Bandaríski fáninn breytist þegar nýtt fylki verður hluti að Bandaríkjunum og er núverandi fáni Bandaríkjanna sá 27. í röðinni. Sumir fánanna staldra styttra við en aðrir en níu þeirra hafa einungis verið í notkun í eitt ár en þann 4. júlí árið 2010 hefur núverandi fáni verið óbreyttur í 40 ár, lengst af öllum. Breytingar á fánanum hafa nær alltaf farið fram 4. júlí, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna. 14. júní er hins vegar fánadagur, með vísun í fyrstu fánalögin.
Fylki Bandaríkjanna eru 50 talsins og þar með eru stjörnurnar í núverandi fána Bandaríkjanna jafnmargar. Stjörnurnar eru fimmarma og koma fyrir í 9 láréttum línum og 11 lóðréttum. Í þeim láréttu skiptast á 5 og 6 stjörnur en 6 stjörnur eru í efstu og neðstu línu. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings gaf út bókina Our Flag eða Fáninn okkar árið 1989. Þar kemur fram að litirnir blár, hvítur og rauður hafi upprunalega ekki átt að hafa neina sérstaka merkingu. Í bókinni kemur fram að maður að nafni Charles Thompson, en hann var ritari þings (e. Continental Congress) sem kom saman í Bandaríkjunum á árunum 1774-1789, hafi útskýrt litina. Þar segir hann að hvíti liturinn tákni hreinleika og sakleysi, sá rauði hreysti og hugrekki og sá blái árvekni, þrautseigju og réttlæti.
Allt fram til 24. júní árið 1912 voru ekki til samræmdar reglur um hlutfall fánans og hvernig stjörnunum skyldi raðað. Þess vegna má finna ýmsar útgáfur af gömlum fánum. Ekki er vitað með vissu hver hannaði fyrsta fánann en þingmaðurinn Francis Hopkinson er talinn líklegasti hönnuðurinn. Aftur á móti er saumakonan Betsy Ross talin hafa búið til fyrsta fánann. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað tákna stjörnurnar í fána Evrópusambandsins? eftir SHJ
- Hvað tákna hringirnir í ólympíufánanum? Táknar hver litur eitthvað sérstakt? eftir Hauk Má Helgason
- Hvað vitið þið um hinn óvenjulega svissneska fána? eftir Sigurð Kára Árnason