Í lok kaflans um kristnitökuna segir Ari í Íslendingabók: „En Ólafur Tryggvason féll hið sama sumar ... Það var þremur tigum vetra hins annars hundraðs eftir dráp Eadmundar, en þúsundi eftir burð Krists að alþýðu tali.“ Þetta var talin örugg heimild um að kristni hefði verið lögtekin á Alþingi árið 1000, uns Ólafía Einarsdóttir færði rök að því í doktorsritgerð sinni, árið 1964, að þessi tímatalsfræði væri reist á því að Ólafur konungur hefði ekki fallið fyrr en í september, en áramót væru í upphafi þess mánaðar. Þá koma fall Ólafs og kristnitaka Íslendinga hvort á sitt árið, fall Ólafs á árið 1000, en kristnitakan á árið 999. Fleiri líkur leiðir Ólafía að því að Ari og samtímamenn hans hafi álitið að kristni hafi verið lögtekin á því ári sem við köllum 999 en ekki 1000 (um það má lesa á íslensku í Skírni árið 1967). Þó geta rök Ólafíu tæpast talist alveg örugg, og því verður hér nokkur óvissa um hvort fyrsta árið þegar Alþingi kom saman í upphafi elleftu viku, en ekki tíundu, var árið 999 eða 1000. Þess vegna verður óvissa um samkomudag þingsins árið 999. Samkvæmt Réttarsögu Alþingis gat ellefta vika sumars byrjað á bilinu frá 18. til 24. júní, eftir því á hvaða mánaðardegi sumar byrjaði. Þá þurfum við að vita hvaða dag á þessu bili bar upp á fimmtudag á þeim árum sem um er að ræða. Til þess eru vísast til ólíkar aðferðir, en ég nota eilífðaralmanak (perpetual calendar) sem ég á í gamalli ensk-enskri orðabók (Webster’s New School and Office Dictionary frá 1963). Þar má slá því upp að árið 999 bar 22. júní upp á fimmtudag, árið 1000 20. júní (vikudagurinn færist um tvo daga því að árið 1000 var hlaupár í júlíönsku tímatali) og árið 1001 19. júní. Það sem hér hefur verið rakið leiðir til þeirrar ályktunar að árið 1000 hafa menn komið til Alþingis 20. júní og árið 1001 19. júní. Um árið 999 verður að hafa fyrirvara: Ef kristni var lögtekin árið 1000, þá hafa menn komið til Alþingis viku fyrr þetta ár, 15. júní. Ef kristnitökuárið var 999, þá hafa menn komið til Alþingis 22. júní. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær var Alþingi stofnað? eftir Pál Emil Emilsson og Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina? eftir Gunnar Karlsson
- Er hægt að finna út hvort tiltekið ár er hlaupár eða ekki, án þess að fletta upp í dagatali? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Af hverju lét Júlíus Sesar árið byrja á janúar? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvað veldur óreglunni í dagafjölda almanaksmánaðanna í tímatali okkar? eftir Þorstein Sæmundsson
- Wikipedia.com. Sótt 30.7.2010.