Hver er stærst íslenskra skinnbóka og hvar er hún geymd?Flateyjarbók er stærst íslenskra miðaldahandrita og telur 225 blöð alls, fallega skrifuð og lýst (myndskreytt). Í gerð bókarinnar tóku þátt tveir skrifarar, prestarnir Jón Þórðarson og Magnús Þórhallsson sem var þó ekki einungis skrifari heldur einnig sá sem lýsti bókina. Ritun Flateyjarbókar hefur að mestu farið fram árið 1387 en að auki voru skráðar í hana minni háttar viðbætur og þar á meðal annáll fram til ársins 1394; síðustu færslur í annálinn gætu því hafa verið skráðar þetta sama ár eða fljótlega upp úr því. Miðað við rannsóknir á erlendum handritum þar sem fræðimenn hafa reiknað út vinnuhraða skrifara og þar með ritunartíma bóka telur Guðvarður Már Gunnlaugsson handritafræðingur mögulegt að meginhluti Flateyjarbókar (182 blöð) hafi verið skrifaður á um það bil níu mánuðum, hafi verið um samfellda vinnu að ræða. Efni Flateyjarbókar er fjölbreytt en fyrirferðarmestar eru sögur af fjórum merkum Noregskonungum, þeim Ólafi Tryggvasyni, Ólafi helga Haraldssyni, Sverri Sigurðarsyni og Hákoni gamla Hákonarsyni. Af þessum fjórum eru Ólafssögurnar tvær þó fyllstar og eru þær ekki einungis auknar frá fyrri uppskriftum heldur fela þær í sér viðbótarefni, meðal annars safn Íslendingaþátta og þátta af norrænum fornköppum auk sagna er varða Færeyjar, Orkneyjar og Grænland. Af öðru efni bókarinnar ber helst að nefna konungatöl, helgisögur, trúarleg og veraldleg kvæði og Flateyjarannál. Frekara efni á alls 23 skinnblöðum var bætt við bókina á síðari hluta 15. aldar, meðal annars sögum af konungunum Magnúsi góða Ólafssyni og Haraldi harðráða Sigurðarsyni. Vitað er að Jón Hákonarson var eigandi að öðru konungasagnahandriti, Huldu (AM 66 fol.), og miðað við þær sögur sem þar er að finna má líta á ritun Flateyjarbókar sem viðbót bæði framan og aftan við konungasagnasafn Huldu. Talið er að Jón hafi staðið fyrir ritun fleiri bóka, svo sem Vatnshyrnu sem var safn Íslendingasagna. Vatnshyrna glataðist ásamt fleiri handritum i brunanum mikla í Kaupmannahöfn árið 1728 en efni hennar er varðveitt í eftirritum frá 17. öld.

Flateyjarbók er stærst íslenskra miðaldahandrita og telur 225 blöð alls. Ritun hennar fór að mestu fram árið 1387. Mögulegt er að meginhlutinn (182 blöð) hafi verið skrifaður á um það bil níu mánuðum, hafi verið um samfellda vinnu að ræða.
- Stjórnarráðið | Ríkisstjórnin styrkir viðgerð á Flateyjarbók. (Sótt 19.04.2024).