Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Kristian Kaalund og hvert var hans framlag til norrænna fræða?

Ragnheiður Mósesdóttir

Dr. Kålund má ekki vamm sitt vita, hvort heldur er sem vísindamaður eða maður yfir höfuð. Jeg hef þekkt hann í fullan mannsaldur og hef ekki kynst betri eða vandaðri manni.
Þessi orð er að lesa í inngangi Finns Jónssonar, prófessors, að afmælisriti því sem Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf út í tilefni sjötugsafmælis Kristian Kålunds 1914. En hver var þessi vísindamaður og maður sem helgaði líf sitt norrænum fræðum?

Hann hét fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kålund (Kaalund) og fæddist 19. ágúst 1844 á Søllested á Lálandi þar sem faðir hans var prestur. Tíu ára gamall var hann sendur í heimavistarskólann á Herlufsholm og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1863. Samkvæmt minningargrein um hann eftir Boga Th. Melsted sem birtist í Ársriti Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn árið 1920, hafði hann þar „mest gaman af norrænum málum, og öllum þeim námsgreinum, sem lutu að náttúrufræði og sögu.“ Hann hóf síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla og lagði einkum stund á norræna málfræði (d. nordisk filologi) og lauk magistersprófi í þeirri grein haustið 1869 en hafði sem aukagrein menningarsögu Íslands á goðaveldisöld. Magistersritgerð hans fjallaði um “Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)”, og birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins (Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie) í endurbættri gerð árið 1870.

Vinnan við magisterritgerðina hafði vakið áhuga Kålunds á staðfræði Íslendingasagnanna og þar með möguleikanum á að meta sögulegt gildi þeirra. Hann sótti því um og fékk styrk til að fara til Íslands og gera þar sjálfur athuganir á staðháttum. Hann kom til Reykjavíkur haustið 1872 og hafði þar vetursetu fyrsta veturinn og lærði þá að tala íslensku en grunninn að þekkingu sinni á málinu hafði hann lagt í Kaupmannahöfn. Kålund lagði síðan af stað í rannsóknarleiðangurinn í byrjun júlí 1873 og hafði Magnús Andrésson, síðar prófast á Gilsbakka, sér til fylgdar. Þeir ferðuðust um Suður-, Austur- og Norðurland og luku ferðinni 22. september í Hjarðarholti í Stafholtstungum, þar sem Kålund hafði vetursetu hjá Theodór Jonassen, sýslumanni Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Sumarið 1874 fór Kålund með Magnúsi um Vestfirði og vestanvert Norðurland og loks til Þingvalla, en ekki var hægt að skoða Reykjanesskagann vegna illiviðra. Ferðinni lauk í Reykjavík í september 1874 og sigldi Kålund til Kaupmannahafnar 21. október. Nánar um þessar ferðir og þá staði sem þeir Magnús skoðuðu er að finna í Landfræðisögu Þorvaldar Thoroddsens 4. bindi (Kbh. 1904). Afrakstur ferðarinnar varð tveggja binda verk, Historisk-Topografisk Beskrivelse af Island, sem Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) gaf út á árunum 1877-82. Jafnframt eigin athugunum notaði Kålund ýmsar prentaðar heimildir, svo sem sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélagsins, Jarðabók Árna og Páls og önnur prentuð rit um staðfræði Íslands. Þetta er grundvallarverk, sem enn er í fullu gildi. Ritið var síðar gefið út í íslenskri þýðingu Haraldar Matthíassonar: Íslenskir sögustaðir 1-4 (Rvk. 1984-86).

