Þetta er skemmtileg og mikilvæg spurning og svarið spannar alla sögu stjörnufræðinnar, frá nýjustu atburðum og viðhorfum aftur til þess er stjörnufræðin var að slíta barnsskónum. Svarið hefði orðið allt öðruvísi og einfaldara fyrir 10-20 árum. Þá hefði verið látið duga að telja upp reikistjörnurnar níu í sólkerfi okkar og lýsa þeim en svarið hér á eftir tekur hins vegar einnig yfir reikistjörnur í öðrum sólkerfum eins og menn hafa verið að finna merki um á síðasta áratug eða svo. Í byrjun viljum við nefna að íslenska orðið reikistjarna varð til eftir að sólmiðjukenningin náði viðurkenningu og það hefur því skýrari merkingu en alþjóðaorðið pláneta. Tekið er mið af þessu í svarinu en nánar verður vikið að því í lokin.
Reikistjarna er fremur stór himinhnöttur sem hreyfist á braut umhverfis sólstjörnu, eina eða fleiri, og hefur orðið til á ákveðinn hátt úr rykkornum og reikisteinum. Reikistjarna framleiðir hvorki ljós né aðra verulega geislun af eigin rammleik, heldur endurkastar ljósi frá sólstjörnunum sem hún hringsólar um. Við getum litið svo á að orðið reikistjarna vísi til brautarhreyfingarinnar. Reikistjarna er ýmist úr bergi og málmum líkt og innri reikistjörnur sólkerfisins, Merkúr, Venus, jörðin og Mars, eða hún getur verið að mestu úr gasi eins og ytri reikistjörnur sólkerfisins, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Halastjörnur (comets) og smástirni (asteroids) teljast ekki til reikistjarna, meðal annars vegna smæðar sinnar. Massi reikistjörnu er talinn geta verið þó nokkru meiri en massi Júpíters eftir nánari aðstæðum. Ef massinn er hins vegar til dæmis á bilinu 10-80 Júpítersmassar getur orðið til fyrirbæri sem kallast brúnn dvergur. Þeir eiga margt sameiginlegt með reikistjörnum og sumir vilja telja þá til þeirra en þeir verða til úr gasskýjum á svipaðan hátt og sólstjörnur og þróast með öðrum hætti en (aðrar) reikistjörnur. (Sjá til dæmis Kaufmann og Freedman 1999, 183-185). En ef massi miðhnattarins í gasskýinu verður meiri en til dæmis 80 Júpítersmassar þá myndast skilyrði fyrir eigin orkuframleiðslu með samruna atómkjarna í kjarna hnattarins og hann verður sólstjarna en ekki reikistjarna. Ef önnur sólstjarna er þegar í kerfinu verður þannig til svokallað fjölstirni (multiple star), það er að segja stjörnukerfi með fleiri en einni sólstjörnu. Af þessum ástæðum öllum eru massa reikistjarna takmörk sett, hvort sem brúnir dvergar eru taldir til þeirra eður ei. Reikistjörnur þéttust með sól eða sólum úr rykskýi líklega á sama tíma og stjarnan eða stjörnurnar mynduðust. Þegar ein eða fleiri plánetur eru á sporbaug umhverfis sól er talað um sólkerfi (solar system, planetary system). Reikistjörnurnar eru yfirleitt mun minni en móðursólin, meðal annars af fyrrgreindum ástæðum. Fimm af reikistjörnunum í sólkerfi okkar, Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus, sjást með berum augum á næturhimninum. Þær geta allar nema Merkúríus orðið álíka bjartar og helstu fastastjörnur eða jafnvel bjartari, en þess á milli hverfa þær í fjöldann eða sjást ekki vegna nálægðar við sól. Oft er auðvelt að fylgjast með hreyfingu reikistjarnanna miðað við fastastjörnur og af henni fengu 'plánetur' það nafn í öndverðu því að 'pláneta' þýðir flakkari og þá var átt við þessa hreyfingu. Í vönduðum enskum orðabókum er gerður greinarmunur á tveimur aðalmerkingum í orðinu 'planet' (Stein, 1975). Annars vegar merkir það sama og 'reikistjarna' eins og merkingu þess orðs er lýst hér á undan, en hins vegar getur það þýtt ´lýsandi hnöttur sem sést með berum augum og hreyfist miðað við fastastjörnur'. Í síðari merkingunni hefur orðið stundum verið þýtt sem 'föruhnöttur', en þessir hnettir eru sjö: tunglið, sólin, Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus (Sören Sörenson 1986; Þorsteinn Vilhjálmsson 1986-7). Í miðaldahandritum sem kennd eru við Alfræði og Rím er talað um 'plánetur', en þar er átt við síðari merkinguna sem getið var hér á undan (föruhnettir; Beckman og Kaalund 1914-16). Elsta dæmið sem nú er í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans um orðið 'reikistjarna' er úr Almennri landaskipunarfrædi I-II eftir Gunnlaug Oddsson og fleiri frá 1821-1827 (bls. 66-67). Þar og í öðrum dæmum frá 19. öld er orðið haft í sömu merkingu og hér er lýst, þannig að það hefur líklega aldrei verið notað í merkingunni 'föruhnöttur'. Jónas Hallgrímsson notar ekki orðið 'reikistjarna' í þýðingu sinni á Stjörnufræði Ursins sem kom út árið 1842. Í staðinn notar hann orðið 'jarðstjarna' en honum verður hins vegar tíðrætt um að þær séu bæði reikular og reikandi (Ursin 1989). Orðið jarðstjarna kemur þarna fyrir í fyrsta sinn á prenti samkvæmt ritmálsskránni. Það virðist lengi vel hafa verið meira notað en reikistjarna í þessari merkingu en hefur síðan lotið í lægra haldi í því hlutverki (Orðabók, Ritmálsskrá). Það er nú haft í annarri merkingu, sem sé um þær reikistjörnur sem líkjast jörðinni (enska 'terrestrial planet'; sjá til dæmis Orðanefnd 1996). Við viljum þakka Einari Guðmundssyni og Gunnlaugi Björnssyni gagnlegar umræður um efni þessa svars.