talin hafa ráðið úrslitum um stuðning Keplers við sólmiðjukenninguna sem skipti sköpum í lífi hans.

Kepler hóf síðan guðfræðinám til að búa sig undir prestskap. Árið 1594, þegar hann átti aðeins hálft ár eftir, tók hann boði um stöðu stærðfræðikennara við menntaskóla í borginni Graz í Austurríki. Leið þá heldur ekki á löngu þar til hann fór að setja fram frumlegar hugmyndir í stærðfræðilegum eðlisvísindum.

Kepler fékk þá merkilegu hugmynd í Graz að fjöldi og brautir reikistjarnanna tengdust hinum svokölluðu reglulegu margflötungum. Þeir höfðu verið kunnir í rúmfræði allt frá dögum Forngrikkja og eru oft kenndir við Platón. Kepler gerði umheiminum grein fyrir þessari uppgötvun sinni í bók sem kom út árið 1596 og hét Leyndardómur heimsmyndarinnar (Mysterium Cosmographicum). Þótt "uppgötvunin" sé ekki talin upp á marga fiska nú á dögum, þá bar ritið óneitanlega vott um góða þekkingu og frumlega hugsun, samfara natni og þolinmæði. Þannig varð bókin til þess að kynna hinn unga Kepler fyrir Týchó Brahe og Galíleó sem voru eldri og þekktari en hann.



Í bókinni Leyndardómur heimsmyndarinnar frá 1596 tengir Kepler fjölda og brautir reikistjarnanna við reglulega margflötunga. Þessi teikning úr bókinni sýnir hvernig hann hugsaði sér að hægt væri að umrita og innrita kúlur með brautum reikistjarnanna á víxl með mismunandi margflötungum. Út frá því gat hann reiknað út hlutföllin milli geislanna eða radíanna í brautum reikistjarnanna.

Um svipað leyti gerði Kepler aðra uppgötvun, því að dóttir efnaðs myllueiganda hafði „kveikt eld í hjarta hans“. Þau giftust og áttu fimm börn en aðeins tvö þeirra náðu fullorðinsaldri. Auður tengdaföðurins átti þó eftir að reynast haldlítill og torsóttur á tímum trúarbragðastyrjalda og farsótta á þessum slóðum í Evrópu.

Kepler var uppalinn við lúterstrú og hélt tryggð við hana alla ævi, þó að hann hefði sjálfstæðar skoðanir á trúmálum eins og ýmsu öðru. Nú voru katólikkar að hefja gagnsókn gegn mótmælendum í Norður-Evrópu og skyldi meðal annars hreinsa óværuna af Steiermark þar sem Kepler bjó. Þótt Kepler hefði komið sér vel við katólska kollega sína varð honum að lokum ekki vært. Hann hafði þegar átt bréfaskipti við Týchó Brahe sem gegndi stöðu keisaralegs stærðfræðings í Prag og Týchó hafði boðið honum til sín í Prag.

Hinn 1. janúar árið 1600 hélt Kepler til fundar við Týchó. Þar með hófst stormasamt samstarf sem stóð með hléum þar til Týchó lést rúmlega hálfu öðru ári síðar. Þegar Kepler kom til Benatek-kastalans við Prag þar sem Týchó hafði komið sér fyrir var honum falið að spreyta sig á stjörnu hernaðarguðsins Mars og átti sú ráðstöfun hins danska aðalsmanns svo sannarlega eftir að bera ávöxt í fyllingu tímans.



Stytta af Týchó Brahe og Jóhannesi Kepler utan við Keplermenntaskólann í Prag í Tékklandi.

Strax eftir dauða Týchó Brahe í október 1601 kom persónulegur ráðgjafi Rúdolfs II keisara til Keplers til að útnefna hann eftirmann Týchó í embætti keisaralegs stærðfræðings.

Árið 1601 gaf Kepler út ritið Um hinar öruggari undirstöður stjörnuspekinnar. Vegna fátæktar gat hann ekki fúlsað við þeim tekjum sem stjörnuspekin færði honum. Hins vegar er talið að hann hafi verið blendinn í trúnni á þessa speki eins og fleira sem viðtekið var.

