Fljótlega uppgötvaðist að í keflunum sem báru sleðann mynduðust djúpar rákir. Rákirnar gerðu það að verkum að hægt var að renna hlutnum lengra á hverju kefli og því þurfti sjaldnar að færa kefli fram fyrir. Þannig breyttust keflin fljótlega í hjól; viðurinn á milli rákanna var fjarlægður og frumstæður öxull myndaður. Þegar hjólin snerust gerði öxullinn það líka. Jafnframt var sleðinn tengdur við öxulinn með pinnum eins og myndin sýnir, þannig að sleðinn rann ekki fram miðað við öxulinn. Síðar hafa menn svo gert göt á sleðann fyrir öxulinn. Fyrsta viðarkerran hafði litið dagsins ljós. Kerran var svo betrumbætt með tíð og tíma. Hjólin og öxullinn voru til dæmis aðskilin sem auðveldaði beygjur því að í þeim snúast hjólin mislangt ef þau fylgja undirlaginu. Urðu þá til tæki með fjórum hjólum sem gátu borið meiri þunga en áður. Egyptar þróuðu síðar hjólið enn frekar til að nota í stríðsvagna sína. Grikkir tóku þessa egypsku hugmynd upp á sína arma og þróuðu enn. Á tíma Rómaveldis jókst svo úrvalið á farartækjum á hjólum til mikilla muna, en þeir áttu til dæmis stríðsvagna, veiðivagna og kappakstursvagna. Hjólið er gjarnan talin ein merkasta uppgötvun mannkynssögunnar og skyldi engan undra; erfitt væri að ímynda sér heiminn án hjólsins. Kannski mætti ætla að þessi uppgötvun hafi farið sem eldur í sinu um allar mannabyggðir strax eftir að hún var gerð. En svo einföld er hugmyndasagan ekki. Jafnvel þó að menn hafi vitað af sjálfri hugmyndinni er ekki sjálfgefið að finna hjá sér þörf til að nýta hana. Þannig notuðu Íslendingar ekki hjólið sem samgöngutæki að neinu ráði fyrr en á síðari hluta 19. aldar. Þjóðirnar sem byggðu Ameríku þegar Evrópumenn komu þangað, til dæmis Inkar, notuðu ekki heldur hjól í samgöngum þó að þær kynnu að öðru leyti ýmislegt fyrir sér. Þetta er ef til vill talið tengjast því að þær höfðu ekki dráttardýr. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver fann upp fyrsta reiðhjólið? eftir Bergsvein, Vigfús og Ragnhildi Eiri
- Encyclopædia Britannica.
- Thinkquest Library.
- Myndin er unnin upp eftir mynd hjá Brittanicu.