Þegar hákarl er verkaður er hann fyrst kæstur og síðan látinn hanga í einhvern tíma. Lyktin kemur fram við kæsinguna. Í holdi brjóskfiska, svo sem hákarla, er hár styrkur bæði af þvagefni (e. urea) og efni sem kallast trímetýlamínoxíð (TMAO) eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hvers vegna er hægt að kæsa brjóskfiska en ekki beinfiska?
Ástæðan fyrir þessu er sú að ólíkt mörgum öðrum hryggdýrum hafa hákarlar ekkert þvagkerfi og þvagefnið streymir þess vegna úr vefjum og blóðrás dýrsins með osmósu. Við kæsingu umbreytist þvagefnið í ammoníak (NH3) og trímetýlamínoxíð í trímetýlamín (TMA) og það eru einmitt þessi efni (NH3 og TMA) sem öðru fremur valda bæði stækjulyktinni og bragðinu sem einkennir kæstan hákarl. Það þarf því enginn neita sér um hákarl af ótta við að búið sé að míga á hann! Til frekari fróðleiks má glugga í Tæknitíðindi nr. 156 árið 1984 en þar er að finna niðurstöður rannsókna Hannesar Magnússonar og Birnu Guðbjörnsdóttur á þeim örveru- og efnabreytingum sem eiga sér stað við verkun hákarls. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hákarl sem veiðist við Ísland er sagður vera eitraður sé hann etinn ferskur, en erlendis borða menn hákarl ferskan. Hvernig stendur á þessu?
- Hvað er keyta?
- Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Chris 73. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 Unported leyfi. Sótt 24. 1. 2010.