Bókin um viðureignina við Mars, Ný stjörnufræði (Astronomia Nova), kom út árið 1609 og er venjulega talin veigamesta ritverk Keplers. Í þessari frægu bók segir Kepler rækilega frá viðureigninni við Mars og hvernig hann að endingu komst að þeirri niðurstöðu að braut stjörnunnar sé hvorki hringur né samsett úr hringum eins og þá hafði verið talið um aldir, heldur sporbaugur (e. ellipse).

Eftir að nýr keisari kom til valda í Prag varð Kepler „héraðsstærðfræðingur“ í Linz í Austurríki. Um svipað leyti missti hann bæði eitt barn og konu sína. Telja margir að þá hafi lokið besta og frjóasta skeiðinu í lífi Keplers.

Hann bætti börnunum móðurleysið með því að kvænast aftur árið eftir, 1613. Má segja að hann hafi reiknað sér konu því að til er skjal þar sem hann lýsir konuvalinu. Hann bjó sér fyrst til lista með ellefu konum sem komu til álita. Síðan valdi hann úr með svipuðum aðferðum og hann hafði fundið braut Mars: Hann gerði reiknivillur en leiðrétti þær síðan eða þær vógu hver aðra upp. Og að lokum vísaði Guð honum aftur á þá fimmtu í röðinni. Er yfirleitt talið að þetta val hafi tekist vel.

Árið 1619 gaf Kepler út bókina Samhljómar heimsins (Harmonice Mundi). Það nafn gefur til kynna undirtónana í ævistarfi hans sem heild. Þarna setur hann fram í endanlegum búningi öll lögmálin þrjú sem við hann eru kennd. Á þessum sömu árum (1617-21) var Kepler að gefa út rit sem hann nefndi Ágrip af stjörnufræði Kópernikusar (Epitome astronomiae Copernicanae). Það varð síðar áhrifaríkt til kynningar á sólmiðjukenningunni.

Þessi mynd er titilmyndin í Töflum Rúdolfs. Ef þysjað er inn á myndina í rauða kassanum sést Kepler að störfum við kertaljós á skrifborðinu.

Kepler átti eftir að koma á prent einni bók sem máli skipti og hafði hún verið lengi í smíðum. Töflur Rúdolfs (Tabulae Rudolphinae) komu út árið 1627 en þeir Kepler og Týchó höfðu byrjað á þeim í Prag forðum daga. Þetta voru mun fullkomnari töflur um gang himintungla en áður höfðu þekkst og mörkuðu tímamót í stjörnufræði og siglingafræði. Þær voru fyrstu töflurnar sem komu að verulegum notum í siglingum og eru undanfari sjóferðaalmanakanna sem notuð eru nú á dögum.

Kepler var nú farinn að hugsa sér til hreyfings frá Linz og réð sig í þjónustu herforingjans og stjórnmálamannsins Albrechts Wallensteins sem frægur varð fyrir mikil tilþrif í þrjátíu ára stríðinu. Hann var illa haldinn af hjátrú og Kepler lét til leiðast að hjálpa stjörnuspekingum hans um nákvæma útreikninga til að byggja á í stjörnuspám. Hins vegar þverneitaði hann að gerast spámaður sjálfur eða að „láta nota sig sem skemmtikraft“.

Árið 1628 settist Kepler að ásamt fjölskyldu sinni í borginni Sagan á vegum Wallensteins. Þar hófst hann handa um prentun bókar sem hann hafði lengi átt drög að í handraðanum. Hún heitir Draumurinn eða Stjörnufræði á tunglinu (Somnium). Hann skrifaði nú fjölmargar athugasemdir eða neðanmálsgreinar við upphaflega textann og bjó verkið þannig til prentunar. Bókin er sett fram sem viðtal við fjölfróðan anda sem útskýrir hvernig hægt sé að fara til tunglsins og Kepler lætur ferðina hefjast á Íslandi sem hann hefur trúlega fræðst um hjá Dananum Týchó Brahe. Prentun Draumsins dróst á langinn og lauk ekki fyrr en nokkrum árum eftir að höfundurinn dó eftir mæðusama ævi.

