Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Í hverju felst sókratíska aðferðin?

Svavar Hrafn Svavarsson

Sókratíska aðferðin er kennd við Sókrates sem Platon lét spyrja spurninga í þeim samræðum sínum sem taldar eru elstar og iðulega nefndar sókratísku samræðurnar. Snið aðferðarinnar er ekki flókið: Sókrates spyr þá sem hann heldur (eða þykist halda) að gætu vitað eitthvað og þykjast reyndar vita eitthvað. Oft spyr hann um einhverja dyggð eða siðferðilegan eiginleika. Hann virðist vera á höttunum eftir skilgreiningu. Viðmælandinn leggur eitthvað til og segir hvað hann telji dyggðina eða eiginleikann vera. Sókrates reynir þá og prófar tillöguna með því að krefjast svara við fleiri spurningum. Að lokum kemur á daginn að svörin við þeim spurningum stangast á við upphaflegu tillöguna. Til verður ósamræmi á milli tillögunnar og svaranna þannig að hvort tveggja getur ekki verið satt. Allt er enn með felldu. En nú má spyrja nokkurra spurninga um aðferðina sjálfa, og hefur einkum þriggja verið spurt: Hvað veldur aðferðinni? Hvers vegna vill Sókrates fanga dyggð með skilgreiningu? Hvernig bregst Sókrates við lokastöðunni?

Sókratíska aðferðin er kennd við Sókrates sem Platon lét spyrja spurninga í þeim samræðum sínum sem taldar eru elstar og iðulega nefndar sókratísku samræðurnar.

Af hverju spurði Sókrates á þennan hátt? Svarið við þessari spurningu virðist vera yfirlýst fávísi Sókratesar og löngun hans eftir visku, ást hans á visku. Sókrates sagðist vera fávís og þess vegna leita þekkingar. Málsvörnin hefur að geyma eftirfarandi lýsingu (21a-d í þýðingu Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar):

Hann [Kærefon] fór einu sinni til Delfa og dirfðist að leggja þessa spurningu fyrir guðinn … hann spurði, hvort nokkur maður væri vitrari en ég. Völvan svaraði því, að enginn væri mér vitrari … Þegar ég heyrði þetta, fór ég að hugsa eitthvað á þessa leið með sjálfum mér: „Hvað ætli guðinn eigi við? Hvað ætli búi að baki, er hann talar í gátum? Því það veit ég með sjálfum mér, að ég er ekki vitur, hvorki í smáu né stóru. Hvað getur hann þá átt við, er hann segir, að ég sé manna vitrastur? Ekki getur hann logið, því að það væri gagnstætt guðseðli hans.“ … Ég fór til eins þeirra manna, er höfðu orð á sér fyrir að vera vitrir … Þegar ég fór nú að reyna manninn … þá reyndist mér og leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. Af þessu lagði hann fæð á mig og margir aðrir, sem við voru staddir. En á leiðinni heim til mín hugsaði ég svo með sjálfum mér: Vitrari er ég þó en þessi maður. Reyndar virðist hvorugur okkar vita neitt fagurt né gott, en hann þykist vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu eina leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég heldur ekki vita.

Svo virðist sem Sókrates sé ekki vitur, að eigin mati, því hann viti ekkert fagurt og gott. Áður (20d8) hafði hann reyndar viðurkennt að búa yfir mannviti. En þetta mannvit sé ómerkilegt og fangi ekki það sem er fagurt og gott. Síðar útskýrir hann hversu lítils virði slíkt mannvit er (23a-b):

En sannleikurinn er sá, Aþenumenn, að guðinn einn er vitur, og í véfrétt þessari á hann við það, að mannleg vizka sé mjög lítils eða öllu heldur einskis virði. Virðist svo sem hann hafi ekki notað nafn mitt nema til dæmis, eins og hann vildi segja: Sá yðar, góðir menn, er vitrastur, sem eins og Sókrates hefur komizt til þeirrar viðurkenningar, að þekking hans sé í sannleika einskis virði.“

Hann hélt að eigin sögn áfram leit sinni. Eftir að hafa átt samræður við stjórnmálamenn ræddi hann við skáldin, sem „ortu ekki af vizku, heldur af einhverri andagift og guðmóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf“ (22b-c). Iðnaðarmenn tók hann tali, enda kunnu þeir margt sem hann kunni ekki, en eins og aðrir þóttust þeir „vera hinir vitrustu í öðrum greinum, er mikilvægastar eru“ (22d-e). Þessir kunnáttumenn bjuggu væntanlega yfir einhvers konar mannviti, óæðra viti.

