Með tilkomu gagnvirkra vefsíðna eins og Facebook og sýndarheima eins og Second Life fjölgar tækifærum nemenda til að nota markmálið í raunverulegum tjáskiptum við aðra. Þá hefur vefsíðum og spjallrásum fjölgað sem sérhæfa sig í tungumálakennslu. Þær má auðveldlega finna með því að glöggva á leitarvélinni Google. Hér eru til dæmis leitarniðurstöður sem koma ef orðin language learning eru slegin inn og önnur sem kemur ef orðin language learning tools eru notuð. Þar sem engin ein aðferð gildir fyrir alla gæti ef til vill hjálpað að vita hvað einkennir þá nemendur sem eru góðir tungumálanemar. Joan Rubin sem kennir við Yale-háskóla, taldi í grein sem hún skrifaði 1975, að góðir nemendur væru snjallir að giska, hefðu mikla þörf fyrir tjáskipti við aðra, væru óþvingaðir og óhræddir við að gera mistök, leituðu eftir mynstrum í málinu, nýttu sér öll möguleg tækifæri til að æfa sig, vöktuðu eigin málnotkun og annarra, og ígrunduðu merkingu orða og orðasambanda. Rebecca Oxford hefur rannsakað námsaðferðir málnema sem tekst vel að tileinka sér erlend tungumál. Það sem einkennir þessa nemendur er að þeir vinda sér í námið af miklum áhuga og á skipulegan hátt og geta oftast útskýrt hvaða aðferðir henta þeim best. Þeir nota mismunandi námsaðferðir eftir því hvaða hluta málsins þeir eru að vinna með. Við ritun er gott að skipuleggja fyrirfram, spá í orðaforða og orðasambönd og endurrita. Talmálsþjálfun krefst endursagnar, endurtekningar og sjálfsvaktar. Hlustun og skilningur verður betri ef málhafinn er undirbúinn, einbeittur og er tilbúinn að giska á merkingu og leita eftir staðfestingu á réttum skilningi. Lesskilningur gengur betur ef málneminn er undirbúinn fyrirfram til að takast á við textann, hefur kynnt sér innihaldið, hefur nægilega bakgrunnsþekkingu og orðaforða til að skilja hann. Langskemmtilegast er svo að tungumálanámið fari fram í tengslum við menningu þeirrar þjóðar sem talar markmálið. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig læra börn tungumálið? eftir Sigríði Sigurjónsdóttur
- Er hægt að endurforrita heilann í miðaldra körlum? eftir HMS
- Er erfitt að læra? eftir ÞV
- Töluðu steinaldarmenn tungumál? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvaða tungumál í heiminum hefur einföldustu málfræðina? eftir Guðrúnu Kvaran
- Open Knowledge and the Public Interest. Sótt 20.2.2009.