Helstu innihaldsefni túnfífils eru fenólar, seskvíterpenar, tríterpenar, plöntusterólar, flavonóíðar, einnig inúlín og aðrar sykrur, fituefni og ýmis vítamín og steinefni. Talið var að blöðin, sem eru mjög næringarrík, hefðu þvagdrífandi virkni og innihéldu mikið af kalíum. Þau voru því mikið notuð við bjúg einkum ef hann orsakaðist af máttlitlu hjarta. Rótin var notuð við öllum lifrar- og gallblöðrusjúkdómum, til dæmis gulu, og einnig við meltingartregðu, svefnleysi og þunglyndi. Rótin var talin mjög góð fyrir fólk sem þurfti að styrkja sig eftir langvarandi lyfjatöku eða áfengisneyslu. Fíflamjólkin var notuð á vörtur og líkþorn. Túnfífill var einnig notaður til matargerðar og búa má til bragðgott fíflavín úr blómunum og blöðin þykja góð í salat. Seyði af fíflablöðum var notað til andlitsþvotta í fegrunarskyni og ristuð rótin var notuð í kaffibæti. Nokkrar rannsóknir, gerðar á dýrum, hafa þó gefi til kynna að þvagdrífandi virkni sé ekki veruleg og líklega frekar tengd magni kalíums í rótum og blöðum. Einnig eru til heimildir fyrir því að etanól extrakt úr rótum túnfífils minnki bjúgmyndun að einhverju leyti í tilraunarottum og einnig var sýnt fram á að seytun á galli tvöfaldaðist eftir gjöf með ferskri rót túnfífils. Rannsóknir hafa einnig gefið til kynna að innihaldsefni úr túnfífli geti lækkað styrk blóðsykurs í eðlilegum kanínum. Rannsóknir gerðar í tilraunaglösum hafa gefið til kynna æxlishemjandi virkni á ákveðin æxliskerfi (tumor systems) og einnig hefur verið sýnt fram á vaxtarhemjandi virkni extrakta á brjóstakrabbameinslínu. Hafa ber í huga að vegna takmarkaðra rannsókna, sérstaklega klínískra rannsókna, það er áhrifum á mannslíkama, er ekki hægt að staðfesta ofangreinda verkunarmáta túnfífils. Ofnæmisviðbrögð við snertingu á túnfífli hafa verið skráð og talið er að ákveðið innihaldsefni túnfífils, seskvíterpen-laktón, valdi ofnæmisviðbrögðum. Túnfífill virðist ekki hafa eiturverkanir, jafnvel í stórum skömmtum, þó ber að hafa í huga að þörf er á frekari rannsóknum varðandi öryggi og eiturvirkni túnfífils. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis fjallagrös virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margrét Bessadóttur
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis sólhattur virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margrét Bessadóttur
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis birkiaska virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margrét Bessadóttur
- Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga? eftir Símon Jón Jóhannsson
- Hvernig var skessujurt notuð til lækninga? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig planta er vallhumall og hvernig hefur hún verið notuð? eftir Sigmund Guðbjarnarson
- Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmund Guðbjarnason