Mögulegt er að nafnið Troia sé komið af nafninu *Tarusia sem er einnig að finna í hittitískum heimildum. Varðveitt er bréf frá því um 1250 f.Kr. sem nefnist Tawagalawa-bréfið. Það er bréf frá konungi Hittíta til konungs Ahhiyawanna en þar getið um borgina Wilusa sem konungur segir að Hittítar og Ahhiyawar hafi farið í stríð út af. Í Hómerskviðum segir frá stríði Trójumanna og Grikkja – sem eru gjarnan nefndir Akkear – um borgina Ilíon. Í hittitískum heimildum er konungur í Wilusa enn fremur nefndur Alaksandu en í Hómerskviðum er tróverski konungssonurinn París yfirleitt nefndur Alexandros. Hittítar og Ahhiyawar virðast einnig hafa tekist á um borgina Millawanda eða Milawata sem er nánast örugglega gríska borgin Míletos sunnar í Litlu-Asíu. Það má því vera að Ahhiyawar í hittitískum heimildum séu Grikkir og Wilusa sé borgin sem Hómer segir að Grikkir hafi setið um. Að minnsta kosti virðist sem Grikkir og Hittítar hafi tekist á um yfirráð yfir vesturströnd Litlu-Asíu seint á bronsöld. Fleiri líkindi eru með nöfnum úr grískum bókmenntum og hittitískum heimildum: Tawagalawa-bréfið er nefnt eftir bróður konungs Ahhiyawanna, Tawagalawa, en það kann að vera sama nafnið og *Etewoklewes, sem er eldra form nafnsins Eteókles, sem þekkt er úr grískum goðsögum en þar voru Eteókles og bróðir hans Pólýneikes synir Ödípúsar konungs í Þebu. Einnig hefur verið giskað á að nafnið Attarsiya, sem kemur fyrir í hittitískum heimildum, sé sama nafnið og Atreifur (Atreus) sem þekkt er úr grískum goðsögum en Atreifur var faðir Agamemnons konungs í Mýkenu og Menelásar konungs í Spörtu. Þessar ágsikanir eru þó mun umdeildari. Undanfarna tvo áratugi eða svo hafa þó æ fleiri fræðimenn fallist á að borgin Wilusa í hittitískum heimildum hafi verið borgin Trója og að Ahhiyawar hafi verið Grikkir.
Endurgerð á Tróju VI, sem gæti hafa verið borgin sem fjallað er um Hómerskviðum.
- Hvað er fleygletur? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvenær er talið að siðmenning eins og við þekkjum hana hafi byrjað? eftir Harald Ólafsson
- Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Bryce, Trevor, Life and Society in the Hittite World (Oxford: Oxford University Press, 2002).
- Bryce, Trevor, The Kingdom og the Hittites (Oxford: Clarendon Press, 1998).
- Bryce, Trevor, The Trojans and their Neighbours (London: Routledge, 2006).
- Collins, Billie Jean, The Hittites and their World (Leiden: Brill, 2008).
- Gurney, O.R., The Hittites 2. útg. (New York: Penguin, 1954).
- Grein um Hittites á Wikipedia.org. Sótt 29.4.2009.
- Trója VI er af The archaeology of the ancient near east: Hittite period in Anatolia: Images. Sótt 12.10.2005, G. Kenneth Sams og Háskólinn í Norður-Karólínu í Chapel Hill.