Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er rigning andstæða sólskins. Regn og þungbúinn himinn getur ýtt undir og magnað upp sorglega og drungalega atburði. Rigningin getur hins vegar líka verið tákn um nýtt upphaf og hreinsun, þegar betri tíð er í vændum. Oft kemur sólskin í kjölfar rigningar og gróðurinn þarf líka rigningu til að dafna. Þannig getur rigning hæft vel í atriðum þegar par kyssist eftir rifrildi og deilur. Þá hafa þau náð sáttum á ný og skola burt sorgum sínum. Svo er líka önnur ástæða fyrir rigningu í kvikmyndum. Regn myndast mjög vel, alveg eins og þoka og reykur. Ástæðan fyrir því er sú að þá sést birtan af ljósunum svo vel. Margir kannast eflaust við reyk sem oft er notaður í leiksýningum eða skemmtunum af ýmsu tagi. Reykurinn getur skapað kyngimagnaða stemningu og eins sjáum við betur öll ljósin sem beinast að sviðsmyndinni. Rigningin er í stuttu máli sagt afar myndræn og svo heyrast líka falleg hljóð í henni. Í einni frægustu rigningarsenu kvikmyndanna, þegar Gene Kelly dansar með regnhlíf við titillag myndarinnar Singin' in the Rain þá var mjólk blandað saman við vatn til að rigningin sæist enn betur í mynd. Af öðrum frægum rigningarsenum í kvikmyndum má nefna upphafsatriði Rashomon og síðustu bardagasenu Sjö samuræja eftir japanska leikstjórann Akira Kurosawa. Hann notaði reyndar ýmislegt fleira í veðurfari til að magna upp stemningu í myndum sínum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er einhver ástæða fyrir því að glæpamenn klæðast oft leðurflíkum í kvikmyndum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Af hverju rignir, hvaðan kemur rigningin og hvernig myndast hún? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er sorg? eftir Önnu Rós Jóhannesdóttur
- Wikipedia.org: Singin' in the Rain. Skoðað 31.3.2009.
- A Girl's World.com. Sótt 31.3.2009.