Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver fann upp regnhlífina?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Eins og með svo margt annað sem notað er í daglegu lífi er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hver fann upp regnhlífina. Saga regnhlífarinnar, eða réttara sagt sólhlífarinnar, nær árþúsundir aftur í tímann. Vitað er að heldra fólk í Egyptalandi, Mesópótamíu, Kína og Indlandi notaði einhverskonar hlífar til að skýla sér fyrir sólinni. Kínverjar voru fyrstir til að nota regnhlífar í eiginlegri merkingu, það er að segja til þess að skýla sér fyrir regni, en þeir notuðu vax og olíu til þess að vatnsverja sólhlífar sem gerðar voru úr pappír.

Í Evrópu voru Grikkir fyrstir til þess að nota sólhlífar og Rómverjar notuðu þess háttar hlífar til þess að skýla sér fyrir regni. Notkun regnhlífa og sólhlífa náði þó ekki að festast í sessi í Evrópu á þessum tíma og ekki er vitað til þess að þær hafi verið notaðar á miðöldum.

Regnhlífar skutu aftur upp kollinum í Evrópu þegar leið á 16. öldina og voru þær í upphafi nokkurs konar stöðutákn æðstu manna kirkjunnar. Á 18. öld var notkun regnhlífa orðin nokkuð útbreidd í álfunni og litlar sólhlífar höfðu öðlast miklar vinsældir meðal kvenna.

Ein fyrsta sérverslunin með regnhlífar (ef ekki sú fyrsta sinnar tegundar) var James Smith & Sons Umbrella Shop en sú verslun var opnuð í London árið 1830. Verslunin er starfandi enn þann dag í dag og sérhæfir sig í sölu regnhlífa og göngustafa.

Regnhlífar hafa þróast og tekið breytingum í aldanna rás eftir því sem ný efni komu til og tískan breyttist. Þegar regnhlífar fóru að ryðja sér til rúms í Evrópu voru teinarnir í grindinni yfirleitt úr reyr eða jafnvel hvalbeini og olíuborinn segldúkur strengdur yfir. Rétt eftir miðja 19. öldina var farið að nota létta en sterka stálteina í grind regnhlífa. Þó að konur hafi verið eitthvað djarfari í litavali notuðu karlmenn aðallega svartar regnhlífar alveg fram á 20. öld. Litadýrð og alls kyns mynstur hafa þó tekið völdin nú orðið eins og glöggt má sjá þegar gengið er um stórborgir erlendis á rigningardegi.

Regnhlífar hafa ekki náð sömu fótfestu á Íslandi og víða annars staðar. Líklega er ein helsta ástæða þess sú að regnhlífar gagnast best þegar rigningin kemur lóðrétt niður, en íslenska rigningin hefur tilhneigingu til þess að stefna lárétt eins og við vitum.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

28.1.2003

Spyrjandi

Kristján Guðbjartsson

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver fann upp regnhlífina?“ Vísindavefurinn, 28. janúar 2003, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3079.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2003, 28. janúar). Hver fann upp regnhlífina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3079

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver fann upp regnhlífina?“ Vísindavefurinn. 28. jan. 2003. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3079>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver fann upp regnhlífina?
Eins og með svo margt annað sem notað er í daglegu lífi er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hver fann upp regnhlífina. Saga regnhlífarinnar, eða réttara sagt sólhlífarinnar, nær árþúsundir aftur í tímann. Vitað er að heldra fólk í Egyptalandi, Mesópótamíu, Kína og Indlandi notaði einhverskonar hlífar til að skýla sér fyrir sólinni. Kínverjar voru fyrstir til að nota regnhlífar í eiginlegri merkingu, það er að segja til þess að skýla sér fyrir regni, en þeir notuðu vax og olíu til þess að vatnsverja sólhlífar sem gerðar voru úr pappír.

Í Evrópu voru Grikkir fyrstir til þess að nota sólhlífar og Rómverjar notuðu þess háttar hlífar til þess að skýla sér fyrir regni. Notkun regnhlífa og sólhlífa náði þó ekki að festast í sessi í Evrópu á þessum tíma og ekki er vitað til þess að þær hafi verið notaðar á miðöldum.

Regnhlífar skutu aftur upp kollinum í Evrópu þegar leið á 16. öldina og voru þær í upphafi nokkurs konar stöðutákn æðstu manna kirkjunnar. Á 18. öld var notkun regnhlífa orðin nokkuð útbreidd í álfunni og litlar sólhlífar höfðu öðlast miklar vinsældir meðal kvenna.

Ein fyrsta sérverslunin með regnhlífar (ef ekki sú fyrsta sinnar tegundar) var James Smith & Sons Umbrella Shop en sú verslun var opnuð í London árið 1830. Verslunin er starfandi enn þann dag í dag og sérhæfir sig í sölu regnhlífa og göngustafa.

Regnhlífar hafa þróast og tekið breytingum í aldanna rás eftir því sem ný efni komu til og tískan breyttist. Þegar regnhlífar fóru að ryðja sér til rúms í Evrópu voru teinarnir í grindinni yfirleitt úr reyr eða jafnvel hvalbeini og olíuborinn segldúkur strengdur yfir. Rétt eftir miðja 19. öldina var farið að nota létta en sterka stálteina í grind regnhlífa. Þó að konur hafi verið eitthvað djarfari í litavali notuðu karlmenn aðallega svartar regnhlífar alveg fram á 20. öld. Litadýrð og alls kyns mynstur hafa þó tekið völdin nú orðið eins og glöggt má sjá þegar gengið er um stórborgir erlendis á rigningardegi.

Regnhlífar hafa ekki náð sömu fótfestu á Íslandi og víða annars staðar. Líklega er ein helsta ástæða þess sú að regnhlífar gagnast best þegar rigningin kemur lóðrétt niður, en íslenska rigningin hefur tilhneigingu til þess að stefna lárétt eins og við vitum.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir: