Rafsegulgeislun á tíðnibilinu 0 – 300 GHz jónar ekki efni sem hún fer um og er því kölluð ójónandi (e. non-ionizing radiation), en geislun með hærri tíðni er hins vegar jónandi (e. ionizing, til dæmis röntgengeislun og gammageislun). Ójónandi rafsegulsvið getur verið stöðugt eða sveiflulaust (statískt) og upp í 300.000.000.000 sveiflur á sekúndu. Yfirleitt er þessu tíðnibili síðan í grófum dráttum skipt í fjóra hluta, samanber eftirfarandi töflu:
Tíðnisvið | Tíðnibil | Dæmi um álagsvalda |
Stöðugt | 0 Hz | Segulsvið jarðar, sjónvarps- og tölvuskjáir, sneiðmyndatæki, rafsuðuvélar, |
ELF (extremely low frequency) Lág tíðni | 0 – 300 Hz | Raflínur, raftæki, rafvélar, rafsuðuvélar |
IF (intermediate frequency) Miðlungs tíðni | 300 Hz – 100 kHz | Sjónvarps- og tölvuskjáir, þjófaviðvörunarkerfi í verslunum, kortalesarar, málmleitartæki, sneiðmyndatæki, rafsuðuvélar |
RF (radio frequency) Útvarpsbylgjur | 100 kHz – 300 GHz | Farsímar, útvarps- og sjónvarpsbylgjur, örbylgjuofnar, sneiðmyndatæki |
Mælingarnar á kílóriðasviðinu gáfu því allt að 2 µT en þar eru mörk Evrópusambandsins og ICNIRP fyrir almenning 6,25 µT. Mælingar á 50 Hz sviðinu sýndu mest um 9 µT en mörkin þar fyrir almenning eru 100 µT. Mörkin eru síðan enn hærri bæði á kílóriðasviðinu og 50 Hz sviðinu fyrir vinnustaði. Af þessu verður ekki annað ráðið en að rafsegulsvið við spanhelluborð sé vel innan þeirra viðmiða sem sett hafa verið af Evrópusambandinu og ICNIRP vegna álags af völdum rafsegulsviðs á vinnustöðum. Það er því ekki þörf á sérstökum varnaraðgerðum á borð við blýsvuntu. Hins vegar skal á það bent að ávallt er ástæða til að gæta fyllstu varúðar og fara eftir leiðbeiningum framleiðanda, jafnvel þótt geislun sé vel undir viðmiðum. Ástæðan til þess að spyrjendur nefna blýsvuntur sem hugsanlega vörn gegn þeirri geislun sem hér um ræðir er trúlega sú að menn kannast við slíkar blýsvuntur í umgengni við röntgengeislun á sjúkrahúsum, hjá tannlæknum og víðar. Röntgengeislun er hins vegar jónandi og blý drekkur í sig þess konar geislun. Það á hins vegar ekki við um ójónandi geislun eins og geislunina frá spanhellum þannig að blýsvuntur eru gagnslausar kringum þær. Vænlegra væri að nota góðan rafleiðara. Höfundur þakkar eðlisfræðingunum Ara Ólafssyni og Þorsteini Vilhjálmssyni fyrir gagnlegar ábendingar og athugasemdir við þetta svar. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kristján Leósson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? eftir Þorgeir Sigurðsson Geta bylgjur frá GSM-símum eyðilagt kreditkort og aðra hluti sem búnir eru segulröndum? eftir Örn Helgason
- Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu? eftir Viðar Guðmundsson
- Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni? eftir Magnús Jóhannsson
- Strålskyddsnytt 3-4/2003
- ICNIRP – Alþjóða geislavarnarráðið
- ICNIRP Guidelines for Limiting Exposure to Time-Varying Electric, Magnetic, and Electromagnetic Fields (up to 300 GHz)
- Evróputilskipun um rafsegulsvið á vinnustöðum 2004/40/EC
- WHO - Alþjóða heilbrigðisstofnunin – heimasíða um rafsegulsvið
- WHO Fact sheet No 322 – Electromagnetic fields and public health
- WHO Electromagnetic fields and public health cautionary policies
- Mynd af rafsegulrófi: Health Canada. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 4. 12. 2008.
- Mynd af spanhellum: Appliances blog. Sótt 25. 11. 2008.
Í heild hljóðar spurningin svona:
Hvaða áhrif hafa spanhellur á heilsufar manna? Eru þær hættulausar með öllu eða er það rétt sem maður hefur heyrt að starfsmenn stærri eldhúsa þurfi að nota blýsvuntur til að lágmarka geislunaráhrif af virkni spanhellnanna?Hér er einnig svarað spurningunni:
Benda rannsóknir til að spansuða sé hættuleg heilsu manna?