Munur á sorg vegna dauðsfalls annars vegar og skilnaðar hins vegar getur falist í afleiðingum og viðbrögðum umhverfis. Við fráfall maka fær eftirlifandi jafnan samúð og umhyggju. Sá sem lést er horfinn að eilífu. Við dauðsfall eru fyrir hendi skýrar reglur og hefðir um það hvernig hinn látni er kvaddur. Það undirstrikar missinn og veitir farveg fyrir sorgarúrvinnslu og samúð til eftirlifandi. Oft verða margir til þess að veita hjálparhönd, bæði fagaðilar, ættingjar og vinir. Við skilnað geta viðbrögð umhverfis verið afar breytileg. Margir mæta skilningi og hlýju, aðrir geta mætt andúð og jafnvel fordæmingu. Sumir missa samband við fyrrverandi tengdafjölskyldu og vini, jafnvel börn sín. Mikill söknuður og sorg getur fylgt því. Þetta á oft við um þá sem eiga sök á skilnaði. Sá sem hins vegar á ekki upptökin að skilnaðinum, getur þurft að takast á við tilfinningar af öðrum toga. Það að horfa upp á fyrrverandi maka með nýjum lífsförunaut getur valdið óbærilegri þjáningu. Sorgin og sorgarferlið verður oft blandið reiði og höfnunartilfinningu sem erfitt getur reynst að vinna úr og jafna sig á. Þetta getur leitt af sér beiskju og einmanaleika. Þá getur þjóðfélagsstaða og efnahagur breyst mikið og skipting eigna raskað fjárhag illilega. Slíkar breytingar geta verið mikið áfall í sjálfu sér en bæði makamissir og skilnaður felur jafnan í sér breytta þjóðfélagsstöðu. Samfélagið gerir ráð fyrir hjónum í flestu samhengi og getur það verið afar erfitt fyrir þá sem skyndilega verða einir. Það að syrgja brostnar vonir, misheppnað hjónaband og að sakna maka eftir skilnað mætir ekki sama skilningi og makamissir og má oft segja að sú sorg sé lítt viðurkennd og jafnvel óleyfileg. Sorg er einstaklingsbundin tilfinning þess sem hana ber. Því er allur samanburður í slíku samhengi varhugaverður. Það er þó vitað að sorg sem fær úrvinnslu og farveg getur leitt til aukins þroska manneskjunnar og meiri skilnings á raunverulegri getu og takmörkunum. Við bendum lesendum einnig á að lesa svar sama höfundar við spurningunni Hvað er sorg?
Heimildir:
- Cullberg, J. (1975). Kreppa og þroski. Bókaforlag Odds Björnssonar.
- Worden, J. W. (2008). Grief Counselling and Grief Therapy. A handbook for the Mental Health Practitioner (Fourth Edition). New York: Springer Publishing company.
- Daylife.com. Sótt 4.3.2009.