Ef átt er við reikistjörnurnar í sólkerfi okkar þá eru þær 9 og við getum talið þær upp: Merkúríus, Venus, jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og Plútó. Eins og fram kemur í nýlegu svari hjá okkur um tíundu reikistjörnuna (sjá hér á eftir) er þó ekki fullljóst að Plútó eigi að teljast til reikistjarna. Öðru hverju hafa komið upp hugmyndir um að reikistjörnur sólkerfisins kunni að vera fleiri en þetta; einhverjar til viðbótar leynist úti í óravíddum geimsins handan Plútós. Þó getur ekki lengur talist sérlega líklegt að þar eigi eftir að finnast himinhnettir sem muni í raun og veru standa undir nafni sem reikistjörnur. Líklegast er að nýir hnettir sem eiga eftir að finnast séu annaðhvort of litlir eða þá of laustengdir sólkerfinu til þess að geta talist til reikistjarna. Ef spurningin á hins vegar við allar reikistjörnur í heiminum þá er svarið að við höfum enga hugmynd um það! Upp úr 1990 fóru menn að finna reikistjörnur við aðrar sólstjörnur en sólina okkar og síðan hafa fundist sífellt fleiri slíkar plánetur. Engin leið er að sjá fyrir endann á þeirri þróun en um hana má lesa meira í öðrum svörum. Á Vísindavefnum er að finna mörg svör um reikistjörnurnar, til dæmis:
- Hvað heita reikistjörnurnar? eftir ÖJ
- Hvernig eru plánetur og reikistjörnur skilgreindar? eftir Sævar Helga Bragason
- Er búið að finna tíundu reikistjörnuna? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvernig er leitað að reikistjörnum utan sólkerfisins? eftir Tryggva Þorgeirsson