Í hugrænum hluta meðferðarinnar leitast meðferðaraðili og sjúklingur við að greina hvaða hugsanir og tilfinningar fylgja kvíðaköstum. Þessar hugsanir og tilfinningar eru síðan ræddar í samhengi "hugræns líkans" af ofsakvíða. Hugrænt líkan af ofsakvíða gerir ráð fyrir því að óæskileg hugarferli, sem kunna að vera ómeðvituð, hrindi af stað vítahring af óttaviðbrögðum. Þeir sem aðhyllast þessa hugmynd telja að ferlið hefjist á því að einstaklingurinn finnur fyrir vægum breytingum á líkamsstarfssemi, svo sem hröðum hjartslætti, stífum magavöðvum eða vægri ógleði. Slík einkenni geta komið til af ýmsu, til dæmis áhyggjum, óþægilegri tilhugsun eða íþróttaæfingum. Þessi líkamseinkenni valda sjúklingnum áhyggjum og kvíða sem eykur svo á einkennin. Við það verður einstaklingurinn enn kvíðnari og fer að hugsa ógnvekjandi hugsanir eins og "ég er að fá hjartaáfall" eða "ég er að missa vitið". Vítahringurinn eflist enn frekar og úr verður ofsakvíðakast. Ferlið allt þarf ekki að vara í meira en nokkrar sekúndur og einstaklingurinn er ekki endilega meðvitaður um líkamseinkennin eða hugsanirnar sem hrintu því af stað. Fylgjendur hugrænna atferlismeðferða telja að með því að kenna fólki að bera kennsl á fyrstu merki kvíðakasta og reyna að breyta viðbrögðum þess megi koma í veg fyrir að vítahringur myndist. Sérstakar aðferðir eru notaðar til þess að kenna fólki að skipta neikvæðum hugsunum út fyrir jákvæðar. Til dæmis er fólki kennt að hugsa "þetta eru bara óþægindi sem munu líða hjá" í stað þess að hugsa "þetta er að versna", "ég er að fá kvíðakast", eða "ég er að fá hjartaáfall". Með breyttum hugsunarhætti öðlast einstaklingurinn smám saman betra vald yfir viðbrögðum sínum. Ólíkt því sem tíðkast í sumum gerðum sálrænna meðferða er ekki lögð áhersla á fortíðina í hugrænni atferlismeðferð. Þess í stað beinast samræður að erfiðleikum og framförum sjúklingsins á líðandi stundu og þeim eiginleikum sem hann þarf að tileinka sér. Atferlishluti meðferðar
Í atferlishluta meðferðarinnar er fólk þjálfað í að takast á við þau umhverfis- og líkamsáreiti sem valda einkennunum. Oft eru kenndar ýmsar slökunaraðferðir til að draga úr almennum kvíða og streitu og öndunaræfingar eru oft hluti af meðferðinni. Oföndunarköst, sem einkennast af hröðum og grunnum andardrætti, geta ýtt undir kvíðaköst en hægt er að koma í veg fyrir þau með réttri öndun.
- Vinna sálfræðingar eingöngu við meðferð? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur, Andra Fannar Guðmundsson og Kjartan Smára Höskuldsson
- Af hverju fær fólk fælni (fóbíur) og hvaða meðferð er hægt að beita við henni? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hver er munurinn á kvíða og hræðslu? eftir Eirík Örn Arnarson
- Af hverju fær maður prófkvíða og hvernig getur maður losnað við hann? eftir Orra Smárason
- Hvernig lýsir félagsfælni sér og er hún algengt vandamál? eftir Eyjólf Örn Jónsson
- Af hverju stafar þunglyndi? eftir Rúnar Helga Andrason og Engilbert Sigurðsson
Svar þetta birtist upphaflega á vefsetrinu persona.is og er birt hér með góðfúslegu leyfi í örlítið styttri útgáfu.