Nú getum við líka hugsað okkur að þetta sé bíll með löngum palli og annar maður standi á pallinum nokkrum metrum fyrir aftan hinn sem hleypir skotinu af. Þar sem hann stendur kyrr á pallinum er það hraði skotsins miðað við bílinn sem skiptir sköpum fyrir þennan mann, og hann verður fyrir skotinu rétt eins og mennirnir hefðu báðir staðið á jörðinni. Athuganda sem stæði á jörðinni mundi hins vegar sýnast seinni maðurinn hreyfast í átt að skotinu sem honum sýnist nokkurn veginn kyrrstætt eins og fyrr er sagt. Örlög mannsins yrðu að sjálfsögðu hin sömu séð frá þessum athuganda. Enn gætum við til viðbótar velt fyrir okkur hvernig skothvellurinn berst, miðað við að bíllinn sé á ferð í logni og hraði skotsins sé undir hljóðhraða í loftinu. Hvellurinn er hljóð og það er loftið á staðnum sem ber hljóð. Hljóðið berst í allar áttir með föstum hljóðhraða miðað við loftið en hraðinn miðað við athuganda getur verið meiri eða minni ef loftið er á hreyfingu miðað við hann. Loftið er í okkar tilviki á hreyfingu aftur á bak miðað við bílinn og skothvellurinn berst því hraðar í þá átt en ef skotið gerðist á jörðu niðri. Hvellurinn berst því fyrr en ella til mannsins sem stendur aftar á pallinum. Mennirnir á pallinum skýra þetta með því sem áður var sagt, að loftið er á hreyfingu í sömu stefnu og hljóðið. Athugandi á jörðinni túlkar þetta hins vegar öðru vísi og segir að þessi flýting skothvellsins stafi af því að seinni maðurinn sé á ferð í átt að hljóðgjafanum eða með öðrum orðum til móts við hljóðið.
- Hvað er Mach 1,0 mikill hraði í kílómetrum á klukkustund? eftir Ögmund Jónsson.
- Hvað gerist þegar þotur rjúfa hljóðmúrinn? eftir Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjámssson.
- Hvernig hljóðar annað lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjámsson.
- Mig langar til að vita hvað afstæðiskenningin er. eftir Þórð Jónsson.
Frekara lesefni Albert Einstein, Afstæðiskenningin, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1978.