Mannvit Sókratesar sjálfs er takmarkað, eins og gefur að skilja. Þó stendur hann framar öðrum, því mannvit hans virðist fyrst og fremst felast í því að viðurkenna að hann búi ekki yfir guðaviti, guðdómlegri visku; mannvit hans fangi því ekkert fagurt eða gott. En það útilokar ekki að hann viti ýmislegt annað, sem er hvorki fagurt né gott, eða mikils virði yfirleitt. Sókrates virðist gera greinarmun á viðfangsefnum þekkingar. Hann leitar þekkingar sem er guðdómleg af því hún beinist að hinu fagra og góða, sem aðrir þykjast hafa en ekki hann.

Þekking á hverju er þetta? Megi marka sókratísku samræðurnar, er þetta þekking á því hvernig skuli haga lífi sínu sem best, af dyggð, til dæmis réttlæti og frómleika. Hér komum við að seinni spurningunni. Sókrates virðist hafa álitið að þessi þekking, sem gerði manni kleift að lifa vel, krefðist getunnar til að skilgreina dyggð og aðra siðferðilega eiginleika. Hann býr sjálfur ekki yfir þessari getu og er því fávís um það sem er í sannleika fagurt og gott. En hvernig má vera að Sókrates telji sig vita ýmislegt, einkum um siðferðismál, eins og að verra sé að fremja en þola ranglæti, sem hann segist vita mætavel? Þessi þekking er væntanlega ekki sú sem hann kallar þekkingu á fögrum og góðum hlutum, sem gæti gert honum kleift að lifa vel.

Sókratíska aðferðin er iðulega nefnd á útlendum málum latneska nafnorðinu elenchus (af grísku elenkos), sem mætti þýða með íslenska nafnorðinu „hnekking“, enda hnekkir Sókrates tillögum viðmælenda sinna, flækir þá alltént í þversögn. Myndin er Dauði Sókratesar (1787), málverk eftir Jacques-Louis David (1748-1825).

Þegar Sókrates spyr spurninga sinna, eins og þeirrar hvað sé að vera frómur eða guðhræddur (sem hann gerir í samræðunni Evþýfron), hafnar hann upptalningu á dæmum um frómleika. Hann leitar þess sem kalla mætti eðlisskilgreiningu á frómleika, sem ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg forsenda þekkingar á frómleika. Og búi hann yfir þessari þekkingu, þá getur hann hagað lífi línu vel. Margir hafa talið að Sókrates leiti skilgreininga sinna með tvennt í huga: Viti maður ekki hvað frómleiki er, þá veit maður hvorki um nokkuð að það sé frómt, né veit maður um nokkurn eiginleika að hann tilheyri frómleika. Viti Sókrates ekki hvað frómleiki er í raun og veru, þá getur hann hvorki borið kennsl á nokkur dæmi um eitthvað sem er frómt né vitað til dæmis að frómleiki sé dyggð; hann veit hreinlega ekkert um frómleika.

