Fyrsta kvíðakastið kemur fólki venjulega í opna skjöldu; hellist gjarnan fyrirvaralaust yfir fólk þegar það er að gera afskaplega hversdagslega hluti eins og að aka bíl eða ganga í vinnuna. Skelfing, angist, vanmáttarkennd og veruleikafirring eru oft meðal fyrstu einkenna. Einkennin eru venjulega verst í nokkrar sekúndur, stundum nokkrar mínútur, og hverfa smám saman á um einni klukkustund. Eins og gefur að skilja valda ofsakvíðaköst iðulega miklu tilfinningalegu uppnámi, og ekki er óalgengt að menn haldi að þeir séu að missa vitið eða veikjast af einhverjum skelfilegum sjúkdómi. Margir leita sér því læknishjálpar eftir fyrsta kast. Fyrsta kvíðakast getur skollið á þegar viðkomandi er undir miklu álagi. Það getur til dæmis fylgt í kjölfar erfiðleika í vinnu, skilnaðar, skurðaðgerðar, alvarlegs slyss, veikinda eða barnsburðar. Óhófleg neysla koffíns eða örvandi fíkniefna og lyfja svo sem kókaíns og vissra astmalyfja getur einnig komið af stað kvíðakasti. Í flestum tilfellum virðast köstin þó koma "upp úr þurru", án nokkurra sýnilegra tengsla við álag eða erfiðleika. Vitaskuld kannast allir við að vera áhyggjufullir, taugastrekktir og kvíðnir af og til, en lögð skal áhersla á það að tilfinningarnar sem fylgja ofsakvíða eru af allt annarri styrkleikagráðu. Þær eru gjarnan svo yfirþyrmandi og ógnvekjandi að viðkomandi er sannfærður um að hann sé að deyja, missa vitið eða verða sér til ævarandi skammar, þótt í raun sé að sjálfsögðu lítil hætta á slíkum ógnar afleiðingum. Sumir fá eitt kast yfir ævina og aðrir fá kast öðru hverju án þess að það hafi teljandi áhrif á daglegt líf þeirra. Þegar um eiginlega röskun er að ræða eru köstin hins vegar þrálát og regluleg og geta valdið miklum þjáningum og félagslegum hömlum. Einkenni
Meðan á kvíðakasti stendur geta sum eða öll eftirfarandi einkenni komið fram:
- Skelfing og vanmáttarkennd - tilfinning um að eitthvað hræðilegt sé um það bil að gerast sem maður er öldungis ófær um að stöðva.
- Hraður hjartsláttur
- Brjóstsviði
- Svimi
- Ógleði
- Öndunarerfiðleikar
- Doði í höndum
- Roði og hiti í andliti eða hrollur
- Tilfinning um að maður sé að missa sjónar á veruleikanum
- Ótti við að glata sjálfsstjórn, missa vitið eða verða sér til skammar
- Feigðartilfinning
Ofsakvíði getur leitt til víðáttufælni. Þeir sem þjást af víðáttufælni eru yfirleitt hræddir við að vera í mannfjölda.
Ef ekkert er að gert getur ofsakvíði leitt til þess að einstaklingar verða hræddir við að koma sér í hverjar þær aðstæður eða umhverfi sem þeir geta ekki losnað úr eða leitað hjálpar við ef kvíðakast skyldi skella á. Þetta ástand kallast víðáttufælni og hrjáir um einn af hverjum þremur einstaklingum með ofsakvíða. Víðáttufælnir einstaklingar eru oft hræddir við að vera í mannfjölda, standa í biðröðum, fara inn í verslunarmiðstöðvar, keyra eða nota almenningssamgöngur. Margir halda sig á "öruggu svæði" sem kann að vera bundið við heimilið eða nánasta umhverfi. Sumir þora ekki út úr húsi án fylgdar náins vinar eða ættingja. Þrátt fyrir slíkar varúðarráðstafanir fær víðáttufælið fólk venjulega kvíðaköst í það minnsta nokkrum sinnum á mánuði. Eins og gefur að skilja getur víðáttufælni verið verulega hamlandi. Hún gerir mörgum ókleift að vinna, og sumir þurfa jafnvel að reiða sig alfarið á fjölskyldu og vini til að sjá um sig. Meðferð
Meðferðir við ofsakvíða bera umtalsverðan árangur í um 70-90 af hverjum 100 tilvikum. Ef meðferð er veitt nógu snemma má koma í veg fyrir að ofsakvíði nái efri stigum og víðáttufælni þróist. Ofgnótt af skjaldkirtilshormóni, ákveðnar gerðir flogaveiki og hjartsláttartruflanir geta valdið einkennum sem svipar til einkenna ofsakvíða. Því ætti fólk alltaf að gangast undir ítarlega læknisskoðun áður en ofsakvíði er greindur. Hugæn atferlismeðferð og ýmis lyf hafa reynst vel til að meðhöndla ofsakvíða. Misjafnt er hvað reynist hverjum og einum best og ef enginn árangur næst að sex til átta vikum liðnum er mælt með því að meðferðaráætlun sé endurskoðuð. Þrálátur ofsakvíði
Ofsakvíði getur verið mjög þrálátur sjúkdómur. Hjá flestum skiptast á góð og slæm tímabil, en stundum getur ofsakvíði tekið sig upp fyrirvaralítið eftir langt sjúkdómshlé. Fólk ætti þó ekki að örvænta því hægt er að meðhöndla endurtekin kvíðaköst á sama hátt og þegar ofsakvíða verður fyrst vart. Þegar fólk hefur einu sinni sigrast á ofsakvíða reynist því venjulega auðveldara að takast á við hann ef hann tekur sig upp aftur. Jafnvel þótt ekki takist að lækna fólk alfarið og kvíðaköst skelli öðru hvoru á, er kvíðinn ekki lengur ríkjandi þáttur í lífi þess. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á kvíða og hræðslu? eftir Eirík Örn Arnarson
- Getur þriggja ára dóttir mín verið með kvíða? Og þá frá fæðingu? eftir Dagmar Kr. Hannesdóttur
- Af hverju fær maður prófkvíða og hvernig getur maður losnað við hann? eftir Orra Smárason
- Af hverju svitnar maður þegar maður er kvíðinn eða stressaður? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju fær fólk fælni (fóbíur) og hvaða meðferð er hægt að beita við henni? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
Svar þetta birtist upphaflega á vefsetrinu persona.is og er birt hér með góðfúslegu leyfi í örlítið styttri útgáfu.