Hluta verksins (um Norðlendingafjórðung) lagði Kålund fram sem doktorsritgerð, sem hann varði við Kaupmannahafnarháskóla 8. maí 1879. Meðan Kålund vann að verki sínu var hann innanbúðar í Árnasafni, sem þá var til húsa í Háskólabókasafninu í Fiolstræde, en aðalatvinnu hafði hann sem kennari við Metropolitan-menntaskólann, en flestum ber saman um að hann hafi ekki haft mikla ánægju af því starfi. Hann þekkti vel handritasafn Árna Magnússonar og eftir lát Jóns Sigurðssonar 1879 varð hann Árnanefnd innan handar um ýmislegt er varðaði safnið og varð ritari nefndarinnar 1883. Sama ár fékk hann stöðu bókavarðar við safnið og hætti þá kennslu.

Smellið til að skoða stærri útgáfu.
Í bókasafni Árnasafns í Kaupmannahöfn er að finna útgáfu Guðbrands Vigfússonar á Sturlungu (Oxford, 1878), með handskrifuðum leiðréttingum Kålunds, sem hann hefur fært þar inn er hann var að vinna að sinni útgáfu. Smellið til að skoða stærri útgáfu.

Safnið var óhægt til notkunar vegna þess að það vantaði góða skrá um innihald þess. Ýmsar tilraunir höfðu verið gerðar til að setja saman skrá um safnið allt frá dögum Árna Magnússonar, meðal annars hafði Jón Sigurðsson unnið að slíkri skrá. Árnanefnd ákvað því að Kålund skyldi taka saman skrá um safnið, þar sem fram kæmu helstu upplýsingar um innihald hvers handrits fyrir sig, en þó ekki eins nákvæm og sú skrá sem Jón Sigurðsson hafði unnið að, því talið var að vinnan við slíkt verk yrði of umfangsmikið, eða eins og kemur fram í fundargerð frá 2. desember 1881, þá var ákveðið „... að hætta við handritaskrárvinnuna sem hafin var og gefa heldur sem allra fyrst út skrá um safnið sem hefði að fyrirmynd Arvidssons Förteckning öfver Kgl. Bibliotekets i Stockholm isländska Handskrifter 1848 og Skýrslu um handritasafn hins íslenzka bókmenntafélags 1869.“

Kålund fór í tvær ferðir 1884 og 1885 til Svíþjóðar, Noregs, Englands og Þýskalands og kynnti sér hvað væri af íslenskum handritum í þessum löndum jafnframt því að kynna sér skrárgerð. Kålund vann síðan að gerð skrárinnar, sem kom út í tveimur bindum, hið fyrra 1889 og hið síðara 1894. Hér með var fenginn lykill að handritasafni Árna Magnússonar, sem ekki bara gerði þeim sem þegar þekktu til safnsins auðveldara fyrir um notkun þess, heldur opnaði skráin safnið fyrir öðrum erlendum fræðimönnum sem nú tóku að sækja til Kaupmannahafnar og nota safnið.

Skrá Kålunds er enn þann dag í dag grundvallarhandbók allra þeirra sem nýta vilja sér handritasafn Árna Magnússonar og er nú grunnurinn að þeirri rafrænu handritaskrá sem unnið er að í Árnasafni í Kaupmannahöfn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þegar Kålund hafði lokið við skrána um Árnasafn, tókst hann á hendur á vegum Árnanefndar að gera skrá um íslensk handrit í Konunglega bókasafninu og Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, en hún kom út árið 1900. Báðum þessum skrám fylgir greinargóður inngangur um handritasöfnin.

Smellið til að skoða stærri útgáfu.
Í hvert handrit sem hann vann við hefur Kålund skráð blaðafjölda og dagsetninguna þegar hann skoðaði handritið. Gefur þetta nokkra mynd af vinnuaðferð hans við gerð handritaskrárinnar. Smellið til að skoða stærri útgáfu.

