Reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar heita í réttri röð frá sólinni: Merkúríus, Venus, Jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og Plútó, sem sagt alls níu reikistjörnur. Þessar reikistjörnur ferðast allar á sporbaugsbrautum (elliptical orbits) um sólina, nokkurn veginn í sömu sléttu. Þó víkur brautarslétta Plútós verulega frá jarðbrautarsléttunni, sjá nánar hér. Á svæðinu milli brauta Mars og Júpíters er belti af berghnullungum sem nær hringinn í kringum sólina. Þessir hnullungar eða smáhnettir kallast einu nafni smástirni (asteroid). Pláneturnar sem eru þar fyrir innan, Mars, Jörðin, Venus og Merkúríus, eru svipaðar jörðinni að stærð eða talsvert minni og gerðar úr bergi. Fyrir utan smástirnabeltið eru hins vegar gasrisarnir Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Plútó er minnst plánetanna og er hún aðallega úr bergi en þó líka úr ís, enda er mjög kalt svo fjarri sólinni.
Myndin sýnir reikistjörnurnar níu ásamt fjórum stórum tunglum Júpíters, sem stundum eru kennd við Galíleó. Bakgrunnur myndarinnar er frá Rosette-stjörnuþokunni og stafar rauði liturinn frá vetni, sá græni frá súrefni og sá blái frá brennisteini. Flestar myndirnar af himinhnöttunum á þessari samsettu mynd hafa verið teknar í leiðöngrum NASA til annarra hnatta í sólkerfinu en þeir hafa gerbreytt skilningi okkar á sólkerfinu á síðustu 30 árum. Nánar má lesa um myndun og gerð sólkerfisins í svari Tryggva Þorgeirssonar við spurningunni Hvernig varð jörðin til?