Ómögulegt er að segja til um hvort líf hafi þrifist á Mars einhvern tímann í fyrndinni. Líklega verður þeirri spurningu ekki svarað fyrr en menn hafa heimsótt reikistjörnuna. Enn sem komið er vitum við ekki um nein sólkerfi sem líkjast okkar sólkerfi.
- Ef sannað er að líf hafi til dæmis þrifist á Mars, hve miklar líkur eru á því að líf sé að finna í öðrum sólkerfum? (Árni Arent)
- Hvað eru til mörg sólkerfi sem eru lík okkar og hverjar eru líkurnar á því að það sé pláneta alveg eins og okkar þarna úti? (Sigurður Jón Sigurðsson og Hafsteinn Einarsson
Árið 1961 setti bandaríski stjörnufræðingurinn Frank Drake fram jöfnu til að áætla fjölda menningarsamfélaga í Vetrarbrautinni okkar sem gætu haft samband við okkur. Síðar varð þessi jafna þekkt sem Drake-jafnan. Í jöfnunni koma fyrir sjö breytistærðir. Ef við getum áætlað örugglega gildi hverrar stærðar gætum við fengið ágætis hugmynd um hversu mörg samfélög af þessu tagi er að finna í Vetrarbrautinni. Stjörnufræðingar hafa hugmynd um hvernig tengja á gildin; en um sinn verða þeir hins vegar að draga rökréttar ályktanir um nokkur gildi jöfnunnar, því við höfum aðeins eitt samfélag til að vinna með – okkar eigið. Jafnan, sem samanstendur af sjö stærðum, lítur svona út:
N = R*•fp• ne • fl • fi • fc • fL
- N táknar fjölda tæknivæddra menningarsamfélaga sem gætu haft samband við okkur.
- R* táknar fjölda stjarna á borð við sólina sem myndast í Vetrarbrautinni okkar á ári hverju.
- fp hlutfall þeirra stjarna á borð við sólina sem hafa sólkerfi.
- ne fjölda plánetna í sólkerfi sem geta myndað líf.
- fl brot af þeim plánetum sem geta viðhaldið lífi þar sem líf kviknar.
- fi brot af plánetum með lífi þar sem vitsmunalíf þróast.
- fc brot af þeim plánetum byggðum vitsmunaverum, þar sem tæknivædd menningarsamfélög þróast og vilja hafa samband og
- fL brot af líftíma menningarsamfélagsins.
N = 1/ár • 1 • 0,1 • 1 • 1 • 1 • 10.000 ár = 100Með öðrum orðum, af meira en hundrað milljörðum stjarna í Vetrarbrautinni, eru ef til vill ekki nema 100 tæknivædd menningarsamfélög sem við gætum haft samband við. Þetta er vissulega ekki hátt gildi. Sumir stjörnufræðingar, til dæmis Carl Sagan og Frank Drake, eru aðeins bjartsýnni og áætla að "þarna úti" séu ef til vill hundrað þúsund eða milljón tæknivædd menningarsamfélög. Aðrir eru svartsýnni og telja að við séum aðeins ein af tíu tæknivæddum menningarsamfélögum í Vetrarbrautinni og enn aðrir telja að við séum einstök. Undirrituðum þykir miklu líklegra að Vetrarbrautin sé uppfull af lífi, hvort sem það er vitsmunalíf eða ekki, og við séum því sem betur fer ekki ein í Vetrarbrautinni. Skoðið einnig tengd svör:
- Hver er tilgangur SETI-verkefnisins? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvers vegna er sagt að það sé ekki líf á öðrum hnöttum? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvernig er leitað að plánetum utan sólkerfisins? eftir Tryggva Þorgeirsson.
- Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars? eftir Þorstein Þorsteinsson.
- Er "Area 51" til? eftir Hrannar Baldursson og Þorstein Vilhjálmsson.
- Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
- Sagan, Carl, 1980. Cosmos. Random House, New York, 1983.
Mynd: Science@home - SETI@home