Annað mikilvægt hjálpartæki sem Kålund gaf út er ljósprentað safn rithandarsýna úr handritum og bréfum í handritasöfnum í Kaupmannahöfn, svokallaður Palæografisk Atlas, í tveimur bindum. Fyrra bindið sem hefur að geyma rithandarsýnishorn úr dönskum handritum fram til 1550, kom út 1903 og seinna bindið, í tveimur hlutum, sem komu út 1905 og 1907, geymir sýnishorn íslenskra handrita frá miðöldum og fram til 1700. Með sýnishornunum lætur Kålund fylgja stafrétta útgáfu textans og handritaupplýsingar. Í inngangi að fyrsta bindinu segir hann að kveikjan að verkinu hafi verið Svenska skriftprof, sem út kom í Stokkhólmi 1894. Bogi Th. Melsted hikar ekki við, í fyrrnefndri minningargrein, að segja að Palæografisk Atlas sé „... hin mesta og merkasta bók, sem komið hefur út í sinni grein á Norðurlöndum.“ Auk þessara rita gaf Kålund út söfn bréfa frá hendi Árna Magnússonar, Embedsskrivelser og andre offentlige Aktstykker (1916), Brevveksling med Torfæus (Þormóð Torfason) og loks hóf hann að vinna að útgáfu einkabréfa Árna Magnússonar, en entist ekki aldur til að ljúka því verki, svo Finnur Jónsson gekk frá því endanlega og kom bókin út 1920.

En Kålund vann líka að því að koma hinum fornu textum handritanna á framfæri við almenning. Hann var einn af stofnendum Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur árið 1879 og gaf út á vegum þess fjöldann allan af textum, meðal annars Laxdæla sögu. Hann var ritari í Fornfræðafélaginu (Det Kongelige nordiske Oldskriftselskabs Oldskriftafdeling) frá 1891 og á vegum þess gaf hann út Sturlungu, sem kom út í tveimur bindum árin 1906 og 1911. Kålund er sennilega einna fyrstur norrænufræðinga sem beitt hefur skipulega svokallaðri stemma-aðferð við textaútgáfur, en sú aðferð byggist í stuttu máli á því að greina alla texta viðkomandi verks og sýna fram á tengsl þeirra og setja fram í nokkurs konar „ættartré“ (stemma codicum). Þessari aðferð beitir Kålund í Sturlunguútgáfunni, sem ein sér myndi nægja til að halda nafni hans á lofti. Eða eins og Björn M. Ólsen segir í ritdómi um útgáfuna í Skírni 1912: „Hann [Kålund] hefur með henni lagt fastan og óbifanlegan grundvöl undir níjar rannsóknir viðvíkjandi Sturlungu, og um leið reist sér þann minnisvarða, sem lengi mun standa „óbrotgjarn í bragar túni“.“

Grein Kålunds um handrit Sturlungu í Árbókum Fornfræðafélagsins „Om håndskrifterne af Sturlunga saga og dennes enkelte bestanddele”, sem birtist árið 1901 og stendur enn fyrir sínu sem grundvallarlýsing handritanna og tengsla þeirra. Jafnframt gaf Kålund út Sturlungu í danskri þýðingu, sem kom út árið 1904. Auk þessa ritaði Kålund fjöldann allan af fræðilegum tímaritsgreinum.

Kristian Kålund, sem bæði var ógiftur og barnlaus, lést í Kaupmannahöfn 4. júlí 1919 og ánafnaði Hinu íslenska fræðafélagi meiri hluta eigna sinna, en hann var einn af stofnfélögum þess. Í erfðaskránni var það tekið fram að ef Fræðafélagið yrði leyst upp bæri að nota peningana til að styrkja stofnanir á Íslandi og í Danmörku sem tækju að sér að nota þá til málfarslegra og sögulegra rannsókna, einkum í örnefnafræði.

Það er óhætt að segja að Kristian Kålund hafi verið einn af þeim vísindamönnum sem lagt hefur grunninn að norrænum fræðum.

