Þessar breytingar höfðu líka áhrif á dýrin sem lifðu á gróðrinum og aftur rándýrin sem lifðu á grasbítunum. Nú þurftu dýrin að hafa meira fyrir því að ná í fæðuna og þá voru dýr með meiri hreyfiorku og betri einangrun en skriðdýrin, dýr eins og fuglar og spendýr, miklu hæfari eða heppilegri. Harðast komu þessar breytingar niður á stórum dýrum sem þar að auki voru orðin sérhæfð í fæðuvali og þurftu mikið að éta. Nú varð samkeppni um fæðuna miklu harðari en áður. Þá hefur því einnig verið haldið fram að loftsteinn, loftsteinar eða jafnvel halastjarna hafi rekist á jörðina um þetta leyti og orðið þess valdandi að mikið rykský þyrlaðist upp. Skýið skyggði á sólu með þeim afleiðingum að ljóstillífun minnkaði stórlega. Það hafði slæm áhrif á plönturnar og áfram á dýrin sem lifðu á þeim og loks á rándýrin. Þegar litið er til útdauðans á mörkum Krítar og Tertíers er rétt að minna á að hann er ekki eins mikill og á mörkum sumra eldri jarðsögutímabila. Hins vegar verður okkur starsýnna á hann vegna þess að þá hurfu velþekktir dýrahópar, eins og til dæmis ammónítar, belemnítar og risaeðlur. Það er löngu ljóst að allir þessir hópar voru að týna tölunni á ofanverðu Krítartímabilinu. Í lok þess er talið að aðeins 12 tegundir risaeðla hafi verið eftir lifandi og þær tilheyrt átta ættkvíslum. Úr jarðlögum frá byrjun síðasta tíma (epoch) á Krít, sem kallast Maastrichtian, eru þekktar 34 ættkvíslir ammóníta, en af þeim er aðeins helmingurinn lifandi alveg við mörk Krítar og Tertíers. Talið er að af belemnítum hafi aðeins tvær tegundir verið lifandi á mörkunum. Af þessu má því vera nokkuð ljóst að í þessum tilvikum hefur loftsteinn eða halastjarna, sem rakst á jörðina um þetta leyti, hitt fyrir hnignandi dýrahópa sem þegar áttu í verulegum erfiðleikum vegna umhverfisbreytinga.
Þetta virðist hins vegar ekki hafa verið tilfellið með krókódíla. Þeir voru ekki eins sérhæfðir, til dæmis hvað varðar fæðuval og lífssvæði. Þeir lifðu og lifa á mörkum lands og vatns eða sjávar og stefndu raunar inn í eitt af sínum blómlegustu þróunarskeiðum í byrjun Tertíers.
- Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Af hverju hafa risaeðlur verið til lengur en mannfólk og af hverju eru ekki ennþá til risaeðlur? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Er hægt að einrækta útdauð dýr? eftir Magnús Jóhannsson.
- Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? eftir Leif A. Símonarson.
- Hver var stærsta risaeðlan? eftir sama höfund.
Ljósmyndir: HB