Árið 1630 tók Kepler sér ferð á hendur til Regensburg til fundar við „keisarann“ og hirð hans. Ætlaði hann meðal annars að reyna enn einu sinni að innheimta skuldir sínar. Nokkrum dögum eftir að hann kom til borgarinnar veiktist hann og lést skömmu síðar, 58 ára að aldri. Hann var grafinn í kirkjugarði mótmælenda í Regensburg. Garðurinn var síðan eyðilagður með öllu í þrjátíu ára stríðinu svo að gröf hans er nú óþekkt.

Myndir:


Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um Kepler í bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli II eftir Þorstein Vilhjálmsson. Með því að smella hér má sjá í töflu yfirlit yfir helstu þætti í ævi Jóhannesar Kepler.

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

23.11.2007

Spyrjandi

Þórdís Jónsdóttir, Heiða Valdimarsdóttir, Atli Guðbrandsson

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Jóhannes Kepler?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6922.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2007, 23. nóvember). Hver var Jóhannes Kepler? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6922

Þorsteinn Vilhjálmsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Jóhannes Kepler?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6922>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jóhannes Kepler?
Þýski stjörnufræðingurinn Jóhannes Kepler fæddist í borginni Weil der Stadt skammt frá Stuttgart í Þýskalandi þann 27. desember árið 1571 klukkan 2:30 eftir hádegi eftir meðgöngu sem tók 224 daga, 9 klukkustundir og 53 mínútur samkvæmt útreikningum hans sjálfs.

Ævi hans var sorgarsaga í öllu sem kallast ytri aðstæður. Hann var ekki af efnafólki kominn og talið er að hjónaband foreldra hans hafi verið óhamingjusamt. Faðirinn var málaliði og segir sagan að hann hafi misst allar eigur sínar eftir að hafa veðsett þær fyrir vin sinn. Móðir hans ku hafa verið nöldursöm veitingamannsdóttir sem var síðar grunuð um galdra.

Jóhannes Kepler (1571-1630). Málverk frá um 1610.

Þrátt fyrir heilsuleysi sem fylgdi Jóhannesi frá barnæsku, vakti hann athygli í skóla sem frábær námsmaður. Hertogarnir í Württemberg höfðu komið á sérstökum námsstyrkjum til að gera efnilegum lágstéttarpiltum kleift að stunda skólanám og það varð Kepler til bjargar. Hann var sendur í klausturskóla og síðan í háskóla þar sem hann stundaði almennt nám á árunum 1588-91. Meðal kennara hans var Michael Mästlin (1550-1631) sem var einna fyrstur fræðimanna á meginlandi Evrópu til að taka upp sólmiðjukenningu Kópernikusar, sem hann hafði sett fram í frægri bók árið 1543. Kennsla Mästlins er talin hafa ráðið úrslitum um stuðning Keplers við sólmiðjukenninguna sem skipti sköpum í lífi hans.

Kepler hóf síðan guðfræðinám til að búa sig undir prestskap. Árið 1594, þegar hann átti aðeins hálft ár eftir, tók hann boði um stöðu stærðfræðikennara við menntaskóla í borginni Graz í Austurríki. Leið þá heldur ekki á löngu þar til hann fór að setja fram frumlegar hugmyndir í stærðfræðilegum eðlisvísindum.

Kepler fékk þá merkilegu hugmynd í Graz að fjöldi og brautir reikistjarnanna tengdust hinum svokölluðu reglulegu margflötungum. Þeir höfðu verið kunnir í rúmfræði allt frá dögum Forngrikkja og eru oft kenndir við Platón. Kepler gerði umheiminum grein fyrir þessari uppgötvun sinni í bók sem kom út árið 1596 og hét Leyndardómur heimsmyndarinnar (Mysterium Cosmographicum). Þótt "uppgötvunin" sé ekki talin upp á marga fiska nú á dögum, þá bar ritið óneitanlega vott um góða þekkingu og frumlega hugsun, samfara natni og þolinmæði. Þannig varð bókin til þess að kynna hinn unga Kepler fyrir Týchó Brahe og Galíleó sem voru eldri og þekktari en hann.