Heimildir:
  • Prentað:
    • Björn M. Ólsen: Sturlunga saga efter membranen Króksfjarðarbók /.../. [Ritdómur]. Skírnir LXXX ár (1906), bls. 180-183.
    • Björn M. Ólsen: Sturlunga saga efter membranen Króksfjarðarbók /.../. [Ritfregn]. Skírnir LXXXVI ár (1912), bls. 361-367.
    • Bogi Th. Melsted: ‘Kristian Kålund bókavörður við handritasafn Árna Magnússonar’, í Ársrit Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn. Fimta ár. Kaupmannahöfn, 1920, bls. 91-116.
    • Jón Helgason: ‘Kristian Kålund’ í: Dansk biografisk leksikon XII. Kbh. 1937, bls. 273-275.
    • Finnur Jónsson: ‘Dr. Kr. Kålund 1844 19/8 1914’, í Afmælisrit til Dr. Phil. Kr. Kålunds bókavarðar við safn Árna Magnússonar 19. ágúst 1914. Kaupmannahöfn, 1914, bls. vii-xi.
    • Finnur Jónsson: ‘Kr. Kålund’, í Arkiv för nordisk filologi. Ny føljd. 32. Lund, 1920, bls. 332-337.
    • Sigfús Blöndal: ‘Kr. Kålund 1844-1919’ í Nordisk Tidskrift för Bok- och Biblioteksväsen. VI. 1919, bls. 202-206.
    • Þorvaldur Thoroddsen: Landfræðisaga Íslands. IV. Kaupmannahöfn, 1904, bls.89-93.

  • Óprentað:
    • Den Arnamagnæanske Kommissions Arkiv, Forhandlingsprotokol. Den Arnamagnæanske Samling, København.

  • Á Wikipediu (skoðað 29. júní 2011) er meðal annars að finna ritaskrá Kålunds.

Myndir:

Höfundur

cand. mag. í sagnfræði og bókavörður við Nordisk Forskningsinstitut, Københavns Universitet.

Útgáfudagur

13.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ragnheiður Mósesdóttir. „Hver var Kristian Kaalund og hvert var hans framlag til norrænna fræða?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60244.

Ragnheiður Mósesdóttir. (2011, 13. júlí). Hver var Kristian Kaalund og hvert var hans framlag til norrænna fræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60244

Ragnheiður Mósesdóttir. „Hver var Kristian Kaalund og hvert var hans framlag til norrænna fræða?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60244>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Kristian Kaalund og hvert var hans framlag til norrænna fræða?

Dr. Kålund má ekki vamm sitt vita, hvort heldur er sem vísindamaður eða maður yfir höfuð. Jeg hef þekkt hann í fullan mannsaldur og hef ekki kynst betri eða vandaðri manni.
Þessi orð er að lesa í inngangi Finns Jónssonar, prófessors, að afmælisriti því sem Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf út í tilefni sjötugsafmælis Kristian Kålunds 1914. En hver var þessi vísindamaður og maður sem helgaði líf sitt norrænum fræðum?

Hann hét fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kålund (Kaalund) og fæddist 19. ágúst 1844 á Søllested á Lálandi þar sem faðir hans var prestur. Tíu ára gamall var hann sendur í heimavistarskólann á Herlufsholm og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1863. Samkvæmt minningargrein um hann eftir Boga Th. Melsted sem birtist í Ársriti Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn árið 1920, hafði hann þar „mest gaman af norrænum málum, og öllum þeim námsgreinum, sem lutu að náttúrufræði og sögu.“ Hann hóf síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla og lagði einkum stund á norræna málfræði (d. nordisk filologi) og lauk magistersprófi í þeirri grein haustið 1869 en hafði sem aukagrein menningarsögu Íslands á goðaveldisöld. Magistersritgerð hans fjallaði um “Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)”, og birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins (Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie) í endurbættri gerð árið 1870.

