Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver er stærst íslenskra skinnbóka og hvar er hún geymd?
Flateyjarbók er stærst íslenskra miðaldahandrita og telur 225 blöð alls, fallega skrifuð og lýst (myndskreytt). Í gerð bókarinnar tóku þátt tveir skrifarar, prestarnir Jón Þórðarson og Magnús Þórhallsson sem var þó ekki einungis skrifari heldur einnig sá sem lýsti bókina. Ritun Flateyjarbókar hefur að mestu farið fram árið 1387 en að auki voru skráðar í hana minni háttar viðbætur og þar á meðal annáll fram til ársins 1394; síðustu færslur í annálinn gætu því hafa verið skráðar þetta sama ár eða fljótlega upp úr því. Miðað við rannsóknir á erlendum handritum þar sem fræðimenn hafa reiknað út vinnuhraða skrifara og þar með ritunartíma bóka telur Guðvarður Már Gunnlaugsson handritafræðingur mögulegt að meginhluti Flateyjarbókar (182 blöð) hafi verið skrifaður á um það bil níu mánuðum, hafi verið um samfellda vinnu að ræða.
Efni Flateyjarbókar er fjölbreytt en fyrirferðarmestar eru sögur af fjórum merkum Noregskonungum, þeim Ólafi Tryggvasyni, Ólafi helga Haraldssyni, Sverri Sigurðarsyni og Hákoni gamla Hákonarsyni. Af þessum fjórum eru Ólafssögurnar tvær þó fyllstar og eru þær ekki einungis auknar frá fyrri uppskriftum heldur fela þær í sér viðbótarefni, meðal annars safn Íslendingaþátta og þátta af norrænum fornköppum auk sagna er varða Færeyjar, Orkneyjar og Grænland. Af öðru efni bókarinnar ber helst að nefna konungatöl, helgisögur, trúarleg og veraldleg kvæði og Flateyjarannál. Frekara efni á alls 23 skinnblöðum var bætt við bókina á síðari hluta 15. aldar, meðal annars sögum af konungunum Magnúsi góða Ólafssyni og Haraldi harðráða Sigurðarsyni. Vitað er að Jón Hákonarson var eigandi að öðru konungasagnahandriti, Huldu (AM 66 fol.), og miðað við þær sögur sem þar er að finna má líta á ritun Flateyjarbókar sem viðbót bæði framan og aftan við konungasagnasafn Huldu. Talið er að Jón hafi staðið fyrir ritun fleiri bóka, svo sem Vatnshyrnu sem var safn Íslendingasagna. Vatnshyrna glataðist ásamt fleiri handritum i brunanum mikla í Kaupmannahöfn árið 1728 en efni hennar er varðveitt í eftirritum frá 17. öld.
Flateyjarbók er stærst íslenskra miðaldahandrita og telur 225 blöð alls. Ritun hennar fór að mestu fram árið 1387. Mögulegt er að meginhlutinn (182 blöð) hafi verið skrifaður á um það bil níu mánuðum, hafi verið um samfellda vinnu að ræða.
Flateyjarbók dregur nafn sitt af Flatey á Breiðafirði þar sem eigandi hennar, Jón Finnsson, bjó þegar hann færði hana Brynjólfi Sveinssyni (1605-1675) biskupi að gjöf á 17. öld. Nokkrum árum síðar gaf svo Brynjólfur Friðriki III. (1609-1670) Danakonungi bókina. Eftir að konungur hafði tekið við gjöfinni var hún send til varðveislu í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og þar var hún allt þangað til henni var skilað til Íslands í handritaskilunum árið 1971.
Þótt meirihluti þeirra texta sem skráðir voru í Flateyjarbók séu varðveittir í eldri handritum ber að hafa í huga að gildi miðaldatexta felst meðal annars í því að textarnir taka breytingum frá einni uppskrift til annarrar og í mörgum tilvikum eru textar yngri handrita í raun nýjar gerðir tiltekinna verka. Nokkur þeirra verka sem finna má í bókinni eru þó hvergi varðveitt í eldri uppskriftum, svo sem Hyndluljóð, Norna-Gests þáttur og Grænlendinga saga, eða þá að efnið er að hluta til varðveitt í eldri handritum, svo sem í tilviki Orkneyinga sögu. Einn þessara „nýju“ texta er Ólafs ríma Haraldssonar eftir Einar Gilsson lögmann á Norður- og Vesturlandi. Þar sem uppskriftin er elst varðveittra rímnatexta hefur hún verið notuð sem viðmið í umræðunni um aldur rímna enda ljóst að hún muni sjálf vera á meðal elstu rímna og væntanlega er hún ort upp úr miðri öldinni. Ríman er sérstök að því leyti að hún er stök, það er ekki er um rímnaflokk að ræða eins og síðar varð venja og erindin eru einungis 65 talsins. Ríman er ort undir ferskeyttum hætti, það fullmótuðum að telja má líklegt að einhver þróun liggi honum að baki - það er að segja að gerðar hafi verið tilraunir með hann áður.
Mynd:
Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvaða textar eru í Flateyjarbók og hvenær var hún skrifuð?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2024, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29259.
Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2024, 26. apríl). Hvaða textar eru í Flateyjarbók og hvenær var hún skrifuð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29259
Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvaða textar eru í Flateyjarbók og hvenær var hún skrifuð?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2024. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29259>.