Töluleg smáatriði eru breytileg frá einu tilviki til annars en venjulega (usually) verður maður ekki hissa þó að gögn víki frá meðaltali um eitt eða tvö staðalfrávik. Hins vegar lyftast nokkrar augabrúnir [a few raised eyebrows] ef einhver punktur sem lýsir gögnum er meira en þrjú staðalfrávik í burtu. (Barlow, 1989, 8)[Hér viljum við geta þess að höfundur hefur líklega ekki lesið Egils sögu þannig að óljóst er hvort hann gerir ráð fyrir þeim óvenjulega möguleika að fjöldi augabrúna sem lyftast getur verið oddatala, en Egill gat sem kunnugt er venjulega lyft annarri augabrúninni og látið hina síga um leið.] Venjulega gefur stærðfræðin okkur skýr svör en það verður þó varla sagt um þetta. Og ekki tekur betra við þegar kemur að því að skilgreina hvað staðalfrávik er. Um það segir þessi hreinskilni og orðsnjalli höfundur:
Þegar við viljum skilgreina staðalfrávik er um marga kosti að velja eins og við séum stödd á jarðsprengjusvæði, og heiti fyrirbærisins er eins og aulafyndni. The definition of s [standard deviation] is a minefield of alternatives, and to call it the 'standard' deveiation is something of a sick joke. (Op. cit., 10).Nokkru síðar vísar höfundur í hina frægu og venjulegu deilu hænunnar og eggsins í tengslum við þessar skilgreiningar, en um þessa deilu er fjallað nánar í svari Sigurðar S. Snorrasonar við spurningunni Hvort kom á undan, eggið eða hænan? En venjulega vilja menn þrátt fyrir allt sjá tölur þegar venjuleg líkindafræði eða tölfræði er annars vegar. Frekar venjulegt er að mælingar á tiltekinni mælistærð fylgi svokallaðri Gauss-dreifingu eða normlegri dreifingu eins og hún er líka kölluð (Gaussian eða normal distribution). Þá liggja að meðaltali 68% af mæligildum innan eins staðalfráviks frá meðalgildi, 95% innan tveggja staðalfrávika og 99,7% innan við 3s. Venjulegur lesandi gæti því venjulega sagt til dæmis að venjulegt sé að segja að venjuleg mæligildi séu innan tveggja staðalfrávika og séu því um það bil 95% af öllum gildum sem mæld eru en óvenjulegu gildin séu þar fyrir utan og þar af leiðandi um 5% af heildinni. Síðan mætti kannski bryggja (e. extrapolate) þetta orðalag og segja að 95% blóma séu venjuleg blóm, 95% af fjöllum séu venjuleg fjöll, og 95% af okkur mönnunum séu venjulegir menn. En hér spyr sá sem ekki veit. Við getum líka sagt að hér hafi farið eins og venjulega á Vísindavefnum, að okkur hafi tekist að leiða rök að skynsamlegu og venjulegu svari þrátt fyrir slæmar horfur í byrjun. Við höfum gluggað í venjulega kennslubók í tölfræði og fundið þar óvenjulega óvenjulegt orðalag, miðað við það sem gengur og gerist í stærðfræðibókum. Engu að síður tókst okkur með venjulegum flettingum í bókinni að finna þar venjulegar tölur og höfum sett þær fram með venjulegum hætti. Er þetta svar þá ekki bara óvenjulega venjulegt (föstudags)svar? Heimild: Roger Barlow, 1989. Statistics: A Guide to the Use of Statistical Methods in the Physical Sciences. Chichester: Wiley.
Mynd: HB