Síðan tekur viðbragðastig við, en þá neyðist manneskjan til þess horfast í augu við raunveruleikann. Segja má að allir kraftar fari þá í að skilja það sem gerst hefur eða mun gerast. Varnarhættir verða oft til á þessu stigi, til dæmis afneitun. Þá tekur við þriðja stig kreppu, úrvinnsla og síðan skilningur eða sátt í kjölfarið. Þetta er tímabil aðlögunar að breyttu lífi og loks er tilfinningum beint á nýjar brautir án þess að vera stöðugt að hugsa um missinn. Í upphafi sorgarferlis getur sársaukinn virst óbærilegur en sorgin er eðlilegur og heilbrigður hluti af manneskjunni sjálfri við slíkar aðstæður. Með tímanum, hjálp annarra, umhyggju og hlustun aðlagast sá sem syrgir venjulega missinum. Oft er talað um að fyrstu tvö árin séu erfiðust en þetta er afar einstaklingsbundið. Samkvæmt kenningum um kreppur og áföll er greint á milli þess að verða fyrir áfallakreppu og þroskakreppu. Áfallakreppa er óvæntur og skyndilegur atburður sem verður til þess að allt breytist og stoðum er kippt undan hinu daglega lífi. Fyrri reynsla, færni og þekking duga ekki til þess að skilja og takast á við atburðinn. Dæmi um áfallakreppu er dauðsfall, fæðing fatlaðs barns eða skyndilegur skilnaður. Þroskakreppur tengjast hins vegar daglegu lífi, hlutverkum og lífsskeiðum. Dæmi um þroskakreppu er að eignast barn, flytja að heiman, skipta um starf og þegar börnin flytja að heiman. Oft getur reynst erfitt að greina á milli þess hvort um er að ræða áfallakreppu eða þroskakreppu. Skyndilegur brottflutningur maka af heimili við skilnað getur valdið áfallakreppu sem veldur mikilli sorg. Stundum þroskast þó hjón í sitt hvora áttina, taka sameiginlega ákvörðun um skilnað og eru bæði sátt við þá ákvörðun. Atburðurinn er þá ekki áfall í sjálfu sér, heldur hluti af þróun sambandsins og þroska tveggja einstaklinga, og telst þá til þroskakreppu. Meira er fjallað um sorg í svari sama höfundar við spurningunni Hver er munurinn á þeirri sorg sem fylgir skilnaði og dauðsfalli?
Heimildir:
- Cullberg, J. (1975). Kreppa og þroski. Bókaforlag Odds Björnssonar.
- Worden, J. W. (2008). Grief Counselling and Grief Therapy. A handbook for the Mental Health Practitioner (Fourth Edition). New York: Springer Publishing company.