Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiÞjóðfræðiEr satt að það fylgi því hamingja að hengja skeifu fyrir ofan hurð? Getið þið útskýrt þessa goðsögn?
Elstu heimildir um að notaðar séu járnskeifur á hesta eru frá 5. öld. Á Norðurlöndum fóru menn þó ekki að járna hesta fyrr en snemma á 9. öld. Skeifur hafa lengi verið taldar lukkutákn og það þykir happafengur að finna skeifu á förnum vegi. Margir hafa fyrir sið að taka slíka skeifu með sér heim og hengja hana upp fyrir ofan dyr. Sumir hrækja á skeifuna, kasta henni svo yfir vinstri öxlina og óska sér um leið.
Það er talið betra snúi skeifan sem menn finna í sömu átt og þeir eru að fara, það er að segja að opið snúi að finnandanum, og þeim mun slitnari sem hún er því betra. Best er að í skeifunni séu ennþá þrjár eða fimm hóffjaðrir, en sjö og níu er líka gott.
Járn sem hert er í eldi er talið vera góð fjandafæla
Skeifur sem hengdar eru upp fyrir ofan dyragætt eru taldar góðar fjandafælur, en járn sem hert er í eldi er talið gott til slíks brúks. Þær hafa verið taldar góð vörn gegn draugum og öðrum illum vættum, galdrahyski og fólki með ill augu.
Tvennum sögum fer þó af því hvernig skeifurnar eigi að snúa yfir dyragatinu. Ýmist halda menn því fram að þær eigi að snúa eins og U, en þá sé það skál sem hamingjan safnast í, eða þá að hún eigi að snúa öfugt, eins og hlið sem gæfan fer í gegnum en fjandinn ekki. Til er líka að skeifa sé hengd upp eins og C og tákni þá fyrsta bókstafinn í nafni frelsarans (l. Christus) eða þá tunglið.
Jónas Jónasson (1856-1918) frá Hrafnagili segir í þjóðháttabók sinni að: „til þess að verja draugum og illum öndum að fara í húsin negldu sumir öfuga skeifu (eins og hún snýr undir hrossfætinum) framan í dyratréð ...“ (Íslenskir þjóðhættir. Bls 101)
Skeifa hengd á vegg eins og U á að vera skál sem hamingjan safnast í. Þeim mun slitnari sem skeifan er þeim mun betra.
Víða í Evrópu var til siðs hér áður fyrr að láta búsmalann stíga yfir skeifu þegar hann var tekinn í hús á haustin. Skeifur voru því oft negldar á þröskulda á útihúsum. Þess eru einnig dæmi að skeifur hafi verið settar í rúm hjá fæðandi konum svo að fæðingin gangi betur. Skeifur voru líka festar til dæmis á strokkbotna, mastur skipa, yfir kirkjudyrum og annars staðar þar sem þótti þurfa verndar við. Í seinni tíð hafa hjátrúarfullir haft fyrir sið að festa skeifur framan á bíla eða talið það gæfumerki að hafa bókstafinn U í bílnúmerum.
Írar eiga sína eigin skýringu á tilkomu skeifuhjátrúarinnar sem fram kemur í sögu af heilögum Dunstan (909-988). Dunstan sem seinna varð erkibiskup var upphaflega smiður. Sagan segir að einn daginn hafi djöfullinn komið til hans og beðið hann að smíða skeifu á hóf sinn, en djöfullinn mun vera með hóf á öðrum fæti. Dunstan áttaði sig þegar á því við hvern var að eiga en lét þó tilleiðast að smíða skeifuna. Hann beitti hins vegar verkfærum sínum af þvílíkum krafti að djöfullinn æpti og grét en Dunstan lét hann ekki sleppa fyrr en hann lofaði því að halda sig frá þeim húsum þar sem skeifa hangir yfir dyrum.
Skopleg teikning af glímubrögðum heilags Dunstans og djöfulsins. Dunstan sleppti ekki djöflinum fyrr en hann lofaði að halda sig frá húsum með skeifu yfir dyrum.
Í annarri þjóðsögu segir að einu sinni hafi Drottinn og Sankti Pétur verið á gangi á góðum degi og fundið skeifu. Drottinn bað Pétur að taka hana upp en hann sá engan tilgang í því að hirða staka skeifu. Drottinn tók þá sjálfur skeifuna til handargagns. Ekki höfðu þeir félagar gengið lengi þegar Pétur tók að þyrsta. Loks komu þeir að smiðju einni og þar seldi Drottinn smiðnum skeifuna fyrir nokkra aura og kirsuber. Þeir héldu síðan áfram ferð sinni. Á leiðinni lét Drottinn eitt og eitt kirsuber falla á jörðina en Pétur tíndi þau upp enda var hann að drepast úr þorsta. Um leið og Drottinn kastaði síðasta berinu sagði hann: „Hefðir þú hlýðnast mér og beygt þig niður eftir skeifunni hefðir þú ekki þurft að beygja þig margsinnis eftir berjunum.“ Pétur varð að viðurkenna að Drottinn hafði nokkuð til síns máls.
Eftirfarandi saga er svo sögð um danska eðlisfræðinginn og nóbelsverðlaunahafann Niels Bohr (1885—1962), en hefur einnig verið hermd upp á aðra þekkta raunvísindamenn: Yfir dyrum í sumarhúsi Bohrs hékk skeifa. Gest bar að garði og undraðist hann að rekast á slíkt hjátrúartákn hjá virtum raunvísindamanni. „Hvernig stendur á því að þér trúið á lukkuskeifu?“ spurði gesturinn. „Ég trúi alls ekki á lukkuskeifu,“ svaraði Bohr, „en mér hefur verið sagt að hún verði manni til gæfu þótt maður hafi ekki trú á því.“
Á Vísindavefnum er til töluvert efni um þjóðtrú, hjátrú og hindurvitni. Það má finna með því að fletta upp í leitarvél vefsins á forsíðu.
Heimildir:
Símon Jón Jóhannsson. 1999. Stóru hjátrúarbókina. Dreifingarmiðstöðin, Reykjavík.
Símon Jón Jóhannsson. 2007. Fyrirboðar, tákn og draumaráðningar. Veröld, Reykjavík.
Sæl, ég er með notaða skeifu frá hesti og hef heyrt sagt að það fylgi því hamingja að hengja hana fyrir ofan hurð. En hvernig á hún að snúa? Eins og broskarl? Getið þið kannski útskýrt þessa goðsögn?
Símon Jón Jóhannsson. „Er satt að það fylgi því hamingja að hengja skeifu fyrir ofan hurð? Getið þið útskýrt þessa goðsögn?“ Vísindavefurinn, 15. júlí 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30986.
Símon Jón Jóhannsson. (2008, 15. júlí). Er satt að það fylgi því hamingja að hengja skeifu fyrir ofan hurð? Getið þið útskýrt þessa goðsögn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30986
Símon Jón Jóhannsson. „Er satt að það fylgi því hamingja að hengja skeifu fyrir ofan hurð? Getið þið útskýrt þessa goðsögn?“ Vísindavefurinn. 15. júl. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30986>.