- Aðalsmörgæs (Pygoscelis adeliae) Þessi tegund lifir á Suðurheimskautslandinu og nokkrum aðliggjandi eyjum. Talið er að heildarstofnstærðin sé um 2,5 milljónir para.
- Gleraugna-mörgæsin (Spheniscus demersus) Deilur hafa verið um hvort hér sé um eina eða tvær tegundir að ræða en líffræðingar hallast nú að því að hér sé ein tegund á ferð. Hún verpir aðallega við strendur Namibíu og Suður-Afríku. Þetta er eina tegundin sem á heimkynni við strendur Afríku. Stofnstærð 70 þúsund pör.
- Hettumörgæs (e. chinstrap penguin, Pygoscelis antarctica) Lifir á Suðurheimskautinu, Falklandseyjum, Bouvereyju og nokkrum öðrum eyjum á Suður-Atlantshafi. Heildarstofnstærðin er um 7,5 milljónir para.
- Keisaramörgæs (Aptenodytes forsteri) Verpir á Suðurheimskautslandinu. Varpstofn um 220 þúsund pör.
- Kambmörgæs (e. erect-crested penguin, Eudyptes sclateri) Varpsvæði eru smáeyjar suður af Nýja-Sjálandi. Varpstofninn um 170 þúsund pör.
- Skúfmörgæs (Eudyptes pachyrhynchus) Verpir á Suðurey, stærstu eyju Nýja-Sjálands. Varpstofninn er aðeins 3.000 pör.
- Galapagosmörgæs (dropa-) (Spheniscus mendiculus) Verpir á Galapagoseyjum í Kyrrahafi eins og nafnið gefur til kynna. Varpstofninn telur einungis innan við 1.000 pör.
- Asnamörgæs (Pygoscelis papua) Þessi smávaxna mörgæs verpir á fjölmörgum eyjum undan ströndum Suðurheimskautslandsins. Varpstofninn er um 300 þúsund pör.
- Humboldtsmörgæs (Spheniscus humboldti) Verpir við strendur Norður-Síle og Perú í Suður Ameríku. Varpstofninn er um 12 þúsund pör.
- Konungsmörgæs (Aptenodytes patagonicus) Verpir á eftirtöldum eyjum: Marion, Prince Edward, Crozet, Kerguelen og Heard í Suður-Indlandshafi, Macquarie í Suður-Kyrrahafi, South Georgia og Falklandseyjum sem eru á Suður-Atlantshafi. Varpstofninn er um 2 milljónir fugla.
- Dvergmörgæsin (Eudyptula minor) Þessi sérstaka mörgæs fær nafn sitt af smáum vexti (43 cm á lengd) og bláum lit. Hún verpir við strendur Nýja-Sjálands og telur varpstofninn um 500 þúsund fugla.
- Klappamörgæs (Eudyptes chrysolophus) Geysilega útbreidd tegund, verpir meðal annars á South Georgia, South Sandwich, Suður-Orkneyjum, Suður-Shetlandseyjum, Bouvet, Prince Edward, Marion, Crozet, Kerguelen, Heard, Falklandseyjum, í Síle, Argentínu og á Suðurheimskautslandinu. Varpstofninn er einnig geysistór, eða 9 milljón pör.
- Magellanmörgæs (Spheniscus magellanicus) Verpir við strendur Suður-Ameríku, aðallega syðst á Eldlandi á svæði sem tilheyrir bæði Síle og Argentínu, og einnig á Falklandseyjum. Varpstofninn telur um 1,6 milljón pör.
- Klettahoppari (e. rockhopper, Eudyptes chrysocome) Samanstendur af þremur aðskildum deilitegundum sem finnast víða á Suðurhöfum og við Suður- Ameríku. Heildarvarpstofn þessarar tegundar er um 1,8 milljón pör.
- Látramörgæs (e. royal penguin, Eudyptes schlegeli) Finnst aðallega á Macquarieeyju. Varpstofninn er um 850 þúsund fuglar.
- Snörumörgæs (Eudyptes robustus) Verpir við Nýja-Sjáland og Snörueyju (Snares Island). Varpstofninn er um 30 þúsund fuglar.
- Gulaugnamörgæs (Megadyptes antipodes) Verpir við Nýja-Sjáland. Varpstofninn telur aðeins 1.500 fugla.
Heimildir og myndir:
- Soper, Tony, 1994, Antarctica: A Guide to the Wildlife, The Globe Pequot Press
- Todd, F., 1981, The Sea World Book of Penguins, Sea World Press
- Vefsetur National Geographic
- Smallworldimages.com
- Craig Potton Publishing