Talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar á ýmsum þáttum í lífeðlisfræði sela, þar á meðal á skynjun þeirra. Margt er því vitað um sjónskynjun þeirra sem og aðrar skynleiðir. Selategundir flokkast í tvær ættir eftir því hvort þær hafa ytri eyru eða ekki. Til eyrnalausra tegunda (Phocidae) teljast meðal annarra sæfíll og íslensku selirnir, landselur og útselur. Eyrnaselum (Otariidae) tilheyra tegundir sæljóna og loðsela. Ásamt rostungum skipa selir undirættbálk hreifadýra (Pinnipedia). Það sem hér kemur fram, á við um sjón beggja ætta selategunda og rostunga.
Selir hafa mjög stór augu sem eru vel aðlöguð að sjónskynjun neðansjávar. Sjónin nýtist þeim vel í skuggsýnu og gruggugu vatni. Í nethimnunni í augum sela er þéttleiki stafa mjög mikill og það gerir þeim kleift að vinna úr flestum þeim ljóseindum sem skella á nethimnunni. Ennfremur er í sjónhimnu sela himna sem nefnist tærvoð (á fræðimáli tapetum lucidum sem snara mætti á íslensku sem „bjart teppi“ og orðið „tærvoð“ skilar einmitt vel þeirri merkingu). Þessi himna gegnir því hlutverki að endurvarpa ljósi aftur í gegnum sjónhimnuna og tryggir að stafirnir geti endurnýtt ljósið að nýju og greint hluti í afar lítilli birtu. Mörg önnur dýr hafa þessa himnu eða aðra svipaða, sérstaklega þau sem sjá vel í myrkri eins og til dæmis kettir.
Landselur (Phoca vitulina) sér vel neðansjávar.
Augasteinar sela eru stórir og sérstaklega lagaðir til að nema ljós sem brotnað hefur á yfirborði vatns eða sjávar. Neðansjávar víkka sjáöldur (ljósop) þeirra út en dragast saman í rifu á landi og í mikilli birtu, líkt og á við um ketti. Selir hafa ekki táragöng sem ná niður í nefholið líkt og flest landspendýr. Í staðinn nota þeir slím til að halda augunum rökum á landi og það er ástæðan fyrir því að þeir líta út eins og þeir séu alltaf að fara að gráta.
Selir geta vegna ofangreindrar aðlögunar séð mun betur neðansjávar en menn en sjón þeirra er mun lakari en okkar á þurru landi. Rannsóknir virðast einnig sýna fram á það að selir skynji ekki liti, hvort sem þeir hafa tapað litasjónskynjun í þróunarsögunni eða aldrei haft hana, enda nýtist hún lítt í skuggsýnum sjávarheimi þeirra.
Margt annað er merkilegt við skynjun sela, sumt bendir til þess að þeir reiði sig alls ekki eingöngu á næma neðansjávarsjón. Stór veiðihár (vibrissae) sela virka eins og þreifarar. Með þeim geta þeir staðsett smáa hluti, til dæmis samlokur eða fiska, í gruggugu vatni. Reynsla vísindamanna hefur sýnt að selir geta vel bjargað sér án þess að nota sjónina. Þeir hafa fundið blindar landselsurtur með heilbrigða kópa í fylgd með sér og virtist ekkert ama að þeim utan blindunnar. Urturnar voru í góðum holdum þannig að þær hafa getað náð sér í æti án þess að beita sjóninni. Því telja líffræðingar að selir notist fyrst og fremst við veiðihárin og síður sjónina þegar þeir finna sér æti.
Merki um frekari aðlögun sela að lífi í vatni er gríðarlega næm heyrn neðansjávar. Þeir geta skynjað hljóð á tíðnisviðinu 1-184 kHz með hámarksnæmni við 32 kHz. Ofansjávar minnkar næmnin stórlega og virðist vera á tíðnisviðinu 1-22,5 kHz - til samanburðar má nefna að menn greina hljóð á tíðnisviðinu 0,02-22 kHz.
Augljóst er á þessari umfjöllun að aðlögun sela að sjávarlífi nær ekki aðeins til líkamsbyggingar heldur er skynjun þeirra einnig miðuð við líf neðansjávar.
Heimildir og myndir:
Til eru mörg svör á Vísindavefnum um sjónskynjun dýra og lesendur eru hvattir til að nálgast þau með því að smella á efnisorðin eða slá inn orð í leitarvélina.