Surtarbrandsgil í Vatnsfirði er einn þekktasti fundarstaður steingervinga á landinu. Meðal tegunda sem þar hafa verið algengar eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Samanborið við þetta var landslag á tertíer fremur tilbreytingarlítið, enda uppbyggingaröflin ráðandi en ekki roföflin. Víðáttumikil blágrýtishraun dreifðust frá gossprungum rekbeltanna yfir fremur flatt og hallalítið land sem litið hefur út líkt og risavaxinn skjöldur, hæstur um miðbik landsins. Upp úr hraunsléttunni hafa staðið megineldstöðvar, hugsanlega jökulkrýndar líkt og Snæfellsjökull og Öræfajökull. Frá þessu jarðsöguskeiði er blágrýtismyndunin á Austfjörðum og á norðvestanverðu landinu, frá Akrafjalli norður og austur að Bárðardal. Milli hraunlaga blágrýtismyndunarinnar eru millilög úr seti og gosösku og í ljós hefur komið að 6.000 til 10.000 ára aldursbil skilur aðlæg hraunlög – nánast jafnlangur tími og liðinn er frá því ísöld lauk. Þetta skýrist af því, að einungis mjög stór hraun, sem runnu langt út úr gosbeltunum, koma fram á yfirborði en minni hraun, sem ekki runnu út úr gosbeltunum, grófust undir yngri myndunum. Sums staðar í þessum millilögum finnast steingervingar sem gefa til kynna að myndarlegir laufskógar gætu hafa vaxið hátt upp í hlíðar. Fyrir ísöld hefur vafalaust verið hér fjölbreytt spendýrafána, enda lá landbrú um Ísland milli Ameríku og Evrópu í milljónir ára eftir að Norður-Atlantshaf tók að opnast. Þegar Ísland varð eyja, ef til vill fyrir um 40 milljónum ára, héldu dýrin áfram að lifa hér góðu lífi þar til ísöld gekk í garð. Eitt bein úr hjartardýri hefur fundist milli fornra blágrýtislaga. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað kom út úr rannsóknum á steingervingum sem fundust í Burstarfellsfjalli í Vopnafirði og voru taldir vera af hjartardýri? eftir Leif A. Símonarson
- Hversu gamlir eru mismunandi hlutar Íslands? eftir Sigurð Steinþórsson
- Er ísaldarjökull að hluta til valdur að jarðlagahalla á Íslandi eða er farg gosefna eina ástæðan? eftir Sigurð Steinþórsson
- Surtarbrandur: Umhverfisstofnun. Sótt 25. 6. 2018.
- Fundarstaðir steingervinga: Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 23. 4. 2008.