Ég hef a.m.k. þrisvar sinnum undanfarið ár sent inn sömu spurninguna: Hvað "segja" hreindýr? en enn ekki fengið svar. Dóttir mín spurði mig að þessu fyrir jólin í fyrra og þá leitaði ég til vina og vandamanna en fékk engin svör. Ég spurðist fyrir á Náttúrufræðistofu Kópavogs en starfsmenn þar vissu ekki svarið. Því leitaði ég til ykkar og ítrekaði að minnsta kosti tvisvar en hef enn ekki fengið svör. Nú er aftur kominn sá árstími að börnin spá í hreindýr og því tilvalið að segja okkur hvað þau „segja“, það er hvaða hljóð þau gefa frá sér og hvað þau kallast.Við vorum satt að segja í nokkrum vandræðum með þessa spurningu. Við fundum þetta hvergi í þeim bókum eða heimildum sem við áttum tiltækar en fannst þó líklegast að hreindýrin bauluðu eins og nautgripir. Við leituðum þá til heimildarmanna okkar á Austfjörðum. Guðrún Á. Jónsdóttir forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands hafði samband við Skarphéðinn Þórisson líffræðing sem starfar við stofnunina, en er núna staddur í Afríku. Þetta hafði Skarphéðinn að segja um "tungumál" hreindýra: Kýrnar baula á unga kálfa og það rymur í törfunum á fengitímanum. Skarphéðinn bætti því einnig við að hreindýr hafi líka samskipti sín á milli með lykt. Þegar styggð kemst að dýrunum reka þau ekki upp aðvörunarbaul heldur sperra upp dindilinn, en við endaþarmsopið eru kirtlar sem gefa frá sér lyktarefni.
- Hvernig fara hreindýratalningar fram?
- Hvers vegna er þvag hreindýra stundum rautt?
- Hversu mörg hreindýr lifa á Íslandi og hversu mörg þeirra eru villt?