Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig læra börn tungumálið?

Sigríður Sigurjónsdóttir

Hér er einnig svarað spurningunni Hvernig fer máltaka fram?
Fólk gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir hversu ótrúlegt afrek máltaka barna er. Mannlegt mál er mjög flókið kerfi tákna og reglna en samt ná ósjálfbjarga börn valdi á móðurmáli sínu á undraskömmum tíma. Flest börn eru orðin altalandi um 4-6 ára aldur og hafa þá náð valdi á málkerfinu í meginatriðum, þó þau eigi enn eftir að tileinka sér einstaka reglur málsins og öðlast meiri orðaforða. Börn ná líka valdi á móðurmáli sínu svo til sjálfkrafa og án áreynslu. Til samanburðar má nefna að það tekur stálpaða unglinga og fullorðið fólk mörg ár að ná valdi á erlendu máli og fæstir ná sama árangri og börnin þó þeir stundi strangt skólanám.

Manninum virðist áskapað að læra mál. Rannsóknir á heila manna sýna að í vinstra heilahveli eru sérhæfðar málstöðvar sem sjá um mismunandi þætti móðurmálsins. Rannsóknir sýna einnig að máltöku manna virðast vera sett ákveðin tímamörk frá náttúrunnar hendi. Talað er um máltökuskeið eða markaldur í máltöku og er þá átt við tímabilið frá fæðingu og fram að kynþroska. Barn verður að læra móðurmál sitt á þessum markaldri annars er ekki hægt að tala um að það hafi neitt mál að móðurmáli.

Ýmislegt bendir til þess að börn komi ekki í heiminn algjörlega óundirbúin undir máltökuna heldur virðast þau hafa ákveðna hugmynd um hvernig mannleg mál eru uppbyggð.

Nýlegar rannsóknir á heyrnarlausu fólki og einstaklingum sem ólust upp án samneytis við aðra menn benda til að börn nái ekki fullum tökum á móðurmáli sínu nema máltakan fari fram fyrir 4-6 ára aldurinn. Rétt er að taka fram að táknmál heyrnarlausra er fullgilt mannlegt mál sem lýtur sömu lögmálum og talað mál. Heyrnarlaust fólk sem lærði bandarískt táknmál á aldrinum 5-12 ára hafði málfræði táknmálsins ekki eins vel á valdi sínu og fólk sem ólst upp við táknmál frá fæðingu. Heyrnarlaust fólk sem fyrst komst í kynni við táknmál eftir kynþroskaaldurinn átti í enn meiri erfiðleikum með málfræði táknmálsins. Erfiðleikar þessa fólks voru svo miklir að jafnvel þótt það hefði notað táknmál í 30 ár þá var ekki hægt að tala um að það hefði táknmál, né nokkuð annað mál, að móðurmáli.

Rannsóknir á heyrandi einstaklingum sem ekki lærðu sitt fyrsta mál fyrr en eftir að þeir voru orðnir kynþroska sýna það sama. Þessir einstaklingar geta tileinkað sér orð málsins og merkingu þeirra en þeim tekst til dæmis ekki að ná fullum tökum á beygingum né þeim reglum sem gilda um setningagerð í móðurmáli þeirra. Málnotkun þessa fólks er því mjög óeðlileg og það fylgir ekki málfræðireglum sem börn sem ganga í gegnum eðlilega máltöku á máltökuskeiði virða alltaf. Sem dæmi má nefna að þetta fólk fylgir engum reglum um orðaröð og getur því sagt sömu setninguna á marga vegu sem flestir væru rangir í máli fullorðinna. Bandaríska stúlkan Genie sem ólst upp í algjörri einangrun frá mannlegu samfélagi til 13 ára aldurs náði til dæmis ekki tökum á orðaröð enskunnar þrátt fyrir mikla þjálfun eftir að hún fannst. Eftirfarandi setningar sýna að orðaröð Geniear er mjög afbrigðileg: 'Maður kaupa mjólk, Mjólk maður kaupa, Kaupa maður mjólk' en setningarnar merkja allar: Maðurinn keypti mjólk. Ung heilbrigð börn sem eru að læra móðurmál sitt tileinka sér hins vegar mjög fljótt þær reglur sem gilda um orðaröð í móðurmálinu og villur í orðaröð eru tiltölulega sjaldgæfar.

