Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hét hestur Alexanders mikla?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Stríðsfákur Alexanders mikla Makedóníukonungs (356-323 fyrir Krist) hét Búkífalos, en það merkir uxahaus. Búkífalos dó af sárum sem hann hlaut í síðustu stórorrustu Alexanders við ána Hydaspes sem nú nefnist Jhelum og er í Pakistan. Til að minnast hans reisti Alexander borgina Búkefala sem stóð að öllum líkindum þar sem borgin Jhelum er í dag.

Búkífalos, líkt og eftirlætishestur Júlíusar Sesars, hafði svonefnda áavísi sem merkir að ákveðið einkenni forföðurtegunda kom fram í honum. Hann hafði ekki venjulega hófa heldur nokkrar tær á hverjum fæti sem enduðu í litlum hófum.


Hluti af mósaíkmynd frá 1 öld f.Kr. Á myndinni sést Alexander á Búkífalosi í bardaganum við Issos.

Ýmis „stórmenni“ sögunnar höfðu dálæti á hestum. Hestur Hernando Cortésar hershöfðinga hét El Morzillo. Af honum reistu indíánar styttu. Líklega kemst rómverski keisarinn Calígúla þó lengst í dýrkun sinni á hrossum. Hesthús Incitatusar, sem var augasteinn Calígúla, var úr marmara og hann var bundin með demantsfesti á fílabeinsbás. Incitatus var iðulega heiðursgestur í veislum þar sem skálað var fyrir klárnum og Calígúla stefndi að því, líklega til að gera stjórnkerfi Rómaveldis skilvirkara, að gera Incitatus að ræðismanni.

Grikkinn Plútarkos (um 46 - um 120) segir frá því í ævisagnariti sínu hvernig Alexander eignaðist Búkífalos. Filippusi föður Alexanders var boðinn glæstur fákur til sölu en sá hængur var á að enginn gat setið hann. Alexander, sem þá var 12 ára, vildi reyna og krafðist þess að fá hestinn að launum ef hann gæti riðið honum. Alexander hafði tekið eftir því að óstýrilæti hestsins stafaði af hræðslu við eigin skugga. Hann teymdi Búkífalos þess vegna á móti sólu og stökk á bak þegar hesturinn var orðinn spakur. Fyrir þetta fékk hann gæðinginn að launum.

Eftir þetta afrek, segir Plútarkos, varð Filippusi ljóst að Alexander yrði stórmenni. Hann réð þess vegna heimspekinginn Aristóteles til að kenna syni sínum svo að hann hlyti hina bestu menntum. Plútarkos segir einnig frá því að í herferðum hafi Alexander alltaf haft með sér eintak af Ilíonskviðu Hómers með útskýringum kennara síns. Að sögn var uppáhaldsljóðlína Alexanders orð Helenu um Agamemnon í þriðja þætti kviðunnar: „hann er hvortveggja, góður konungur og hraustur hermaður.“

Búkífalos er með þekktustu hestum sögunnar. Feneyingurinn Markó Póló rakti uppruna hins forna Akhal-Teke hestakyns til Búkífalosar. Búkífalos hefur einnig ratað inn í bókmenntasögu 20. aldarinnar. Í stuttri sögu eftir rithöfundinn og lögfræðinginn Franz Kafka kemur þessi kunni fákur Alexanders mikla fyrir. Í sögunni er hann að vísu án knapans en sjálfur tekinn að mennta sig og lesa af kappi. Í sögu Kafka sem nefnist „Nýi lögfræðingurinn“ er Búkífalos nefnilega orðinn doktor og sinnir lögfræðistörfum, þó að margt minni á glæsta fortíð hans, ekki síst einkar tígulegt göngulag lögfræðingsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir

  • Bibliomania. Skoðað 5.4.2002.
  • Forum Romanum. Skoðað 5.4.2002.
  • Musons History. Skoðað 5.4.2002.
  • Franz Kafka, Í refsinýlendunni og fleiri sögur (þýð. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson), Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1991.
  • The Oxford Companion to Classical Literature (ritstj. M. C. Howatson), 2. útg., Oxford University Press, London, 1989.