Í bókinni Leyndardómur heimsmyndarinnar frá 1596 tengir Kepler fjölda og brautir reikistjarnanna við reglulega margflötunga. Þessi teikning úr bókinni sýnir hvernig hann hugsaði sér að hægt væri að umrita og innrita kúlur með brautum reikistjarnanna á víxl með mismunandi margflötungum. Út frá því gat hann reiknað út hlutföllin milli geislanna eða radíanna í brautum reikistjarnanna.

Um svipað leyti gerði Kepler aðra uppgötvun, því að dóttir efnaðs myllueiganda hafði „kveikt eld í hjarta hans“. Þau giftust og áttu fimm börn en aðeins tvö þeirra náðu fullorðinsaldri. Auður tengdaföðurins átti þó eftir að reynast haldlítill og torsóttur á tímum trúarbragðastyrjalda og farsótta á þessum slóðum í Evrópu.

Kepler var uppalinn við lúterstrú og hélt tryggð við hana alla ævi, þó að hann hefði sjálfstæðar skoðanir á trúmálum eins og ýmsu öðru. Nú voru katólikkar að hefja gagnsókn gegn mótmælendum í Norður-Evrópu og skyldi meðal annars hreinsa óværuna af Steiermark þar sem Kepler bjó. Þótt Kepler hefði komið sér vel við katólska kollega sína varð honum að lokum ekki vært. Hann hafði þegar átt bréfaskipti við Týchó Brahe sem gegndi stöðu keisaralegs stærðfræðings í Prag og Týchó hafði boðið honum til sín í Prag.

Hinn 1. janúar árið 1600 hélt Kepler til fundar við Týchó. Þar með hófst stormasamt samstarf sem stóð með hléum þar til Týchó lést rúmlega hálfu öðru ári síðar. Þegar Kepler kom til Benatek-kastalans við Prag þar sem Týchó hafði komið sér fyrir var honum falið að spreyta sig á stjörnu hernaðarguðsins Mars og átti sú ráðstöfun hins danska aðalsmanns svo sannarlega eftir að bera ávöxt í fyllingu tímans.



Stytta af Týchó Brahe og Jóhannesi Kepler utan við Keplermenntaskólann í Prag í Tékklandi.

Strax eftir dauða Týchó Brahe í október 1601 kom persónulegur ráðgjafi Rúdolfs II keisara til Keplers til að útnefna hann eftirmann Týchó í embætti keisaralegs stærðfræðings.

Árið 1601 gaf Kepler út ritið Um hinar öruggari undirstöður stjörnuspekinnar. Vegna fátæktar gat hann ekki fúlsað við þeim tekjum sem stjörnuspekin færði honum. Hins vegar er talið að hann hafi verið blendinn í trúnni á þessa speki eins og fleira sem viðtekið var.

Bókin um viðureignina við Mars, Ný stjörnufræði (Astronomia Nova), kom út árið 1609 og er venjulega talin veigamesta ritverk Keplers. Í þessari frægu bók segir Kepler rækilega frá viðureigninni við Mars og hvernig hann að endingu komst að þeirri niðurstöðu að braut stjörnunnar sé hvorki hringur né samsett úr hringum eins og þá hafði verið talið um aldir, heldur sporbaugur (e. ellipse).

Eftir að nýr keisari kom til valda í Prag varð Kepler „héraðsstærðfræðingur“ í Linz í Austurríki. Um svipað leyti missti hann bæði eitt barn og konu sína. Telja margir að þá hafi lokið besta og frjóasta skeiðinu í lífi Keplers.

