Í raun liggur barrskógabeltið (e. taiga) ekki aðeins í Síberíu heldur allt umhverfis jörðina. Í Norður-Ameríku liggur það gegnum Alaska og Kanada og í Evrasíu nær það yfir Skandinavíu og svo þvert um Rússland allt til Kyrrahafsstrandarinnar. Stærstur hluti beltisins tilheyrir Síberíu. Barrskógabeltið teygir sig jafnframt suður yfir landamæri Kasakstans og Mansjúríu og yfir á Hokkaídó-eyju sem tilheyrir Japan.
Borneó er þriða stærsta eyja í heiminum og var hér áður fyrr þakin þéttum regnskógi. Á strandsvæðum eyjunnar mátti finna ríkulegt votlendi með leiruviðarskógum (e. mangroves) og afar fjölbreytilegu vistkerfi. Vegna hins þéttvaxna skógar var eyjan hins vegar afar ógreiðfær og gátu fjölmargir ættbálkar lifað í friði frá umheiminum djúpt inni í skóginum. Á síðustu 20-30 árum hafa hins vegar orðið gríðarlegar breytingar á eyjunni. Til að mæta vaxandi eftirspurn eftir harðviði í Japan og Bandaríkjunum í upphafi níunda áratugarins var farið að ryðja skóginn í miklum mæli. Sú skógeyðing sem þá hófst á sér ekki fordæmi í mannkynssögunni. Um 80% af frumskóginum hefur verið eytt síðan 1980 að mati verndarsamtaka Borneó-regnskógarins. Sumir telja þetta þó vera töluvert ofmat og að í raun sé búið að fella um 50% af skóginum. Stærstur hluti viðarins var nýttur í húsgagnaframleiðslu, matarprjónagerð og pappírsvinnslu. Regnskógur Borneó hefur oft verið talið eitt tegundaauðugasta vistkerfi jarðar en líffræðilegur fjölbreytileiki svæðisins á sér fáar hliðstæður. Til að mynda finnast þar fleiri tegundir á hektara en í Amason-skóginum í Suður-Ameríku. Vegna þeirrar gríðarlegu eyðileggingar sem orðið hefur á Borneó eru helstu tegundir hryggdýra sem þar lifa í mikilli útrýmingarhættu. Þar má kannski helst nefna borneóórangútaninn (Pongo pygmaeus) sem er önnur af aðeins tveim tegundum órangútanapa og er aðeins að finna á Borneó.
Þetta var nánast samfelldur skógur sem lá um Laos, Kambódíu, Búrma (Mjanmar), Víetnam, Tæland og Malasíu. Talsvert hefur gengið á þetta skóglendi á síðustu áratugum ekki síst vegna umfangsmikilla hernaðarátaka í Víetnam. Miklu magni af sprengiefni var varpað á skóglendið í Víetnamstríðinu auk þess sem Bandaríkjaher notaði eitur til að drepa tré á stórum svæðum. Hin síðari ár hefur uppgangur í efnahagsmálum þessa svæðis valdið hraðri aukningu skógeyðingar. Mikill fjöldi dýrategunda á afkomu sína undir þessu skóglendi. Þar má nefna þúsundir skordýrategunda en einnig spendýr eins og sólbjörn (Helarctos malayanus), asíufíl (Elephas maximus) og tígrisdýr (Panthera tigris).
Hér er ekki beint um afmarkaðan skóg að ræða heldur viðamikið skóglendi á helstu eyjum Japans. Meðal þessara skóga er Aokigahara-skóglendið sem liggur við rætur Fujifjalls. Þetta er afar forn skógur og í honum má finna ótal hella. Hann skipar sérstakan sess í huga japönsku þjóðarinnar en margar af þjóðsagnaverum Japana eru sagðar eiga þar heimkynni sín. Aokigahara er frægasti skógur Japans og má því telja hann með helstu skógum Asíu. Hann er allavega einn af þekktustu skógum álfunnar. Það er athyglisvert að þrátt fyrir að japönsku eyjarnar séu að miklu leyti skógi vaxnar er Japan einn stærsti timburinnflytjandi heims. Skýringin á þessu felst einkum í því að verð á innfluttum trjám hefur verið töluvert lægra en á japönskum viði. Japanir hafa því ekki sótt hart í skógana hjá sér og þeir hafa því haldist nokkuð ósnertir.
Þessir skógar eru með þeim tegundaauðugustu á jörðinni. Þeir eru jafnframt eitt stærsta ókannaða svæði jarðar og hafa hingað til verið lítið rannsakað. Náttúrufræðingar sem stunda rannsóknir þar nú eru því sífellt að finna nýjar tegundir bæði plantna og dýra, meðal annars ýmsar tegundir hryggdýra. Myndir:
- Taiga.png. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 3.0 DEED leyfi.
- Siberian taiga. Imaggeo.egu.eu. Höfundur myndar Lyudmila Lebedeva. Birt undir CC BY-NC-SA 3.0 DEED leyfi.
- Bornean orangutan (Pongo pygmaeus), Tanjung Putting National Park 01.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar Thomas Fuhrmann. Birt undir CC BY-SA 4.0 DEED leyfi.
- SaiKo.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar BehBeh. Birt undir CC BY-SA 3.0 DEED leyfi.
- PNG-climate.png. Wikimedia Commons. Höfundur myndar NASA.