Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í hugum margra er þrettándinn fyrst og fremst síðasti dagur jóla, dagurinn þegar jólaskrautið er tekið niður, síðasti jólasveinninn fer heim til sín og allt sem jólunum fylgir lagt til hliðar fram að næstu aðventu. Þrettándinn er hins vegar ekki bara dagurinn til þess að pakka saman jólunum heldur hefur hann um aldir verið dagur vitringanna þriggja.
Þrettándinn er fyrsti dagurinn, sem reynt var markvisst að fastsetja sem fæðingardag Jesú Krists, en ekki er stafur um það í Biblíunni, á hvaða tíma árs Jesús Kristur sé fæddur.
Elsta dæmi sem fundist hefur um minningardag, og tengist fæðingu Jesú Krists, er frá því um 200 árum eftir hans burð. Sagnaritarinn Klemens frá Alexandríu segir frá söfnuði nokkrum sem minnist skírnar Krists með ritningarlestri aðfaranótt 6. janúar eftir rómversku tímatali. Þess verður að geta, að á þessum fyrstu öldum kristindóms var það útbreiddur skilningur, að skírnin væri hin eiginlega fæðing Jesú, því þá fyrst hefði hann orðið guðlegur og eilífur, þegar búið var að skola erfðasyndina af honum. Það er meira að segja til sá lesháttur í einu handriti Lúkasarguðspjalls, að Drottinn hafi sagt, þegar himnarnir opnuðust að skírninni aflokinni: ´Þú er minn elskaði sonur. Í dag hef ég alið þig.‘
Næst verður með vissu vart við þessa hátíð 6. janúar hálfri annarri öld síðar. Þá hefur hún breiðst út við austanvert Miðjarðarhaf, til Norður-Ítalíu og til Frakklands, sem þá hét reyndar Gallía. Hún er þá nefnd Opinberunarhátíð, epifanía, í minningu þess að Kristur hefði opinberast með fjórföldum hætti, með fæðingu sinni í Betlehem, með tilbeiðslu vitringanna frá Austurlöndum, með skírn sinni í ánni Jórdan, og loks með fyrsta kraftaverki sínu, þegar hann breytti vatni í vín við brúðkaup í Kana.
Vitringarnir þrír. Hluti af mósaíkmynd frá 6. öld í dómkirkjunni í Ravenna á Ítalíu.
Eftir að kristni var gerð að ríkistrú í Rómaveldi árið 380 hélst opinberunarhátíðin 6. janúar að mestu leyti óbreytt fyrstu áratugina en á 5. öld vék hún smám saman sem fæðingardagur Krists fyrir 25. desember. Rómarkirkjan reytti síðan smám saman öll virðingarmerki af 6. janúar, nema heimsókn vitringanna. Hann átti ekki að geta keppt við 25. desember. Í Austurkirkjunni hélst minningin um skírnina miklu lengur við þennan dag. Þá var ljósadýrð í kirkjunni meiri en nokkru sinni endranær og af þeim sökum bar 6. janúar víða í Austurkirkjunni nöfn sem merktu einna helst dagur hinna heilögu ljósa. Þessari gömlu skírnarminningu þrettándans bregður reyndar fyrir í fornum íslenskum þýðingum á helgisögnum, Maríu sögu og Postula sögum.
Í staðinn fyrir fæðinguna og skírnina gerði Rómarkirkjan sífellt meira úr gestunum þrem frá Austurlöndum þann 6. janúar. Hinn upphaflegi gríski titill þeirra var stjörnuspámenn. Seinna var farið að kalla þá vitringa, en Rómarkirkjan hækkaði þá í tign og gerði að konungum. Þegar Langbarðar tóku á 8. öld að keppa við Rómaborg um yfirráð á Ítalíuskaga, var þeirri sögu komið á kreik að kóngarnir þrír hefðu á endanum verið jarðsettir í Mílanó. Hún varð snemma helsta borgin sunnan Alpafjalla í Hinu heilaga rómverska ríki þýskrar þjóðar eins og þetta furðulega ríkjasamband var kallað allar götur fram til ársins 1806. Hagsmunaátök milli hinna þýsku og ítölsku hluta urðu til þess, að þýski keisarinn Friðrik Barbarossa, Friðrik rauðskeggur, lagði Mílanó í rúst árið 1162 og lét í kjölfarið grafa upp jarðneskar leifar Austurvegskonunga tveimur árum seinna og flytja þær til biskupssetursins í Köln. Með þessu vildi hann efla virðingu hinnar þýsku kirkju.
Enn eiga helgir dómar konunganna úr Austurvegi að vera geymdir í hinni miklu dómkirkju í Köln. Seint á 14. öld safnaði Jóhannes frá Hildesheim saman fjölmörgum munnmælum um þá þremenninga. Algengustu nöfn þeirra eru Kaspar, Melkoir og Baltasar og þeir eru sagðir hver með sínum lit, hvítur, brúnn og svartur. Þannig varð til það heiti þrettándans sem algengast er á meginlandi Evrópu, Þriggjakonungsdagur. Og það nafn hélst, þó að Marteinn Lúter reyndi um tíma að hæðast að þessum ´þremur flækingum‘ eins og hann kallaði þá.
Á Íslandi varð þetta heiti þrettándans aldrei algengt, þótt menn vissu af konungunum þrem og þetta nafn hans sjáist í tímatali á 17. öld, enda hét dagurinn á máli hins danska einvaldskonungs helligtrekongersdag. Það kom líka fyrir að steypt voru sérstök tólgarkerti fyrir þrettándann með þremur örmum og kölluð kóngakerti.
Mynd:
Fyrir utan fyrstu málsgreinina er þetta svar fengið út bókinni Saga jólanna eftir Árni Björnsson og birt með góðfúslegu leyfi. Textinn er hér örlítið styttur.