Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Íslenskt sauðfé mun hafa komið til Íslands frá Noregi um landnám. Það er náskylt gamla norska stuttrófufénu sem var upprunalega hyrnt en er nú mikið til orðið kollótt vegna ræktunar á kollóttu umfram hyrnt á síðustu áratugum. Sumir af íslensku sauðalitunum finnast í norska stuttrófufénu en litum mun hafa fækkað þegar fækkaði í stuttrófufénu vegna þess að önnur sauðfjárkyn í landinu urðu vinsælli á síðustu öld.
Sauðalitirnir skiptast í þrjá flokka, tegundir lita, litamynstur og tvíliti.
Til eru fjórar tegundir lita:
hvítt
gult eða rauðgult
svart
mórautt
Sex litmynstur eru til. Þau eru:
hvítt
grátt (grámórautt)
golsótt (mógolsótt)
botnótt (móbotnótt)
grábotnótt (grámórubotnótt)
svart (mórautt) án mynsturs
Hér á eftir er stutt lýsing á því hvernig litamynstrin hafa áhrif á litina.
Tvö þessara litamynstra, fyrir hvítu og svörtu, hafa hvort um sig aðeins ein áhrif. Litamynstur fyrir hvítu hefur alltaf þau áhrif að kindin verður hvít. Litamynstur fyrir svörtu (mórauðu) er áhrifalaust og leyfir svörtum (mórauðum) lit að koma óbreyttum fram.
Hin litamynstrin fjögur, grátt, golsótt, botnótt og grábotnótt, hafa hins vegar öll áhrif á svartan (mórauðan) lit.
Litamynstur fyrir gráu breytir svartri kind í gráa, og sama litamynstur breytir mórauðri kind í grámórauða. Yfirhárin (togið) verða grá á svartri kind en verða áfram mórauð á mórauðri kind. Hins vegar verða undirhárin (þelið) hvít bæði á mórauðu og svörtu kindinni.
Litamynstur fyrir golsóttu breytir yfirhárum á efri hluta bols úr svörtu í hvítt, en litur á hárum á kvið breytist ekkert. Kindin sem var svört fær áfram svartan kvið og sú mórauða mórauðan.
Litamynstur fyrir botnóttu leyfir litnum á efri hlutanum að vera óbreyttum, svörtum á svartri kind og mórauðum á mórauðri. Kviður og rass verður hins vegar hvítur á báðum kindunum.
Litamynstur fyrir grábotnóttu er alveg hliðstætt litamynstri fyrir botnóttu. Svartur og mórauður litur breytast í gráan lit á svörtum og grámórauðan á mórauðum kindum, en kviðurinn verður hvítur á þeim báðum.
Tvílitir kallast þau fyrirbæri þegar hvítir blettir, skellur eða flekkir koma fyrir í mislitum kindum, en kindur sem ekki eru hvítar eða gular eru sagðar mislitar.
Gerðir af tvílit geta verið mjög margar. Í doktorsritgerð höfundar* koma fyrir heiti á 32 mismunandi gerðum af tvílitum, þar sem hver gerð hefur sitt sérstaka heiti. Þessar gerðir eru taldir upp í töflunni hér að neðan. Öftustu litirnir í töflunni eru svart eða mórautt, þegar engir hvítir flekkir koma fyrir. Þær kindur eru einlitar.
Tvílitir í sauðfé
Baugótt
Flekkótt
Flikrótt
Dropótt
Albíldótt
Jakobsbíldótt
Kjömmubíldótt
Krögubíldótt
Höttótt
Höttukápótt
Hreinkápótt
Huppukápótt
Hosótt
Arnhosótt
Arnhöfðótt
Leistótt
Leggjótt
Krúnótt
Lauf
Blesótt
Huppukápublesótt
Hosur, krúna, lauf
Hosublesótt
Hosukrögótt
Krögótt
Krúnuleistótt
Krúnótt
Krúnuleistótt
Sokkótt
Leistótt
Leggjótt
Svart, mórautt
*Stefán Aðalsteinsson: „Litaerfðir í íslensku sauðfé“, Íslenskar landbúnaðarrannsóknir, 2. árg., 1. hefti, 1970.
Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um sauðfé, til dæmis:
Stefán Aðalsteinsson (1928-2009). „Hverjir eru íslensku sauðalitirnir og hversu margir eru þeir?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4638.
Stefán Aðalsteinsson (1928-2009). (2004, 1. desember). Hverjir eru íslensku sauðalitirnir og hversu margir eru þeir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4638
Stefán Aðalsteinsson (1928-2009). „Hverjir eru íslensku sauðalitirnir og hversu margir eru þeir?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4638>.