Nokkuð hefur verið ritað um sólina á Vísindavefnum, en þó hefur aldrei verið minnst á flatarmál hennar. Ástæða þess er eflaust sú að yfirborð sólarinnar er ekki flötur í sama skilningi og við tölum um flatarmál jarðarinnar eða Vestfjarða. Í sólinni er gas og yfirborð hennar er því ekki vel skilgreindur flötur á tilteknum stað. Þegar talað er um geisla (radíus) sólarinnar er átt við lengdina frá miðju sólarinnar að ljóshvolfi hennar. Nánar má lesa um sólina, hitastig hennar, yfirborð og margt fleira í þeim svörum sem vísað er til hér á eftir. Ef við viljum að gamni okkar reikna flatarmál sólarinnar, þrátt fyrir að það hafi takmarkað gildi, má gera það svona: Þegar geisli kúlu er þekktur má finna flatarmál yfirborðsins með eftirfarandi jöfnu:
F = 4 p r2,þar sem F stendur fyrir flatarmál og r fyrir geisla. Lítum nú á svar Tryggva Þorgeirssonar, Hvað er sólin stór? Þar sjáum við að geisli sólarinnar er um 696.000 km. Þegar sú tala er sett í jöfnuna okkar hér að ofan fæst að flatarmál sólarinnar er um 6.100.000.000.000 km2. Til samanburðar er flatarmál jarðarinnar um 5.100.000.000 km2.
- Af hverju er sólin til? eftir Árdísi Elíasdóttur og Gunnlaug Björnsson.
- Hvað er sólin heit? eftir Tryggva Þorgeirsson.
Mynd: Solarviews.com