Hvers vegna er hægt að kæsa brjóskfiska, svo sem skötu og hákarl, en ekki beinfiska, sem úldna við sömu meðferð?Brjóskfiskar, svo sem háfiskar, innihalda háan styrk þvagefnis (urea) í holdi sínu, sem hefur það meginhlutverk að viðhalda réttum osmótískum þrýstingi í vefjum þeirra. Vefir brjóskfiska innihalda einnig háan styrk efnisins trímetýlamínoxíðs (TMAO) sem virðist meðal annars hafa það hlutverk að vega upp óæskileg áhrif þvagefnis á stöðugleika próteina. Ef styrkur þvagefnis er nægilega hár afmyndar það prótein, þar á meðal lífhvata (ensím) sem stjórna öllum efnaskiptum lífvera. TMAO eykur aftur á móti stöðugleika þessara lífsnauðsynlegu sameinda og verkar því á móti þessum óæskilegu áhrifum þvagefnis á prótein.
- Wikipedia.com - porbeagle (Lamna nasus). Sótt 23.2.2011.