1. Kostnaður við uppbyggingu borgar
Flest það sem þarf til að byggja borg eða borgarhverfi verður dýrara ef byggðin er dreifð, einfaldlega vegna þess að ýmis stofnkostnaður verður meiri, það er að segja kostnaðurinn verður meiri á hvern íbúa sem býr á svæðinu. Sem dæmi má nefna, að kostnaður við landakaup verður meiri og stofnæðar veitna, skólps og vegakerfis verða lengri miðað við íbúafjölda og því dýrari.
2. Rekstrarkostnaður borgar borinn af sveitarfélaginu
Ekki er nóg með að stofnkostnaður verði meiri, til dæmis í veitukerfum, heldur verður allur rekstrar- og viðhaldskostnaður meiri, en það er oft sá kostnaður sem afdrifaríkastur er, því að hann fellur til ár eftir ár og safnast upp í geysilegar upphæðir.
Til þess að hægt sé að halda uppi strætisvagnaþjónustu, þarf tiltekinn þéttleika byggðar. Ef byggðin er nógu þétt, ber þjónustan sig, en ef þéttleikinn er lítill verður fjöldi kílómetra á hvern farþega það hár, að sveitarfélagið þarf að borga með þjónustunni. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að borga háar upphæðir með strætisvögnum og mun framlag Reykjavíkur einnar vera um 700 milljónir á ári eða um 2 milljónir á dag. Og "drjúgt er það sem drýpur”, þannig að þetta meðlag með strætó er komið upp í 7 milljarða sé horft til 10 ára.
3. Rekstrarkostnaður fyrirtækja og einstaklinga
Stærsti aukakostnaðurinn af dreifðri byggð fyrir fyrirtæki og einstaklinga, kemur til vegna lengri vegalengda og hærri flutningskostnaðar. Hér er ekki bara um að ræða meiri bensín- og rekstrarkostnað bíla, heldur líka þann tíma sem ferðir taka, og tími er peningar.
Í seinni heimsstyrjöldinni var stærsti hluti Reykjavíkur innan Hringbrautar og þó bjuggu yfir 40 þúsund íbúar í bænum. Á þeim tíma voru fjarlægðirnar það viðráðanlegar að flestir fóru gangandi í vinnu, verslanir og skóla, þó hagkvæmt strætisvagnakerfi væri þá komið í bænum.
Ástæða þess að flestir gátu farið fótgangandi var þó ekki aðeins sú að fjarlægðir voru litlar heldur líka það, að þá var byggðin það góð blanda af íbúðarbyggð, atvinnustöðum og þjónustu, að flest það sem þurfti var innan sama hverfis. Aðgreining þessara þátta borgarinnar hefur því, í viðbót við stöðuga útþynningu byggðarinnar, leitt til þess að fáir geta verið án bíls.
Þrátt fyrir hinn mikla kostnað sem tengist því að byggja borg dreift, eru þó ákveðnir hlutir sem eru ódýrari í dreifðri byggð, til dæmis bílastæði. Þegar þarf að byggja sérstök bílastæðahús vegna þrengsla er kostnaðurinn um 2 milljónir á hvert stæði en þegar verslun kaupir eða leigir ódýrt land í útjaðri byggðar, er stofnkostnaðurinn á bílastæði ef til vill aðeins um 100 þúsund krónur. Þetta er ein af ástæðum þess að verslunin á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að leita út í „útmörkina” þar sem gífurleg flæmi eru lögð undir bílastæði og götur.
Hinn aukni kostnaður sveitarfélaga og einstaklinga við þessa gerð skipulags er hins vegar yfirleitt ekki reiknaður út, og er það miður, því þá kæmi í ljós að skipulagsstefna dreifingar og einhæfra svæða, sem kallar á mikla bílanotkun, er geysilega dýr fyrir þjóðfélagið. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvernig eru hugtökin dreifbýli og landsbyggð skilgreind hér á landi? eftir Sigurð Guðmundsson
- Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hver er fámennasti bær/þorp á Íslandi og hversu margir búa þar? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvar er hægt að finna upplýsingar um fjölda íbúa í sveitarfélögum á Íslandi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur