Svo gæti líka verið að við hefðum plantað trjánum fimm og fimm saman í 20 litla hópa með alllöngu bili á milli. Þó svo að hóparnir væru ekki í beinni röð eins og limgerðið okkar er ekki víst að við mundum kalla þá skóg. Hóparnir væru frekar eins og margir lundir eða trjáþyrpingar, án þess að þeir næðu því að vera skógur. En segjum sem svo að við hefðum plantað litlu plöntunum okkar nógu þétt til að þær mynduðu ekki margar trjáþyrpingar og þær væru heldur ekki í samfelldri röð eins og limgerði. Þegar trén hafa vaxið þá erum við loksins viss um að þessi hundrað tré eru lítill skógur. En þá skulum við snúa spurningunni við: Hversu mörg tré þurfum við að höggva til að skógurinn okkar sé ekki lengur skógur? Við þessari spurningu er ekkert augljóst svar og í heimspekinni er meira að segja til sérstakt hugtak yfir svona spurningar. Þær kallast hrúgan (sorites) eða hrúguvandinn og einnig er talað um hrúgurök. Í svari við spurningunni Hvað eru hrúgurök? segir Geir Þ. Þórarinsson þetta um hrúgurökin:
Í hrúgunni er notast við hugtak sem ekki er skýrt skilgreint, til dæmis hrúgu. Viðmælandinn er fenginn til að fallast á að sandhrúga væri enn sandhrúga þótt eitt sandkorn yrði fjarlægt. Þegar viðkomandi hefur fallist á það verður hann að fallast á það sama aftur. Þannig er leikurinn endurtekinn þar til viðkomandi hefur að lokum fallist á að eitt sandkorn sé sandhrúga. Viðmælandinn sem rökunum er beint til missir fótfestuna strax í upphafi þegar hann samþykkir án nokkurs fyrirvara að sandhrúga væri áfram sandhrúga þrátt fyrir að eitt sandkorn yrði fjarlægt. Engin skýr mörk eru um það hvar sandhrúga hættir að vera sandhrúga þótt vitaskuld liggi í augum uppi að eitt korn eða tvö geti vart verið hrúga.Það er ekki hægt að gefa eitt skýrt svar við spurningunni hvenær verða tré að skógi. Mörkin á milli trjáa og skógar eru nefnilega óljós. Þrátt fyrir það þurfum við alls ekki að örvænta. Flestir eru nefnilega nokkuð sammála um það hvað er skógur og hvað eru bara nokkur tré saman. Það er tímasóun að reyna að finna eitt skýrt svar við því hvenær tré verða að skógi. Í fyrsta lagi vegna þess að það er ekki hægt og í öðru lagi vegna þess að það er óþarfi. Ef okkur finnst að einhver tiltekin trjáþyrping sé skógur, þá er hún það líklega. Ef einhver er ekki á sama máli og telur að þetta sé bara trjáþyrping, þá gætum við kannski komist að samkomulagi um að kalla þetta í mesta lagi afar lítinn skóg eða þá einstaklega stóra trjáþyrpingu sem væri næstum því lítill skógur. Við getum þess vegna orðað svarið við spurningunni á þennan hátt: Tré mynda skóg þegar okkur finnst svo vera. Og það er ennþá betra þegar fleiri eru á sömu skoðun! Frekara lesefni á Vísindavefnum um skóga og tré:
- Ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Hvað þarf að gróðursetja mörg tré til að vinna gegn koltvíoxíðsmengun eins bíls? eftir Brynhildi Bjarnadóttur
- Er til einhver skógur frá landnámsöld á Íslandi? eftir Bjarka Þór Kjartansson og Ólaf Eggertsson
Hvað þarf mörg tré til þess að hægt sé að kalla þau "skóg"?Önnur spurning um sama efni:
Ég og kærastan vorum að kýta um það hvað þyrfti marga til að mynda hóp? Hvað þarf eiginlega marga til að mynda hóp?Mynd:
- Wikimedia Commons. Sótt 25.5.2008.