Vinnan við magisterritgerðina hafði vakið áhuga Kålunds á staðfræði Íslendingasagnanna og þar með möguleikanum á að meta sögulegt gildi þeirra. Hann sótti því um og fékk styrk til að fara til Íslands og gera þar sjálfur athuganir á staðháttum. Hann kom til Reykjavíkur haustið 1872 og hafði þar vetursetu fyrsta veturinn og lærði þá að tala íslensku en grunninn að þekkingu sinni á málinu hafði hann lagt í Kaupmannahöfn. Kålund lagði síðan af stað í rannsóknarleiðangurinn í byrjun júlí 1873 og hafði Magnús Andrésson, síðar prófast á Gilsbakka, sér til fylgdar. Þeir ferðuðust um Suður-, Austur- og Norðurland og luku ferðinni 22. september í Hjarðarholti í Stafholtstungum, þar sem Kålund hafði vetursetu hjá Theodór Jonassen, sýslumanni Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Sumarið 1874 fór Kålund með Magnúsi um Vestfirði og vestanvert Norðurland og loks til Þingvalla, en ekki var hægt að skoða Reykjanesskagann vegna illiviðra. Ferðinni lauk í Reykjavík í september 1874 og sigldi Kålund til Kaupmannahafnar 21. október. Nánar um þessar ferðir og þá staði sem þeir Magnús skoðuðu er að finna í Landfræðisögu Þorvaldar Thoroddsens 4. bindi (Kbh. 1904). Afrakstur ferðarinnar varð tveggja binda verk, Historisk-Topografisk Beskrivelse af Island, sem Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) gaf út á árunum 1877-82. Jafnframt eigin athugunum notaði Kålund ýmsar prentaðar heimildir, svo sem sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélagsins, Jarðabók Árna og Páls og önnur prentuð rit um staðfræði Íslands. Þetta er grundvallarverk, sem enn er í fullu gildi. Ritið var síðar gefið út í íslenskri þýðingu Haraldar Matthíassonar: Íslenskir sögustaðir 1-4 (Rvk. 1984-86).

Hluta verksins (um Norðlendingafjórðung) lagði Kålund fram sem doktorsritgerð, sem hann varði við Kaupmannahafnarháskóla 8. maí 1879. Meðan Kålund vann að verki sínu var hann innanbúðar í Árnasafni, sem þá var til húsa í Háskólabókasafninu í Fiolstræde, en aðalatvinnu hafði hann sem kennari við Metropolitan-menntaskólann, en flestum ber saman um að hann hafi ekki haft mikla ánægju af því starfi. Hann þekkti vel handritasafn Árna Magnússonar og eftir lát Jóns Sigurðssonar 1879 varð hann Árnanefnd innan handar um ýmislegt er varðaði safnið og varð ritari nefndarinnar 1883. Sama ár fékk hann stöðu bókavarðar við safnið og hætti þá kennslu.

Smellið til að skoða stærri útgáfu.
Í bókasafni Árnasafns í Kaupmannahöfn er að finna útgáfu Guðbrands Vigfússonar á Sturlungu (Oxford, 1878), með handskrifuðum leiðréttingum Kålunds, sem hann hefur fært þar inn er hann var að vinna að sinni útgáfu. Smellið til að skoða stærri útgáfu.

Safnið var óhægt til notkunar vegna þess að það vantaði góða skrá um innihald þess. Ýmsar tilraunir höfðu verið gerðar til að setja saman skrá um safnið allt frá dögum Árna Magnússonar, meðal annars hafði Jón Sigurðsson unnið að slíkri skrá. Árnanefnd ákvað því að Kålund skyldi taka saman skrá um safnið, þar sem fram kæmu helstu upplýsingar um innihald hvers handrits fyrir sig, en þó ekki eins nákvæm og sú skrá sem Jón Sigurðsson hafði unnið að, því talið var að vinnan við slíkt verk yrði of umfangsmikið, eða eins og kemur fram í fundargerð frá 2. desember 1881, þá var ákveðið „... að hætta við handritaskrárvinnuna sem hafin var og gefa heldur sem allra fyrst út skrá um safnið sem hefði að fyrirmynd Arvidssons Förteckning öfver Kgl. Bibliotekets i Stockholm isländska Handskrifter 1848 og Skýrslu um handritasafn hins íslenzka bókmenntafélags 1869.“

