Um fjölda risaeðla er erfitt að fullyrða, en alls hefur verið lýst 737 ættkvíslum. Hins vegar er talið líklegt að þær hafi verið mun fleiri því að leifar landdýra varðveitast yfirleitt ekki sérlega vel nema þær grafist í setlög. Því má gera ráð fyrir að mikill fjöldi risaeðluleifa hafi tapast, brotnað niður, leyst upp og eyðst á yfirborði jarðar eftir að bakteríur og aðrar hræætur voru búnar að hreinsa kjötið af beinunum. Margir telja að ættkvíslafjöldinn hafi jafnvel verið einhvers staðar á bilinu 1.200 til 1.500. Yfirleitt eru sárafáar tegundir taldar til hverrar ættkvíslar risaeðla, þannig að tegundirnar eru sennilega ekki miklu fleiri en ættkvíslirnar. Fyrstu risaeðlurnar komu fram á Tríastímabili, en það hófst fyrir 245 milljón árum og því lauk fyrir 208 milljón árum, en þá tók við Júratímabil. Varla verður sagt að risaeðlur hafi verið áberandi fyrst á Trías. Þær sækja ögn í sig veðrið þegar líður á tímabilið og í lok þess er ættkvíslafjöldinn talinn um 56 og tegundafjöldinn rúmlega 80. Í lok Júratímabils, fyrir rúmlega 145 milljón árum, var ættkvíslafjöldinn um 130 og tegundafjöldinn líklega tæplega 200. Í byrjun síðasta tíma (epoch) á Krítartímabili var ættkvíslafjöldinn nær 170 og tegundafjöldinn sennilega nálægt 250. Hins vegar voru í lok Krítar, við mörkin milli Krítar og Tertíers, aðeins eftir 8 ættkvíslir með samtals 12 tegundir. Rétt er að benda á að hér er sennilega um lágmarkstölur að ræða, þar sem gert hefur verið ráð fyrir að ættkvíslirnar séu ekki miklu fleiri en 737. Margir telja að fuglar séu þær núlifandi dýrategundir sem séu skyldastar risaeðlum. Bent hefur verið á að elsti fuglinn, öglir (Archaeopteryx), sé í beinabyggingu, til dæmis hvað varðar beinasamsetningu hauskúpunnar, mjög svo líkur risaeðluættkvíslinni fagurkjálka (Compsognathus) eða þvengeðlu eins og hún er oftast nefnd í íslenskum ritum. Öglir var vissulega fiðraður líkt og núlifandi fuglar, en ólíkur þeim að því leyti að hann hafði tennur í skolti og fría fingur á vænghnúum. Hinu er ekki að leyna að sumir telja að fuglar og risaeðlur hafi þróast frá boleðlum (Thecodontia) og að þessir tveir hópar eigi frekar sameiginlegan uppruna.
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson.
- Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var?eftir Leif A. Símonarson
- Af hverju hafa risaeðlur verið til lengur en mannfólk og af hverju eru ekki ennþá til risaeðlur? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hver var stærsta risaeðlan? eftir Leif A. Símonarson
- Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? eftir Leif A. Símonarson
Mynd af Albertosaurus: University of Calgary, Department of Geology & Geophysics, Current Projects - Andrew MacRae Mynd af ögli: daily-tangents.com