Hér er einnig svarað spurningu Önnu Andrésdóttur og Axels Fannars: Hvað er algengt að kóngulær lifi lengi?Á Íslandi lifa kóngulær að jafnaði í eitt til tvö ár. Í hitabeltislöndum verða kóngulær mun eldri; tarantúlur geta til að mynda orðið 15 ára.
Kóngulær verða kynþroska eftir að síðustu hamskiptum er lokið. Karldýr skipta sjaldnar um ham en kvendýr. Þegar karlarnir verða kynþroska fara þeir á flakk og leita sér að vænlegum maka. Þeir maka sig nokkrum sinnum og deyja skömmu síðar. Kvendýrin bera eggin og verða nokkuð eldri en karldýrin. Á Íslandi eru kóngulær mest á ferli á mökunartímanum, í apríl- og maímánuði. Sumar tegundir maka sig þó á haustin. Kóngulær nokkurra tegunda sem koma í heiminn að vori ná að verða kynþroska að hausti sama ár. Yfir háveturinn hafa kóngulær hægt um sig einhvers staðar í jarðveginum eða í híbýlum manna. Nokkrar tegundir svonefndra voðkóngulóa verða þó kynþroska að vetri til og þá fara karldýrin á flakk. Líffræðingar nota oft fallgildrur til að veiða dýr sem eru á ferli á yfirborði jarðvegs. Gildrurnar eru þannig gerðar að lítið ílát er grafið ofan í jarðveginn hvort sem er í gróðursverði eða á gróðursnauðu landi. Ílátin eru annað hvort höfð tóm eða hálffyllt af geymsluvökva. Í vökvanum er vanalega 5% formalínblanda og nokkrir dropar af þvottalegi sem minnkar yfirborðsspennu blöndunnar og tryggir að smádýrin sem lenda í gildrunni falla til botns. Fjölmargar tegundir kóngulóa veiðast í gildrurnar allan ársins hring, til dæmis móaló (Rhaebothorax morulus). Minnst veiðist þó af henni yfir háveturinn en mest á vorin yfir mökunartímann. Það gefur til kynna að dýr þessarar tegundar séu á ferli yfir háveturinn en þó miklu minna en ella.
Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum
- Hvað eru margar tegundir af kóngulóm á Íslandi?
- Af hverju er fólk hrætt við köngulær?
- Er það rétt að til sé köngulóartegund á Íslandi sem getur bitið í gegnum skinn á manni?
- Ingi Agnarsson, Íslenskar köngulær, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík, 1996.
- Nafoku