Víkjum nú aftur að sókratísku aðferðinni, sem iðulega er nefnd á útlendum málum latneska nafnorðinu elenchus (af grísku elenkos), sem mætti þýða með íslenska nafnorðinu „hnekking“, enda hnekkir Sókrates tillögum viðmælenda sinna, flækir þá alltént í þversögn. Hann gerir þá afturreka, reyndar svo að margir þeirra brugðust illa við, enda mannlegt að móðgast við slíkar aðstæður. Hvaða ályktun dregur Sókrates af því að upphaflega tillagan og svör við frekari spurningum stangast á, þannig að hvort tveggja geti ekki verið satt? Gregory Vlastos hét grískættaður fræðimaður í fornaldarheimspeki.[1] Hann taldi, eins og margir gera enn, að Sókrates hafi ályktað að upphaflega tillagan hlyti að vera ósönn. Vandinn blasir við. Og við hann glímdi Vlastos: Þessi ályktun er ljóslega óréttmæt, því aðeins ósamkvæmnin hefur verið afhjúpuð. Ef Sókrates ályktar eigi að síður svo, hlýtur hann að styðjast við aðrar (þöglar) forsendur. Svo taldi Vlastos vera, sem og margir aðrir, þó að skoðanir séu skiptar á því hvaða (þöglu) forsendur Sókrates styðjist við.[2] Aðrir hafa hafnað þessari túlkun og fært fyrir því rök að Sókrates dragi enga slíka ályktun, heldur láti sér nægja að afhjúpa ósamkvæmnina.[3] Helsti gallinn við þá túlkun er sá, sýnist ýmsum, að erfitt sé að ímynda sér að Sókrates hafi talið það vera heillavænlega leið að guðdómlegri þekkingu að afhjúpa ósamkvæmni viðmælenda sinna, en hann segist oft vera á höttunum eftir þessari þekkingu.

Sókrates taldi mikilvægt að ástunda heimspeki af þessu tagi, spyrja spurninga og vænta heiðarlegra svara. Reyndar sýndist honum, samkvæmt Platoni, að því lífi væri vel varið, gæti jafnvel ekki verið betur varið, sem fælist í þessari leit að þekkingu, enda farast honum svo orð í Málsvörninni (38a): „En ég segi hins vegar, að þetta sé manni bezt af öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Það má telja líklegt að eðlisskilgreiningar Sókratesar eigi ýmislegt sameiginlegt með frummyndum Platons, þótt ýmislegt skilji að. Platon gerir leit Sókratesar að þekkingu að umtalsefni í samræðunni Menon, þar sem hann virðist leggja til að nauðsynlegt sé að búa yfir einhverri ófullkominni þekkingu á til dæmis frómleika eigi maður að geta komist að því hvað frómleiki sé í raun og veru. Annars komist maður hvorki lönd né strönd. Platon velti þess vegna fyrir sér möguleikanum á því að við, og Sókrates, værum ekki alveg fávís, heldur byggjum yfir meðfæddri þekkingu, sem blundaði í sálum okkar en gæti vaknað og gerði það kannski þegar við skynjuðum hluti, menn og atburði, og veltum þeim fyrir okkur. Það er upprifjunarkenningin, sem kynnast má í sömu samræðu. Það sem við nálgumst á þennan hátt er frummyndin, eins og lesa má í samræðunni Fædon og Platon gerir að hryggjarstykki í Ríkinu.[4] Leit Sókratesar að skilgreiningum með þessari aðferð sinni var væntanlega aðdragandinn að frummyndakenningu Platons.

Tilvísanir:
  1. ^ Hvað sem um skilning hans og skoðanir á Sókratesi mætti segja er ljóst að hann velti fyrir sér sókratísku aðferðinni á þann hátt sem hefur mótað umræðu fræðimanna um sókratíska hnekkingu. Skrif hans um aðrar hliðar á heimspeki Sókratesar höfðu einnig mikil áhrif; sjá G. Vlastos, „The Socratic Elenchus: Method is All“, M. Burnyeat (ritstj.) Socratic Studies (Cambridge, 1994), 1-37.
  2. ^ Sjá t.d. T. Irwin, Plato’s Ethics (Oxford, 1995), k. 2.
  3. ^ Sjá t.d. H. Benson, “Socratic Method”, D.R. Morrison (ritstj.), Cambridge Companion to Socrates (Cambridge, 2010), 179-200.
  4. ^ Þessar samræður Platons hafa allar verið þýddar á íslensku: Síðustu dagar Sókratesar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1973) hefur að geyma Fædon og Málsvörn Sókratesar (ásamt Krítoni) í þýðingum Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar; Menón (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993) þýddi Sveinbjörn Egilsson, en Eyjólfur Kjalar Emilsson og Gunnar Harðarson önnuðust útgáfuna; Ríkið (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1991) þýddi Eyjólfur Kjalar Emilsson.

Myndir:

Höfundur

Svavar Hrafn Svavarsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

6.5.2020

Spyrjandi

Arnór Gunnarsson

Tilvísun

Svavar Hrafn Svavarsson. „Í hverju felst sókratíska aðferðin?“ Vísindavefurinn, 6. maí 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31011.

