Við erum 3 ungmenni (fædd ´86) úr Kvennaskólanum í Reykjavík og vonumst til þess að geta fengið svar við einni spurningu um krókódíla fyrir kl 8:10 á föstudag, ef það er mögulega hægt? Við erum að flytja fyrirlestur um krókódíla og okkur vantar nauðsynlega að vita hversu margir deyja af völdum krókódíla á hverjum degi, eða hverju ári, í heiminum?Eftir því sem við best vitum er ekki til nein alþjóðleg skrá þar sem teknar eru saman tölfræðiupplýsingar um dauðsföll af völdum krókódíla. Sambærileg skrá, sem samtökin ISAF - International Shark Attack File halda, er til yfir árásir af völdum hákarla og hægt er að lesa um hana í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Éta allir hákarlar fólk?
Þó að ekki sé til alþjóðleg skrá er víða hægt að finna upplýsingar um dauðsföll sem krókódílar valda. Á ISAF-síðunni er til að mynda samanburðartafla yfir dauðsföll af völdum ameríska krókódílsins (Alligator mississippiensis) og hákarla í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Hægt er nálgast þann lista hér. Þar kemur meðal annars fram að í Flórída á árunum 1948-2003 eru skráð 326 tilvik þar sem amerískir krókódílar réðust á fólk og 13 dauðsföll. Í þeim fimm öðrum ríkjum sem eru á listanum eru engin skráð dauðsföll, en þar ná upplýsingarnar að vísu yfir mun styttra tímabil.
Til að hafa upp á sambærilegum upplýsingum yfir önnur lönd er ráðlegast að reyna að slá inn leitarorð í leitarvélar eins og til dæmis Google.com. Með því að leita eftir 'australia crocodiles deaths' má til að mynda finna að á síðustu 27 árum í Ástralíu er talið að krókódílar hafi orðið 14 manns að bana. Eflaust er hægt að finna upplýsingar um önnur lönd, til að mynda Afríku, með því að skipta út leitarorði. Á Vísindavefnum er hægt að lesa ýmislegt um krókódíla, með því að slá inn leitarorðið 'krókódílar' í leitarvél vefsins. Þar er meðal annars að finna svör við eftirfarandi spurningum:
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson
- Hver er munurinn á alligators og crocodiles? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað þurfa krókódílar að vera stórir til að við getum borðað þá? eftir JGÞ