Fótspor eftir risaeðlur hafa fundist á allmörgum stöðum, en ekki er alltaf ljóst hvaða dýr skildu eftir sig sporin. Í mörgum tilvikum er þó unnt að rekja ákveðin spor til ákveðinnar tegundar. Þegar það er ekki hægt hefur sporunum verið gefin sérstök nöfn á latínu, án tillits til þess hvaða dýr skildi þau eftir sig. Í nokkrum tilvikum hefur verið unnt að sjá hvernig risaeðlur ferðuðust um og fundist hafa spor sem benda til þess að sumar jurtaæturnar hafi haft ungviðið inni í hring stórra, fullvaxinna dýra. Þá má stundum ráða af sporunum hversu hratt dýrið fór og jafnvel fótlengd þess.
Stærstu fótspor eftir risaeðlur, sem unnt er að rekja með vissu til ákveðinnar tegundar, eru líklega fótspor þórseðlu (Apatosaurus). Farið eftir ilina á afturfæti er 72 cm langt og 55 cm breitt, en á framfæti 40 cm langt og 45 cm breitt. Förin eftir afturfæturna eru perulaga og breiðust fremst, en varla sést móta fyrir tánum þótt dýrin hafi fyrst of fremst gengið á þeim, enda voru tærnar á sameiginlegum ilpúða líkt og hjá fílum í dag. Hjá ráneðlunum, til dæmis grameðlu (Tyrannosaurus), sést vel móta fyrir tánum, en þær voru þrjár og enduðu allar í beittri kló. Fótsporið er þess vegna ekki ósvipað og hjá fuglum sem ekki hafa sundfit. Lengd iljar um miðtá gat orðið allt að því 64 cm og breiddin að minnsta kosti 54 cm hjá grameðlu.
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson.
- Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var?eftir Leif A. Símonarson.
- Af hverju hafa risaeðlur verið til lengur en mannfólk og af hverju eru ekki ennþá til risaeðlur? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hver var stærsta risaeðlan? eftir Leif A. Símonarson.
- Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? eftir Leif A. Símonarson.
- Hvað voru risaeðlutegundir margar þegar þær voru uppi? Eru einhverjar núlifandi dýrategundir náskyldar þeim? eftir Leif A. Símonarson.
Teikning af Þórseðlu: The Natural History Museum, London Mynd af fólki og Þórseðlu: Úr kvikmyndinni Jurassic Park