Svavar Hrafn Svavarsson. (2020, 6. maí). Í hverju felst sókratíska aðferðin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31011

Svavar Hrafn Svavarsson. „Í hverju felst sókratíska aðferðin?“ Vísindavefurinn. 6. maí. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31011>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Í hverju felst sókratíska aðferðin?
Sókratíska aðferðin er kennd við Sókrates sem Platon lét spyrja spurninga í þeim samræðum sínum sem taldar eru elstar og iðulega nefndar sókratísku samræðurnar. Snið aðferðarinnar er ekki flókið: Sókrates spyr þá sem hann heldur (eða þykist halda) að gætu vitað eitthvað og þykjast reyndar vita eitthvað. Oft spyr hann um einhverja dyggð eða siðferðilegan eiginleika. Hann virðist vera á höttunum eftir skilgreiningu. Viðmælandinn leggur eitthvað til og segir hvað hann telji dyggðina eða eiginleikann vera. Sókrates reynir þá og prófar tillöguna með því að krefjast svara við fleiri spurningum. Að lokum kemur á daginn að svörin við þeim spurningum stangast á við upphaflegu tillöguna. Til verður ósamræmi á milli tillögunnar og svaranna þannig að hvort tveggja getur ekki verið satt. Allt er enn með felldu. En nú má spyrja nokkurra spurninga um aðferðina sjálfa, og hefur einkum þriggja verið spurt: Hvað veldur aðferðinni? Hvers vegna vill Sókrates fanga dyggð með skilgreiningu? Hvernig bregst Sókrates við lokastöðunni?

Sókratíska aðferðin er kennd við Sókrates sem Platon lét spyrja spurninga í þeim samræðum sínum sem taldar eru elstar og iðulega nefndar sókratísku samræðurnar.

Af hverju spurði Sókrates á þennan hátt? Svarið við þessari spurningu virðist vera yfirlýst fávísi Sókratesar og löngun hans eftir visku, ást hans á visku. Sókrates sagðist vera fávís og þess vegna leita þekkingar. Málsvörnin hefur að geyma eftirfarandi lýsingu (21a-d í þýðingu Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar):

Hann [Kærefon] fór einu sinni til Delfa og dirfðist að leggja þessa spurningu fyrir guðinn … hann spurði, hvort nokkur maður væri vitrari en ég. Völvan svaraði því, að enginn væri mér vitrari … Þegar ég heyrði þetta, fór ég að hugsa eitthvað á þessa leið með sjálfum mér: „Hvað ætli guðinn eigi við? Hvað ætli búi að baki, er hann talar í gátum? Því það veit ég með sjálfum mér, að ég er ekki vitur, hvorki í smáu né stóru. Hvað getur hann þá átt við, er hann segir, að ég sé manna vitrastur? Ekki getur hann logið, því að það væri gagnstætt guðseðli hans.“ … Ég fór til eins þeirra manna, er höfðu orð á sér fyrir að vera vitrir … Þegar ég fór nú að reyna manninn … þá reyndist mér og leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. Af þessu lagði hann fæð á mig og margir aðrir, sem við voru staddir. En á leiðinni heim til mín hugsaði ég svo með sjálfum mér: Vitrari er ég þó en þessi maður. Reyndar virðist hvorugur okkar vita neitt fagurt né gott, en hann þykist vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu eina leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég heldur ekki vita.

Svo virðist sem Sókrates sé ekki vitur, að eigin mati, því hann viti ekkert fagurt og gott. Áður (20d8) hafði hann reyndar viðurkennt að búa yfir mannviti. En þetta mannvit sé ómerkilegt og fangi ekki það sem er fagurt og gott. Síðar útskýrir hann hversu lítils virði slíkt mannvit er (23a-b):

En sannleikurinn er sá, Aþenumenn, að guðinn einn er vitur, og í véfrétt þessari á hann við það, að mannleg vizka sé mjög lítils eða öllu heldur einskis virði. Virðist svo sem hann hafi ekki notað nafn mitt nema til dæmis, eins og hann vildi segja: Sá yðar, góðir menn, er vitrastur, sem eins og Sókrates hefur komizt til þeirrar viðurkenningar, að þekking hans sé í sannleika einskis virði.“

Hann hélt að eigin sögn áfram leit sinni. Eftir að hafa átt samræður við stjórnmálamenn ræddi hann við skáldin, sem „ortu ekki af vizku, heldur af einhverri andagift og guðmóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf“ (22b-c). Iðnaðarmenn tók hann tali, enda kunnu þeir margt sem hann kunni ekki, en eins og aðrir þóttust þeir „vera hinir vitrustu í öðrum greinum, er mikilvægastar eru“ (22d-e). Þessir kunnáttumenn bjuggu væntanlega yfir einhvers konar mannviti, óæðra viti.