Eins og komið hefur fram bendir ýmislegt til að börn komi ekki í heiminn algjörlega óundirbúin undir máltökuna heldur virðast þau hafa ákveðna hugmynd um hvernig mannleg mál eru uppbyggð. Þessir meðfæddu hæfileikar vísa veginn í máltökunni sem sést meðal annars á því að flest heilbrigð börn feta svipaða slóð þegar þau eru að tileinka sér móðurmál sitt. Þannig er ekki aðeins máltaka íslenskra barna svipuð í grófum dráttum heldur máltaka barna víða um heim. Börn gera heldur ekki hvaða villu sem er meðan á máltökunni stendur. Mál barna er reglubundið frá upphafi og hvert stig málþroskans hefur sínar eigin reglur. Reglur barna á ákveðnu stigi eru hins vegar oft aðrar en reglur fullorðinna. Það koma sem sagt fram ákveðin frávik, eða villur, í máli ungra barna. Það einkennir slík frávik að þau eru alveg reglubundin. Með hverju stigi sem börn ganga í gegnum í málþroska svipar málkerfi þeirra meira til málkerfis fullorðinna og að lokum hafa þau sömu eða nær sömu reglur á valdi sínu og fullorðnir.

Máltaka barna er skapandi reglubundið ferli. Börn læra ekki málið með því að endurtaka eins og páfagaukar það sem fullorðnir segja. Þau læra móðumál sitt að mestu leyti sjálf og eins og margir kannast við þá þýðir lítið að leiðrétta mál ungra barna. Börn fylgja sínum eigin málfræðireglum og virðast verða að átta sig á því sjálf að reglur þeirra eru rangar. Þannig er til dæmis mjög erfitt að fá ung börn til þess að endurtaka orð og setningar sem ekki falla að málkerfi þeirra. Barn sem er á því skeiði að mynda fleirtöluna 'fótar' af 'fótur' á til dæmis mjög erfitt með að endurtaka setningu þar sem rétt fleirtölumynd ('fætur') kemur fyrir. Slík óregluleg atriði í beygingu lærast tiltölulega seint og börn eru ekki móttækileg fyrir leiðréttingum fyrr en þau eru komin á ákveðið stig í málþroskanum.

Þó að börn virðist að mestu tileinka sér móðurmálið og reglur þess sjálf þá má ekki gleyma því að samskipti við annað fólk á máltökuskeiði eru nauðsynleg forsenda þess að börn nái valdi á máli. Af samskiptum við fólk læra börn orðaforða málsins og margar reglur þess. Í uppvextinum mótast málkennd manna og miklu skiptir að málfyrirmyndir barna séu góðar. Rannsóknir sýna að börn sem mikið er talað við og lesið fyrir hafa meiri orðaforða en börn sem lítið er sinnt og þau ná einnig fyrr valdi á ýmsum setningagerðum móðurmáls síns. Það má kannski segja að grundvallaratriði móðurmálsins lærist að miklu leyti sama hvernig börnum er sinnt, en það hversu góðir málnotendur þau verða fer eftir því hvers konar máluppeldi þau hljóta.

Frekari umfjöllun um þetta efni má finna í eftirfarandi greinum:

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2000. Nokkur orð um máltöku barna. Uppeldi: Tímarit um börn og fleira fólk 13 (3):30-33.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2001. Máltaka barna. Í Þórunn Blöndal og Heimir Pálsson (ritstj.): Alfræði íslenskrar tungu. Margmiðlunargeisladiskur. Námsgagnastofnun og Lýðveldissjóður, Reykjavík.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2002. Hljóðþróun í máltöku barna. Talfræðingurinn 16(1):6-10.

Mynd:

Höfundur

dósent í íslensku við HÍ

Útgáfudagur

12.6.2003

Síðast uppfært

22.8.2018

Spyrjandi

Kristin Þórisdóttir
Margrét Einarsdóttir

Tilvísun

Sigríður Sigurjónsdóttir. „Hvernig læra börn tungumálið?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3496.

