Þær aðferðir sem mótmælendur beittu til að halda kaþólikkum niðri stuðlaði að klofningi samfélagsins og reiði meðal kaþólikka vegna þess misréttis sem þeir voru beittir; reiði sem kom upp á yfirborðið er allt fór í bál og brand á Norður-Írlandi eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Áhersla mótmælenda á sambandið við Bretland skýrir hvers vegna þeir hafa alla tíð verið nefndir sambandssinnar. Á sama tíma hafa kaþólikkar verið kallaðir þjóðernissinnar eða lýðveldissinnar, er um leif að ræða frá þeim tíma sem kaþólskir þjóðernissinnar á Írlandi háðu sjálfstæðisbaráttu sína. Hafa þessir merkimiðar verið notaðir jöfnum höndum, það er mótmælendur eru ekki síður þekktir sem sambandssinnar, á meðan kaþólikkar eru kallaðir þjóðernissinnar. Hitt er þó, að hvor hópanna um sig er í reynd þjóðernishópur; sambandssinnar/mótmælendur eru semsé ekki síður þjóðernissinnaðir heldur en þjóðernissinnar/kaþólikkar. Þeirra þjóðernislega sjálfsmynd er bara önnur en sú sem þjóðernissinnar/kaþólikkar hafa. Og að mörgu leyti snúast deilurnar á Norður-Írlandi um þá togstreitu sem ríkt hefur á milli þessara tveggja hópa, þessara tveggja sjálfsmynda ólíkra hópa. Birtingarmynd togstreitunnar hefur síðan verið fólgin í blóðugum átökum – talið er að um 3.500 manns hafi fallið í valinn á meðan vargöldin á Norður-Írlandi stóð sem hæst, 1968-1998 – og blóðug átök í jafnlitlu samfélagi og hér er um að ræða (um tvær milljónir manna búa á Norður-Írlandi og Norður-Írland er aðeins 14.148 ferkílómetrar að stærð, til samanburðar má nefna að Ísland er ríflega 100.000 ferkílómetrar) hafa óhjákvæmilega orðið til að festa klofninginn milli kaþólikka og mótmælenda í sessi og valda enn frekara vantrausti og hatri þar á milli. Deilurnar snúast því í reynd um það vantraust sem ríkir milli mótmælenda og kaþólikka. En auðvitað snúast deilurnar öðrum þræði um völd – og með gerð friðarsamkomulags á Norður-Írlandi 1998 var vonast til að tekist hefði að skapa grundvöll að sáttum í héraðinu. Fól samkomulagið meðal annars í sér skilmála þess efnis að mótmælendur og kaþólikkar skildu deila völdum á Norður-Írlandi, hvor hópur um sig átti að koma að stjórn landsins. Ekki verður sagt skilið við Bretland (og sameining við Írland er því ekki á döfinni) fyrr en meirihluti íbúa Norður-Írlands lýsir yfir áhuga á slíku; og það gerist væntanlega ekki á meðan mótmælendur eru í meirihluta. Framkvæmd friðarsamkomulagsins hefur ekki gengið sem skyldi. Brothættur friður hefur þó ríkt á Norður-Írlandi frá 1998. Vantrausti milli mótmælenda og kaþólikka verður ekki eytt á einni nóttu en telja verður líklegt að stöðugur friður sé grundvallarforsenda þess að það takist. Á meðan til staðar eru hópar sem beita sér fyrir ólíkum pólitískum markmiðum – annars vegar áframhaldandi sambandi við Bretland og hins vegar sameiningu við Írland – verður þó vart hægt að binda enda á deilur í eitt skipti fyrir öll; vonin er hins vegar sú að um slík deilumál verði framvegis tekist á pólitískum vettvangi en ekki með vopnaskaki og ódæðisverkum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju er Norður-Írland ekki sjálfstætt? eftir Davíð Loga Sigurðsson
- Er Bretland land eða heiti á mörgum löndum saman? eftir EDS