Mannvit Sókratesar sjálfs er takmarkað, eins og gefur að skilja. Þó stendur hann framar öðrum, því mannvit hans virðist fyrst og fremst felast í því að viðurkenna að hann búi ekki yfir guðaviti, guðdómlegri visku; mannvit hans fangi því ekkert fagurt eða gott. En það útilokar ekki að hann viti ýmislegt annað, sem er hvorki fagurt né gott, eða mikils virði yfirleitt. Sókrates virðist gera greinarmun á viðfangsefnum þekkingar. Hann leitar þekkingar sem er guðdómleg af því hún beinist að hinu fagra og góða, sem aðrir þykjast hafa en ekki hann.

Þekking á hverju er þetta? Megi marka sókratísku samræðurnar, er þetta þekking á því hvernig skuli haga lífi sínu sem best, af dyggð, til dæmis réttlæti og frómleika. Hér komum við að seinni spurningunni. Sókrates virðist hafa álitið að þessi þekking, sem gerði manni kleift að lifa vel, krefðist getunnar til að skilgreina dyggð og aðra siðferðilega eiginleika. Hann býr sjálfur ekki yfir þessari getu og er því fávís um það sem er í sannleika fagurt og gott. En hvernig má vera að Sókrates telji sig vita ýmislegt, einkum um siðferðismál, eins og að verra sé að fremja en þola ranglæti, sem hann segist vita mætavel? Þessi þekking er væntanlega ekki sú sem hann kallar þekkingu á fögrum og góðum hlutum, sem gæti gert honum kleift að lifa vel.

Sókratíska aðferðin er iðulega nefnd á útlendum málum latneska nafnorðinu elenchus (af grísku elenkos), sem mætti þýða með íslenska nafnorðinu „hnekking“, enda hnekkir Sókrates tillögum viðmælenda sinna, flækir þá alltént í þversögn. Myndin er Dauði Sókratesar (1787), málverk eftir Jacques-Louis David (1748-1825).

Þegar Sókrates spyr spurninga sinna, eins og þeirrar hvað sé að vera frómur eða guðhræddur (sem hann gerir í samræðunni Evþýfron), hafnar hann upptalningu á dæmum um frómleika. Hann leitar þess sem kalla mætti eðlisskilgreiningu á frómleika, sem ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg forsenda þekkingar á frómleika. Og búi hann yfir þessari þekkingu, þá getur hann hagað lífi línu vel. Margir hafa talið að Sókrates leiti skilgreininga sinna með tvennt í huga: Viti maður ekki hvað frómleiki er, þá veit maður hvorki um nokkuð að það sé frómt, né veit maður um nokkurn eiginleika að hann tilheyri frómleika. Viti Sókrates ekki hvað frómleiki er í raun og veru, þá getur hann hvorki borið kennsl á nokkur dæmi um eitthvað sem er frómt né vitað til dæmis að frómleiki sé dyggð; hann veit hreinlega ekkert um frómleika.

