Mörk ICNIRP miðast við líffræðileg áhrif sem eru almennt þekkt og viðurkennd (til dæmis vegna upphitunar). Sumir hafa áhyggjur af því að segulsvið frá háspennulínum geti valdið krabbameini. Óvissa ríkir um það en athygli manna hefur helst beinst að barnahvítblæði að þessu leyti. Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) hefur metið þau gögn sem liggja fyrir um hugsanlega skaðsemi segulsviða og flokkað segulsvið frá háspennulínum sem hugsanlegan krabbameinsvald fyrir barnahvítblæði3. Ekki hefur tekist að framkalla áhrif í tilraunastofum eða á dýrum en þessi flokkun IARC er byggð á gögnum um tíðni barnahvítblæðis hjá þeim sem búa við meira segulsvið en 0,3 – 0,4 µT (míkrótesla, sem er 1 milljónasti úr tesla. Mælieiningin tesla er notuð til að mæla segulsvið eða þéttleika segullflæðis). Mjög erfitt er að skera úr um hvort segulsviðið sé í raun orsakavaldur þar sem barnahvítblæði er sjaldgjæfur sjúkdómur og ekki er hægt að útiloka aðra orsakavalda. Samkvæmt upplýsingum sænsku Geislavarnanna fær um það bil eitt sænskt barn af hverjum 25.000 barnahvítblæði á ári, eða samtals um 80 börn. Um það bil 25.000 börn í Svíþjóð búa nálægt háspennulínum. Ef líkurnar á þessum sjúkdómi tvöfaldast hjá þeim mundi það þýða að tala sem ella væri 80 börn á ári mundi breytast í 81. -- Þessar tölur eru meðal annars athyglisverðar vegna þess að lagt hefur verið til á Alþingi hvað eftir annað að hefja rannsóknir hér á landi á áhrifum háspennulína á krabbamein. Hugsanleg tíðni krabbameins af þessum völdum er hins vegar svo lítil að við gætum aðeins gert ráð fyrir að finna hér á landi eitt dæmi um þetta á hverjum 20-50 árum. Það yrði því býsna seinlegt að byggja marktækar rannsóknir á slíkum tölum. Þeir sem enga áhættu vilja taka varðandi segulsvið frá háspennulínum þyrftu að búa svo langt frá þeim að segulsviðið sé orðið minna en 0,3 - 0,4 µT. Það fer eftir gerð háspennulínunnar hversu fjarlægðin þarf að vera mikil til þess en 75-100 metrar ættu að vera nóg fyrir flestar línur eins og sjá má hér fyrir neðan á skýringamynd með dæmigerðum gildum frá sænsku Geislavörnunum4.
Þess ber að lokum að geta að segulsvið af sömu tíðni (50Hz) með þetta litlum styrkleika er víða í umhverfi manna af öðrum ástæðum en frá háspennulínum eins og til dæmis má sjá á vefsíðu hjá Landsvirkjun5. Tilvísarnir:
- Reglur um fjarlægðir á milli háspennulína og mannvirkja á vefsíðu Löggildingarstofu.
- Guidelines for limiting exposure to time-varying electric, magnetic, and electromagnetic fields (up to 300 GHz). Þessar leiðeiningar frá Alþjóða geislavarnaráðinu fyrir ójónandi geislun ICNIRP birtust áður sem grein í tímaritinu Health Physics í apríl 1998, bindi 74, númer 4, bls. 494-522.
- Mat IARC á rafsegulsviðum á lágri tíðni. 2002. Volume 80. Non-Ionizing Radiation, Part 1: Static and Extremely Low-Frequency (ELF) Electric and Magnetic Fields
- Grein á vefsíðu sænsku geislavarnanna: Kan kraftledningen orsaka cancer om man bor nära den?
- Vefsíða hjá Landsvirkjun um segulsvið.
Getur nálægð við háspennulínur valdið heilsutjóni? Hversu nálægt slíkum línum er talið ráðlegt að búa?