Sigríður Sigurjónsdóttir. (2003, 12. júní). Hvernig læra börn tungumálið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3496

Sigríður Sigurjónsdóttir. „Hvernig læra börn tungumálið?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3496>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig læra börn tungumálið?

Hér er einnig svarað spurningunni Hvernig fer máltaka fram?
Fólk gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir hversu ótrúlegt afrek máltaka barna er. Mannlegt mál er mjög flókið kerfi tákna og reglna en samt ná ósjálfbjarga börn valdi á móðurmáli sínu á undraskömmum tíma. Flest börn eru orðin altalandi um 4-6 ára aldur og hafa þá náð valdi á málkerfinu í meginatriðum, þó þau eigi enn eftir að tileinka sér einstaka reglur málsins og öðlast meiri orðaforða. Börn ná líka valdi á móðurmáli sínu svo til sjálfkrafa og án áreynslu. Til samanburðar má nefna að það tekur stálpaða unglinga og fullorðið fólk mörg ár að ná valdi á erlendu máli og fæstir ná sama árangri og börnin þó þeir stundi strangt skólanám.

Manninum virðist áskapað að læra mál. Rannsóknir á heila manna sýna að í vinstra heilahveli eru sérhæfðar málstöðvar sem sjá um mismunandi þætti móðurmálsins. Rannsóknir sýna einnig að máltöku manna virðast vera sett ákveðin tímamörk frá náttúrunnar hendi. Talað er um máltökuskeið eða markaldur í máltöku og er þá átt við tímabilið frá fæðingu og fram að kynþroska. Barn verður að læra móðurmál sitt á þessum markaldri annars er ekki hægt að tala um að það hafi neitt mál að móðurmáli.

Ýmislegt bendir til þess að börn komi ekki í heiminn algjörlega óundirbúin undir máltökuna heldur virðast þau hafa ákveðna hugmynd um hvernig mannleg mál eru uppbyggð.

Nýlegar rannsóknir á heyrnarlausu fólki og einstaklingum sem ólust upp án samneytis við aðra menn benda til að börn nái ekki fullum tökum á móðurmáli sínu nema máltakan fari fram fyrir 4-6 ára aldurinn. Rétt er að taka fram að táknmál heyrnarlausra er fullgilt mannlegt mál sem lýtur sömu lögmálum og talað mál. Heyrnarlaust fólk sem lærði bandarískt táknmál á aldrinum 5-12 ára hafði málfræði táknmálsins ekki eins vel á valdi sínu og fólk sem ólst upp við táknmál frá fæðingu. Heyrnarlaust fólk sem fyrst komst í kynni við táknmál eftir kynþroskaaldurinn átti í enn meiri erfiðleikum með málfræði táknmálsins. Erfiðleikar þessa fólks voru svo miklir að jafnvel þótt það hefði notað táknmál í 30 ár þá var ekki hægt að tala um að það hefði táknmál, né nokkuð annað mál, að móðurmáli.

Rannsóknir á heyrandi einstaklingum sem ekki lærðu sitt fyrsta mál fyrr en eftir að þeir voru orðnir kynþroska sýna það sama. Þessir einstaklingar geta tileinkað sér orð málsins og merkingu þeirra en þeim tekst til dæmis ekki að ná fullum tökum á beygingum né þeim reglum sem gilda um setningagerð í móðurmáli þeirra. Málnotkun þessa fólks er því mjög óeðlileg og það fylgir ekki málfræðireglum sem börn sem ganga í gegnum eðlilega máltöku á máltökuskeiði virða alltaf. Sem dæmi má nefna að þetta fólk fylgir engum reglum um orðaröð og getur því sagt sömu setninguna á marga vegu sem flestir væru rangir í máli fullorðinna. Bandaríska stúlkan Genie sem ólst upp í algjörri einangrun frá mannlegu samfélagi til 13 ára aldurs náði til dæmis ekki tökum á orðaröð enskunnar þrátt fyrir mikla þjálfun eftir að hún fannst. Eftirfarandi setningar sýna að orðaröð Geniear er mjög afbrigðileg: 'Maður kaupa mjólk, Mjólk maður kaupa, Kaupa maður mjólk' en setningarnar merkja allar: Maðurinn keypti mjólk. Ung heilbrigð börn sem eru að læra móðurmál sitt tileinka sér hins vegar mjög fljótt þær reglur sem gilda um orðaröð í móðurmálinu og villur í orðaröð eru tiltölulega sjaldgæfar.