Víkjum nú aftur að sókratísku aðferðinni, sem iðulega er nefnd á útlendum málum latneska nafnorðinu elenchus (af grísku elenkos), sem mætti þýða með íslenska nafnorðinu „hnekking“, enda hnekkir Sókrates tillögum viðmælenda sinna, flækir þá alltént í þversögn. Hann gerir þá afturreka, reyndar svo að margir þeirra brugðust illa við, enda mannlegt að móðgast við slíkar aðstæður. Hvaða ályktun dregur Sókrates af því að upphaflega tillagan og svör við frekari spurningum stangast á, þannig að hvort tveggja geti ekki verið satt? Gregory Vlastos hét grískættaður fræðimaður í fornaldarheimspeki.[1] Hann taldi, eins og margir gera enn, að Sókrates hafi ályktað að upphaflega tillagan hlyti að vera ósönn. Vandinn blasir við. Og við hann glímdi Vlastos: Þessi ályktun er ljóslega óréttmæt, því aðeins ósamkvæmnin hefur verið afhjúpuð. Ef Sókrates ályktar eigi að síður svo, hlýtur hann að styðjast við aðrar (þöglar) forsendur. Svo taldi Vlastos vera, sem og margir aðrir, þó að skoðanir séu skiptar á því hvaða (þöglu) forsendur Sókrates styðjist við.[2] Aðrir hafa hafnað þessari túlkun og fært fyrir því rök að Sókrates dragi enga slíka ályktun, heldur láti sér nægja að afhjúpa ósamkvæmnina.[3] Helsti gallinn við þá túlkun er sá, sýnist ýmsum, að erfitt sé að ímynda sér að Sókrates hafi talið það vera heillavænlega leið að guðdómlegri þekkingu að afhjúpa ósamkvæmni viðmælenda sinna, en hann segist oft vera á höttunum eftir þessari þekkingu.

Sókrates taldi mikilvægt að ástunda heimspeki af þessu tagi, spyrja spurninga og vænta heiðarlegra svara. Reyndar sýndist honum, samkvæmt Platoni, að því lífi væri vel varið, gæti jafnvel ekki verið betur varið, sem fælist í þessari leit að þekkingu, enda farast honum svo orð í Málsvörninni (38a): „En ég segi hins vegar, að þetta sé manni bezt af öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Það má telja líklegt að eðlisskilgreiningar Sókratesar eigi ýmislegt sameiginlegt með frummyndum Platons, þótt ýmislegt skilji að. Platon gerir leit Sókratesar að þekkingu að umtalsefni í samræðunni Menon, þar sem hann virðist leggja til að nauðsynlegt sé að búa yfir einhverri ófullkominni þekkingu á til dæmis frómleika eigi maður að geta komist að því hvað frómleiki sé í raun og veru. Annars komist maður hvorki lönd né strönd. Platon velti þess vegna fyrir sér möguleikanum á því að við, og Sókrates, værum ekki alveg fávís, heldur byggjum yfir meðfæddri þekkingu, sem blundaði í sálum okkar en gæti vaknað og gerði það kannski þegar við skynjuðum hluti, menn og atburði, og veltum þeim fyrir okkur. Það er upprifjunarkenningin, sem kynnast má í sömu samræðu. Það sem við nálgumst á þennan hátt er frummyndin, eins og lesa má í samræðunni Fædon og Platon gerir að hryggjarstykki í Ríkinu.[4] Leit Sókratesar að skilgreiningum með þessari aðferð sinni var væntanlega aðdragandinn að frummyndakenningu Platons.

Tilvísanir:
  1. ^ Hvað sem um skilning hans og skoðanir á Sókratesi mætti segja er ljóst að hann velti fyrir sér sókratísku aðferðinni á þann hátt sem hefur mótað umræðu fræðimanna um sókratíska hnekkingu. Skrif hans um aðrar hliðar á heimspeki Sókratesar höfðu einnig mikil áhrif; sjá G. Vlastos, „The Socratic Elenchus: Method is All“, M. Burnyeat (ritstj.) Socratic Studies (Cambridge, 1994), 1-37.
  2. ^ Sjá t.d. T. Irwin, Plato’s Ethics (Oxford, 1995), k. 2.
  3. ^ Sjá t.d. H. Benson, “Socratic Method”, D.R. Morrison (ritstj.), Cambridge Companion to Socrates (Cambridge, 2010), 179-200.
  4. ^ Þessar samræður Platons hafa allar verið þýddar á íslensku: Síðustu dagar Sókratesar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1973) hefur að geyma Fædon og Málsvörn Sókratesar (ásamt Krítoni) í þýðingum Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar; Menón (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993) þýddi Sveinbjörn Egilsson, en Eyjólfur Kjalar Emilsson og Gunnar Harðarson önnuðust útgáfuna; Ríkið (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1991) þýddi Eyjólfur Kjalar Emilsson.

Myndir:...