En hvers vegna verður rjómi að smjöri við strokkun?
Aðaluppistaðan í rjóma til þeytingar er vatn og fituefni (36%) en einnig er að finna smávegis prótín (2,2%) og mjólkursykur/kolvetni (2,9%). Fituefnin fyrirfinnast sem litlar fitukúlur (e. fat globules) sem eru um 0,1-20 µm í þvermál. Fitukúlurnar eru umluktar þriggja laga himnu sem kallast mjólkufitukúluhimna (e. milk fat globule membrane) og samanstendur aðallega af flókinni samsetningu prótína og tvígæfra (e. amphipathic) fituefna. Rétt eins og þegar rjómi er þeyttur blandast loft við hann þegar hann er strokkaður. Skakið veldur því að fitukúluhimnurnar rofna og fitukúlurnar losna út í rjómann. Fitukúlurnar eru vatnsfælnar og fara því að raða sér saman utan um loftbólurnar, sem eru einnig fremur vatnsfælnar. Þeyting rjóma er árangurríkust við ísskápshitastig því þá heldur stíft fitukúlunetið loftbólunum vel föngum. Strokkunin fer hins vegar fram við hærra hitastig, 12-16°C, því þá er fitukúlunetið aðeins mýkra. Mýkra fitukúlunet veldur því að loftbólurnar ná að losna úr því við áframhaldandi skak og strokkun en eftir verða fitukúlunet sem klumpast saman. Þar sem fita er vatnsfælin og eðlisléttari en vatn skilur hún sig frá vatnshlutanum og flýtur sem smjörkúlur ofan á vatnsfasanum. Efni mjólkurfituhimnunnar eru hins vegar vatnssækin og leita í vatnsfasann, sem kallast þá áfir.- Reglugerð um mjólkurvörur nr. 851 (2012). (Sótt 31.5.2022).
- Butter and dairy spreads. Dairy Processing - Handbook. Tetrapak.com. (Sótt 31.5.2022).
- Milk Fat. MilkFacts.info. (Sótt 31.5.2022).
- Margrét Gústavsdóttir. (2017, 5. september). FÓKUS Það þarf sjö til tólf hundruð slög til að strokka smjör. DV. (Sótt 31.5.2022).
- Stefán B. Jónsson. (1902). Um Smérgerð. Hlín, 2(1), bls. 1-37. (Sótt 31.5.2022).
- New Word Meaning: Churn | Crossing Borders. (Sótt 31.5.2022).
- Mynd: How to Make Butter | Food | PBS. (Sótt 31.5.2022).