Hann bætti börnunum móðurleysið með því að kvænast aftur árið eftir, 1613. Má segja að hann hafi reiknað sér konu því að til er skjal þar sem hann lýsir konuvalinu. Hann bjó sér fyrst til lista með ellefu konum sem komu til álita. Síðan valdi hann úr með svipuðum aðferðum og hann hafði fundið braut Mars: Hann gerði reiknivillur en leiðrétti þær síðan eða þær vógu hver aðra upp. Og að lokum vísaði Guð honum aftur á þá fimmtu í röðinni. Er yfirleitt talið að þetta val hafi tekist vel.

Árið 1619 gaf Kepler út bókina Samhljómar heimsins (Harmonice Mundi). Það nafn gefur til kynna undirtónana í ævistarfi hans sem heild. Þarna setur hann fram í endanlegum búningi öll lögmálin þrjú sem við hann eru kennd. Á þessum sömu árum (1617-21) var Kepler að gefa út rit sem hann nefndi Ágrip af stjörnufræði Kópernikusar (Epitome astronomiae Copernicanae). Það varð síðar áhrifaríkt til kynningar á sólmiðjukenningunni.

Þessi mynd er titilmyndin í Töflum Rúdolfs. Ef þysjað er inn á myndina í rauða kassanum sést Kepler að störfum við kertaljós á skrifborðinu.

Kepler átti eftir að koma á prent einni bók sem máli skipti og hafði hún verið lengi í smíðum. Töflur Rúdolfs (Tabulae Rudolphinae) komu út árið 1627 en þeir Kepler og Týchó höfðu byrjað á þeim í Prag forðum daga. Þetta voru mun fullkomnari töflur um gang himintungla en áður höfðu þekkst og mörkuðu tímamót í stjörnufræði og siglingafræði. Þær voru fyrstu töflurnar sem komu að verulegum notum í siglingum og eru undanfari sjóferðaalmanakanna sem notuð eru nú á dögum.

Kepler var nú farinn að hugsa sér til hreyfings frá Linz og réð sig í þjónustu herforingjans og stjórnmálamannsins Albrechts Wallensteins sem frægur varð fyrir mikil tilþrif í þrjátíu ára stríðinu. Hann var illa haldinn af hjátrú og Kepler lét til leiðast að hjálpa stjörnuspekingum hans um nákvæma útreikninga til að byggja á í stjörnuspám. Hins vegar þverneitaði hann að gerast spámaður sjálfur eða að „láta nota sig sem skemmtikraft“.

Árið 1628 settist Kepler að ásamt fjölskyldu sinni í borginni Sagan á vegum Wallensteins. Þar hófst hann handa um prentun bókar sem hann hafði lengi átt drög að í handraðanum. Hún heitir Draumurinn eða Stjörnufræði á tunglinu (Somnium). Hann skrifaði nú fjölmargar athugasemdir eða neðanmálsgreinar við upphaflega textann og bjó verkið þannig til prentunar. Bókin er sett fram sem viðtal við fjölfróðan anda sem útskýrir hvernig hægt sé að fara til tunglsins og Kepler lætur ferðina hefjast á Íslandi sem hann hefur trúlega fræðst um hjá Dananum Týchó Brahe. Prentun Draumsins dróst á langinn og lauk ekki fyrr en nokkrum árum eftir að höfundurinn dó eftir mæðusama ævi.

Árið 1630 tók Kepler sér ferð á hendur til Regensburg til fundar við „keisarann“ og hirð hans. Ætlaði hann meðal annars að reyna enn einu sinni að innheimta skuldir sínar. Nokkrum dögum eftir að hann kom til borgarinnar veiktist hann og lést skömmu síðar, 58 ára að aldri. Hann var grafinn í kirkjugarði mótmælenda í Regensburg. Garðurinn var síðan eyðilagður með öllu í þrjátíu ára stríðinu svo að gröf hans er nú óþekkt.

Myndir:


Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um Kepler í bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli II eftir Þorstein Vilhjálmsson. Með því að smella hér má sjá í töflu yfirlit yfir helstu þætti í ævi Jóhannesar Kepler....