Börn læra ekki málið með því að endurtaka eins og páfagaukar það sem fullorðnir segja. Þau læra móðumál sitt að mestu leyti sjálf og eins og margir kannast við þá þýðir lítið að leiðrétta mál ungra barna. Börn fylgja sínum eigin málfræðireglum og virðast verða að átta sig á því sjálf að reglur þeirra eru rangar.Þrátt fyrir þetta er vert að hafa í huga að öll samskipti við börn á máltökuskeiði eru nauðsynleg til þess að börnin nái valdi á tungumálinu. Þó að börnin læri grundvallaratriðin sjálf, er gott máluppeldi nauðsynlegt. Börnin bæta til dæmis við orðaforðann með samskiptum við aðra og læra einnig reglur af þeim. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem mikið er talað við og lesið fyrir hafa meiri orðaforða en börn sem lítið er sinnt, þau ná einnig fyrr valdi á ýmsu í tungumálinu.
Flest börn eru altalandi 4-6 ára gömul. Þá hafa þau náð tökum á málkerfinu í meginatriðum, þó að ýmislegt vanti upp á orðaforðann og einnig skortir skilning á einstaka reglum. Tímabilið frá fæðingu og fram að kynþroska er nefnt máltökuskeið. Ef barn lærir ekki móðurmál sitt á þessu skeiði er ekki hægt að segja að það hafi neitt mál að móðurmáli. Heimildir og frekara lesefni:
- Hvernig læra börn tungumálið? eftir Sigríði Sigurjónsdóttur
- Af hverju tala börn ekki þegar þau fæðast? eftir JGÞ
- Er hægt að tala um að hafa tvö tungumál sem fyrsta mál? eftir Birnu Arnbjörnsdóttur
- Hvernig verður tungumál til? eftir Diane Nelson
- Töluðu steinaldarmenn tungumál? eftir Guðrúnu Kvaran