Kålund fór í tvær ferðir 1884 og 1885 til Svíþjóðar, Noregs, Englands og Þýskalands og kynnti sér hvað væri af íslenskum handritum í þessum löndum jafnframt því að kynna sér skrárgerð. Kålund vann síðan að gerð skrárinnar, sem kom út í tveimur bindum, hið fyrra 1889 og hið síðara 1894. Hér með var fenginn lykill að handritasafni Árna Magnússonar, sem ekki bara gerði þeim sem þegar þekktu til safnsins auðveldara fyrir um notkun þess, heldur opnaði skráin safnið fyrir öðrum erlendum fræðimönnum sem nú tóku að sækja til Kaupmannahafnar og nota safnið.

Skrá Kålunds er enn þann dag í dag grundvallarhandbók allra þeirra sem nýta vilja sér handritasafn Árna Magnússonar og er nú grunnurinn að þeirri rafrænu handritaskrá sem unnið er að í Árnasafni í Kaupmannahöfn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þegar Kålund hafði lokið við skrána um Árnasafn, tókst hann á hendur á vegum Árnanefndar að gera skrá um íslensk handrit í Konunglega bókasafninu og Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, en hún kom út árið 1900. Báðum þessum skrám fylgir greinargóður inngangur um handritasöfnin.

Smellið til að skoða stærri útgáfu.
Í hvert handrit sem hann vann við hefur Kålund skráð blaðafjölda og dagsetninguna þegar hann skoðaði handritið. Gefur þetta nokkra mynd af vinnuaðferð hans við gerð handritaskrárinnar. Smellið til að skoða stærri útgáfu.

Annað mikilvægt hjálpartæki sem Kålund gaf út er ljósprentað safn rithandarsýna úr handritum og bréfum í handritasöfnum í Kaupmannahöfn, svokallaður Palæografisk Atlas, í tveimur bindum. Fyrra bindið sem hefur að geyma rithandarsýnishorn úr dönskum handritum fram til 1550, kom út 1903 og seinna bindið, í tveimur hlutum, sem komu út 1905 og 1907, geymir sýnishorn íslenskra handrita frá miðöldum og fram til 1700. Með sýnishornunum lætur Kålund fylgja stafrétta útgáfu textans og handritaupplýsingar. Í inngangi að fyrsta bindinu segir hann að kveikjan að verkinu hafi verið Svenska skriftprof, sem út kom í Stokkhólmi 1894. Bogi Th. Melsted hikar ekki við, í fyrrnefndri minningargrein, að segja að Palæografisk Atlas sé „... hin mesta og merkasta bók, sem komið hefur út í sinni grein á Norðurlöndum.“ Auk þessara rita gaf Kålund út söfn bréfa frá hendi Árna Magnússonar, Embedsskrivelser og andre offentlige Aktstykker (1916), Brevveksling med Torfæus (Þormóð Torfason) og loks hóf hann að vinna að útgáfu einkabréfa Árna Magnússonar, en entist ekki aldur til að ljúka því verki, svo Finnur Jónsson gekk frá því endanlega og kom bókin út 1920.