Eins og komið hefur fram bendir ýmislegt til að börn komi ekki í heiminn algjörlega óundirbúin undir máltökuna heldur virðast þau hafa ákveðna hugmynd um hvernig mannleg mál eru uppbyggð. Þessir meðfæddu hæfileikar vísa veginn í máltökunni sem sést meðal annars á því að flest heilbrigð börn feta svipaða slóð þegar þau eru að tileinka sér móðurmál sitt. Þannig er ekki aðeins máltaka íslenskra barna svipuð í grófum dráttum heldur máltaka barna víða um heim. Börn gera heldur ekki hvaða villu sem er meðan á máltökunni stendur. Mál barna er reglubundið frá upphafi og hvert stig málþroskans hefur sínar eigin reglur. Reglur barna á ákveðnu stigi eru hins vegar oft aðrar en reglur fullorðinna. Það koma sem sagt fram ákveðin frávik, eða villur, í máli ungra barna. Það einkennir slík frávik að þau eru alveg reglubundin. Með hverju stigi sem börn ganga í gegnum í málþroska svipar málkerfi þeirra meira til málkerfis fullorðinna og að lokum hafa þau sömu eða nær sömu reglur á valdi sínu og fullorðnir.

Máltaka barna er skapandi reglubundið ferli. Börn læra ekki málið með því að endurtaka eins og páfagaukar það sem fullorðnir segja. Þau læra móðumál sitt að mestu leyti sjálf og eins og margir kannast við þá þýðir lítið að leiðrétta mál ungra barna. Börn fylgja sínum eigin málfræðireglum og virðast verða að átta sig á því sjálf að reglur þeirra eru rangar. Þannig er til dæmis mjög erfitt að fá ung börn til þess að endurtaka orð og setningar sem ekki falla að málkerfi þeirra. Barn sem er á því skeiði að mynda fleirtöluna 'fótar' af 'fótur' á til dæmis mjög erfitt með að endurtaka setningu þar sem rétt fleirtölumynd ('fætur') kemur fyrir. Slík óregluleg atriði í beygingu lærast tiltölulega seint og börn eru ekki móttækileg fyrir leiðréttingum fyrr en þau eru komin á ákveðið stig í málþroskanum.

Þó að börn virðist að mestu tileinka sér móðurmálið og reglur þess sjálf þá má ekki gleyma því að samskipti við annað fólk á máltökuskeiði eru nauðsynleg forsenda þess að börn nái valdi á máli. Af samskiptum við fólk læra börn orðaforða málsins og margar reglur þess. Í uppvextinum mótast málkennd manna og miklu skiptir að málfyrirmyndir barna séu góðar. Rannsóknir sýna að börn sem mikið er talað við og lesið fyrir hafa meiri orðaforða en börn sem lítið er sinnt og þau ná einnig fyrr valdi á ýmsum setningagerðum móðurmáls síns. Það má kannski segja að grundvallaratriði móðurmálsins lærist að miklu leyti sama hvernig börnum er sinnt, en það hversu góðir málnotendur þau verða fer eftir því hvers konar máluppeldi þau hljóta.

Frekari umfjöllun um þetta efni má finna í eftirfarandi greinum:

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2000. Nokkur orð um máltöku barna. Uppeldi: Tímarit um börn og fleira fólk 13 (3):30-33.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2001. Máltaka barna. Í Þórunn Blöndal og Heimir Pálsson (ritstj.): Alfræði íslenskrar tungu. Margmiðlunargeisladiskur. Námsgagnastofnun og Lýðveldissjóður, Reykjavík.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2002. Hljóðþróun í máltöku barna. Talfræðingurinn 16(1):6-10.

Mynd:...