Mynd:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

5.4.2002

Spyrjandi

Gróa Valdimarsdóttir, f. 1990

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað hét hestur Alexanders mikla?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2268.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 5. apríl). Hvað hét hestur Alexanders mikla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2268

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað hét hestur Alexanders mikla?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2268>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hét hestur Alexanders mikla?
Stríðsfákur Alexanders mikla Makedóníukonungs (356-323 fyrir Krist) hét Búkífalos, en það merkir uxahaus. Búkífalos dó af sárum sem hann hlaut í síðustu stórorrustu Alexanders við ána Hydaspes sem nú nefnist Jhelum og er í Pakistan. Til að minnast hans reisti Alexander borgina Búkefala sem stóð að öllum líkindum þar sem borgin Jhelum er í dag.

Búkífalos, líkt og eftirlætishestur Júlíusar Sesars, hafði svonefnda áavísi sem merkir að ákveðið einkenni forföðurtegunda kom fram í honum. Hann hafði ekki venjulega hófa heldur nokkrar tær á hverjum fæti sem enduðu í litlum hófum.


Hluti af mósaíkmynd frá 1 öld f.Kr. Á myndinni sést Alexander á Búkífalosi í bardaganum við Issos.

Ýmis „stórmenni“ sögunnar höfðu dálæti á hestum. Hestur Hernando Cortésar hershöfðinga hét El Morzillo. Af honum reistu indíánar styttu. Líklega kemst rómverski keisarinn Calígúla þó lengst í dýrkun sinni á hrossum. Hesthús Incitatusar, sem var augasteinn Calígúla, var úr marmara og hann var bundin með demantsfesti á fílabeinsbás. Incitatus var iðulega heiðursgestur í veislum þar sem skálað var fyrir klárnum og Calígúla stefndi að því, líklega til að gera stjórnkerfi Rómaveldis skilvirkara, að gera Incitatus að ræðismanni.

Grikkinn Plútarkos (um 46 - um 120) segir frá því í ævisagnariti sínu hvernig Alexander eignaðist Búkífalos. Filippusi föður Alexanders var boðinn glæstur fákur til sölu en sá hængur var á að enginn gat setið hann. Alexander, sem þá var 12 ára, vildi reyna og krafðist þess að fá hestinn að launum ef hann gæti riðið honum. Alexander hafði tekið eftir því að óstýrilæti hestsins stafaði af hræðslu við eigin skugga. Hann teymdi Búkífalos þess vegna á móti sólu og stökk á bak þegar hesturinn var orðinn spakur. Fyrir þetta fékk hann gæðinginn að launum.

Eftir þetta afrek, segir Plútarkos, varð Filippusi ljóst að Alexander yrði stórmenni. Hann réð þess vegna heimspekinginn Aristóteles til að kenna syni sínum svo að hann hlyti hina bestu menntum. Plútarkos segir einnig frá því að í herferðum hafi Alexander alltaf haft með sér eintak af Ilíonskviðu Hómers með útskýringum kennara síns. Að sögn var uppáhaldsljóðlína Alexanders orð Helenu um Agamemnon í þriðja þætti kviðunnar: „hann er hvortveggja, góður konungur og hraustur hermaður.“

Búkífalos er með þekktustu hestum sögunnar. Feneyingurinn Markó Póló rakti uppruna hins forna Akhal-Teke hestakyns til Búkífalosar. Búkífalos hefur einnig ratað inn í bókmenntasögu 20. aldarinnar. Í stuttri sögu eftir rithöfundinn og lögfræðinginn Franz Kafka kemur þessi kunni fákur Alexanders mikla fyrir. Í sögunni er hann að vísu án knapans en sjálfur tekinn að mennta sig og lesa af kappi. Í sögu Kafka sem nefnist „Nýi lögfræðingurinn“ er Búkífalos nefnilega orðinn doktor og sinnir lögfræðistörfum, þó að margt minni á glæsta fortíð hans, ekki síst einkar tígulegt göngulag lögfræðingsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir

  • Bibliomania. Skoðað 5.4.2002.
  • Forum Romanum. Skoðað 5.4.2002.
  • Musons History. Skoðað 5.4.2002.
  • Franz Kafka, Í refsinýlendunni og fleiri sögur (þýð. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson), Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1991.
  • The Oxford Companion to Classical Literature (ritstj. M. C. Howatson), 2. útg., Oxford University Press, London, 1989.

Mynd:...