En Kålund vann líka að því að koma hinum fornu textum handritanna á framfæri við almenning. Hann var einn af stofnendum Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur árið 1879 og gaf út á vegum þess fjöldann allan af textum, meðal annars Laxdæla sögu. Hann var ritari í Fornfræðafélaginu (Det Kongelige nordiske Oldskriftselskabs Oldskriftafdeling) frá 1891 og á vegum þess gaf hann út Sturlungu, sem kom út í tveimur bindum árin 1906 og 1911. Kålund er sennilega einna fyrstur norrænufræðinga sem beitt hefur skipulega svokallaðri stemma-aðferð við textaútgáfur, en sú aðferð byggist í stuttu máli á því að greina alla texta viðkomandi verks og sýna fram á tengsl þeirra og setja fram í nokkurs konar „ættartré“ (stemma codicum). Þessari aðferð beitir Kålund í Sturlunguútgáfunni, sem ein sér myndi nægja til að halda nafni hans á lofti. Eða eins og Björn M. Ólsen segir í ritdómi um útgáfuna í Skírni 1912: „Hann [Kålund] hefur með henni lagt fastan og óbifanlegan grundvöl undir níjar rannsóknir viðvíkjandi Sturlungu, og um leið reist sér þann minnisvarða, sem lengi mun standa „óbrotgjarn í bragar túni“.“

Grein Kålunds um handrit Sturlungu í Árbókum Fornfræðafélagsins „Om håndskrifterne af Sturlunga saga og dennes enkelte bestanddele”, sem birtist árið 1901 og stendur enn fyrir sínu sem grundvallarlýsing handritanna og tengsla þeirra. Jafnframt gaf Kålund út Sturlungu í danskri þýðingu, sem kom út árið 1904. Auk þessa ritaði Kålund fjöldann allan af fræðilegum tímaritsgreinum.

Kristian Kålund, sem bæði var ógiftur og barnlaus, lést í Kaupmannahöfn 4. júlí 1919 og ánafnaði Hinu íslenska fræðafélagi meiri hluta eigna sinna, en hann var einn af stofnfélögum þess. Í erfðaskránni var það tekið fram að ef Fræðafélagið yrði leyst upp bæri að nota peningana til að styrkja stofnanir á Íslandi og í Danmörku sem tækju að sér að nota þá til málfarslegra og sögulegra rannsókna, einkum í örnefnafræði.

Það er óhætt að segja að Kristian Kålund hafi verið einn af þeim vísindamönnum sem lagt hefur grunninn að norrænum fræðum.

Heimildir:
  • Prentað:
    • Björn M. Ólsen: Sturlunga saga efter membranen Króksfjarðarbók /.../. [Ritdómur]. Skírnir LXXX ár (1906), bls. 180-183.
    • Björn M. Ólsen: Sturlunga saga efter membranen Króksfjarðarbók /.../. [Ritfregn]. Skírnir LXXXVI ár (1912), bls. 361-367.
    • Bogi Th. Melsted: ‘Kristian Kålund bókavörður við handritasafn Árna Magnússonar’, í Ársrit Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn. Fimta ár. Kaupmannahöfn, 1920, bls. 91-116.
    • Jón Helgason: ‘Kristian Kålund’ í: Dansk biografisk leksikon XII. Kbh. 1937, bls. 273-275.
    • Finnur Jónsson: ‘Dr. Kr. Kålund 1844 19/8 1914’, í Afmælisrit til Dr. Phil. Kr. Kålunds bókavarðar við safn Árna Magnússonar 19. ágúst 1914. Kaupmannahöfn, 1914, bls. vii-xi.
    • Finnur Jónsson: ‘Kr. Kålund’, í Arkiv för nordisk filologi. Ny føljd. 32. Lund, 1920, bls. 332-337.
    • Sigfús Blöndal: ‘Kr. Kålund 1844-1919’ í Nordisk Tidskrift för Bok- och Biblioteksväsen. VI. 1919, bls. 202-206.
    • Þorvaldur Thoroddsen: Landfræðisaga Íslands. IV. Kaupmannahöfn, 1904, bls.89-93.

  • Óprentað:
    • Den Arnamagnæanske Kommissions Arkiv, Forhandlingsprotokol. Den Arnamagnæanske Samling, København.

  • Á Wikipediu (skoðað 29. júní 2011) er meðal annars að finna ritaskrá Kålunds.

Myndir:

...